Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2006 Aðalskipulag Ak.

Ár 2006, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 12. september 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 12. október 2006, kærir Eyvindur G. Gunnarsson hrl., fyrir hönd Ötuls ehf., Viðjulundi 2, Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með hinni kærðu ákvörðun mun m.a. landnotkun lóðar kæranda að Viðjulundi 2, Akureyri, hafa verið breytt úr athafnasvæði í íbúðabyggð en kærandi hafði mótmælt þeirri breytingu við kynningu tillögunnar.  Telur kærandi að málsmeðferð hinnar kærðu tillögu hafi verið ábótavant og gangi hún gegn hagsmunum hans.  Bendir kærandi jafnframt á að fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra hans frá árinu 2005 vegna synjunar bæjaryfirvalda á umsókn um uppbyggingu lóðarinnar að Viðjulundi 2.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   ___________________________         
                Hjalti Steinþórsson                          

 

      ____________________________               _____________________________
                    Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson