Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2019 Álakvísl

Árið 2020, föstudaginn 27. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 um að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kærir eigandi, Álakvísl 7a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2019.

Málavextir: Upphaf máls þessa má rekja til ábendingar kæranda frá 22. febrúar 2017 vegna lofttúðu/útblástursviftu að Álakvísl 7b. Í ábendingu kæranda kom m.a. fram að íbúi Álakvíslar 7b hefði borað gat á vegg, sem snúi að sameiginlegum utanáliggjandi palli/svölum, og sett þar upp lofttúðu fyrir útblástur frá eldhúsháfi. Kæmi þaðan óbærilegur fnykur sem leitaði út í horn, beint fyrir framan íbúð kæranda. Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til þinglýsts eiganda Ála­kvíslar 7b, dags. 30. janúar 2019, var eigandanum gert að sækja um byggingarleyfi vegna útblásturs­viftu við útidyr. Vísað var til gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem mælir fyrir um að óheimilt sé að reisa mannvirki, breyta því, burðakerfi þess, lagnakerfum, notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Yrði tilmælum byggingar­fulltrúa ekki sinnt myndi hann taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða beitingu dagsekta.

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. júní 2019, var vísað til þess að embættinu hefði borist afrit af skýrslu ráðgjafa vegna hljóðvistar þar „sem ráðlagt er að setja umrædda lofttúðu sem hluta að aðgerðum til að bæta hljóðvist í íbúðinni númer 7a við Álakvísl“. Eftir nánari skoðun á myndum og öðrum gögnum málsins og í ljósi þess að eigandi Álakvíslar 7b hefði aftengt eldhúsháf frá umræddri lofttúðu, og þar með komið í veg fyrir að matarlykt bærist út um hana, væri það niðurstaða byggingarfulltrúa að uppsetning lofttúðunnar væri óveruleg breyting á útliti hússins og félli því undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Er þessi ákvörðun byggingarfulltrúa sú ákvörðun sem kærð er.

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ólögmæta. Það tilvik sem hér um ræði geti ekki með nokkru móti fallið undir c-lið gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins eigi það við um hefðbundið viðhald á húsnæði að utan, þar sem ekki sé um neinar breytingar á útliti þess að ræða. Auk þess séu þar settar þær takmarkanir að nota beri eins eða sambærileg efni og fyrir hafi verið. Ekki verði séð að byggingarfulltrúa sé fengið sérstakt mat að þessu leyti, þ.e. varðandi þær framkvæmdir sem falli undir undanþágu­heimildina. Byggingarfulltrúa sé einungis fengið mat um það hvort viðhaldið sem slíkt feli í sér verulega breytingu á útliti hússins eða ekki, t.d. varðandi efnisval. Hins vegar taki ákvæðið til nýklæðningar og minniháttar breytingar á burða­virki. Ljóst megi vera að ekki sé um slíkt að ræða í þessu tilviki. Verði að mati kæranda að líta svo á að verulegur vafi leiki á því hvort uppsetning á lofttúðu/útblástursviftu, sem tengd sé eldhúsháfi og óumdeilanlega breyti útliti hússins, geti fallið undir undanþáguheimild c-liðar gr. 2.3.5. í reglu­gerðinni.

Í öðru lagi geri kærandi athugasemdir við málsmeðferð byggingarfulltrúa. Fyrir liggi að framkvæmdar­­­­aðili hafi aldrei tilkynnt byggingarfulltrúa um framkvæmdirnar, líkt og gert sé ráð fyrir í c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni og sé í þessu samhengi vakin athygli á gr. 2.3.6. í reglu­gerðinni, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 360/2016 um breytingu á byggingarreglugerð, þar sem mælt sé fyrir um málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda samkvæmt gr. 2.3.5.

Loks sé vakin athygli á annmörkum á málsmeðferð þegar komi að málshraða, svörun á erindum, leiðbeiningar­­skyldu og rökstuðningi eftir á. Kærandi hafi fyrst leitað til byggingarfulltrúa snemma árs 2017. Ljóst megi vera að óhóflegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins, sem brjóti í bága við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi fengið takmarkaðar leið­beiningar frá byggingarfulltrúa. Loks fylgdu hinni kærðu ákvörðun engar leiðbeiningar um rétt kæranda til þess að óska eftir rökstuðningi, sbr. 21. gr., sbr. einnig 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld líta svo á að uppsetning á nefndri túðu sé óveruleg breyting á útliti hússins og því sé ekki um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða skv. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að óverulegar breytingar utanhúss séu undanþegnar byggingarleyfi. Framkvæmdin kunni þó að vera háð samþykki sameiganda skv. 41. gr. laga um fjöleignarhúss nr. 26/1994 og verði eigendur að leysa ágreiningsefni sín á þeim vettvangi, en embætti byggingarfulltrúa hafi ekki afskipti af framkvæmdum sem ekki séu háðar byggingarleyfi. Þess sé því krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er uppi ágreiningur um hvort uppsetning á lofttúðu sé háð byggingar­leyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er þar og tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningar­skyldar. Fram kemur í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að tiltekin mannvirki og framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar fellur viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga, undir þá undanþágu, sé notað eins eða sambærilegt efni og frágangur þannig að útliti byggingar sé ekki breytt. Þó þurfi að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Ber orðalag c-liðar gr. 2.3.5. með sér að óverulegar fram­kvæmdir utanhúss falla ekki einar og sér undir fyrrgreint ákvæði heldur sé það háð mati hverju sinni hvort viðhald bygginga að utan feli í sér verulega breytingu á útliti húss eður ei. Svo sem rakið er að framan boraði nágranni kæranda gat á útvegg umrædds fjöleignarhúss árið 2017 og setti þar upp útblástursviftu/lofttúðu, sem samkvæmt gögnum málsins er þar enn. Samkvæmt skýru orðalagi fyrrgreinds c-liðar gr. 2.3.5. gat uppsetning á umræddri lofttúðu ekki fallið undir viðhaldsframkvæmdir bygginga að utan, heldur var þar um að ræða nýframkvæmd. Þar sem ekki verður séð að umþrætt framkvæmd falli heldur undir aðra stafliði tilvitnaðrar gr. 2.3.5. varðandi undanþágu frá byggingarleyfi verður að líta svo á að uppsetning túðunnar hafi verið byggingarleyfisskyld. Samkvæmt því var hin kærða ákvörðun ekki studd haldbærum rökum og verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi af þeim sökum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2019 um að aðhafast ekki vegna uppsetningar lofttúðu í húsinu nr. 7b við Álakvísl í Reykjavík.