Ár 2006, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 75/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2006 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. september 2006, er barst nefndinni 2. október s.á., kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6 og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2006 að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurðar til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. Framkvæmdir á greindri lóð voru stöðvaðar af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík í kjölfar kærumáls þessa og var því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.
Málsatvik og rök: Með kæru, dags. 7. mars 2006, skutu kærendur deiliskipulagsákvörðun borgarráðs frá 24. nóvember 2005, er tekur til umrædds svæðis, til úrskurðarnefndarinnar. Í því máli gera kærendur kröfu um ógildingu skipulagsins.
Benda kærendur á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í fyrrgreindu skipulagi. Þar sem ekki liggi fyrir niðurstaða í kærumálinu vegna skipulagsins leiki vafi á um gildi þess og sé því krafist ógildingar hins kærða byggingarleyfis.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. desember 2006, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að hið kærða byggingarleyfi hefði verið afturkallað á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fyrir lægi að hið kærða leyfi væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Niðurstaða: Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun hefur verið afturkölluð. Hefur ákvörðunin því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.
Verður máli þessu af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson