Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2007 Höfðatorg

Ár 2007, mánudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.  

Fyrir var tekið mál nr. 74/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra H og A, bæði til heimilis að Miðtúni 2 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Var ákvörðunin staðfest á fundi borgarráðs hinn 21. júní 2007. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá gerðu og kærendur kröfu um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 15. ágúst 2007.  

Málsatvik:  Á fundi skipulagsráðs hinn 30. ágúst 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis er tekur til Borgartúns, Höfðatúns, Skúlagötu og Skúlatúns, svonefnds Höfðatorgs, en fyrir var í gildi deiliskipulag frá árinu 2003.  Kynningartími var frá 29. september til og með 24. nóvember 2006 og bárust athugasemdir við tillöguna, meðal annars frá kærendum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var tillagan samþykkt og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 20. febrúar s.á.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 3. apríl 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. apríl 2007.  Fól deiliskipulagsbreytingin m.a. í sér aukið byggingarmagn og hækkun húsa.  Kærendur kærðu þá skipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. júní 2007 var samþykkt að heimila byggingu 4. áfanga 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 28. júní 2007.  Hafa kærendur nú kært það byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að þeir hafi kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu Höfðatorgs og krafist ógildingar hennar þar sem þeir telji að ekki hafi verið sýnt fram á með raunhæfu umhverfismati hver verði áhrif fyrirhugaðra bygginga, en um sé að ræða framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum.  Ekki hafi verið sýnt fram á áhrif vindhviða eða aukinnar bílaumferðar og mengunar.  Ástandinu við heimili þeirra megi líkja við margra ára heimilisgíslingu, enginn vilji búa á stað þar sem verið sé að brjóta gíg af slíkri stærð að minni á framkvæmdir við Kárahnjúka.  Byggingarleyfishafi hafi boðist til að kaupa fasteign kærenda, langt undir markaðsvirði, sem kærendur túlki sem svo að verið sé að notfæra sér viðkvæmt ástand vegna framkvæmdarinnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við skipulag svæðisins.  Því sé hafnað að framkvæmd sú er um ræði sé háð mati á umhverfisáhrifum enda sé ekki um að ræða matsskylda framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.  Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum kærenda við deiliskipulag svæðisins hafi verið greint frá áætlaðri bílaumferð um svæðið ásamt því að byggingarnar séu hannaðar sérstaklega með vind og veðurfar í huga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í greinargerð byggingarleyfishafa vegna kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er því mótmælt að framkvæmdir þær er um ræði hafi þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum.  Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana komi fram að lögin eigi aðeins við um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana, en ekki einstakar byggingarframkvæmdir.  Þá komi einnig fram í ákvæðinu að lögin lúti aðeins að áætlunum er marki stefnu varðandi leyfisveitingar til þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Ljóst sé að þær framkvæmdir er um ræði séu ekki matsskyldar skv. 5. gr. fyrrnefndra laga og teljist ekki heldur framkvæmdir sem hugsanlega geti verið háðar umhverfismati skv. 6. gr. laganna. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.  Var ákvörðunin staðfest á fundi borgarráðs hinn 21. júní 2007.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um breytt deiliskipulag Höfðatorgs.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar.     

Af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Ekki eru, með hinu kærða byggingarleyfi, heimilaðar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvæðum laga nr. 106/2000 og er því hafnað að slíks mats hafi verið þörf í hinu kærða tilviki.

Loks verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið neinum þeim annmörkum öðrum er leiða ættu til ógildingar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún. 

 

 

___________________________
    Hjalti Steinþórsson          

 

____________________________           ____________________________
           Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson