Árið 2024, þriðjudaginn 1. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 72/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs, og stæði fyrir leigubifreiðar sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júlí 2024, kæra A og B, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir leigubifreiðar í Stórholt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Með kæru er barst úrskurðarnefndinni 9. júlí 2024, kæra A og C, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs. Er einnig gerð krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Verður það kærumál, sem er nr. 73/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2024.
Málsatvik og rök: Kærendur eru íbúar Stakkholts 4a en húsið stendur að hluta til við Stórholt. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ er nær m.a. utan um almenningsrými við Hlemm og nærliggjandi göturými. Í skilmálum deiliskipulagsins um umferðarskipulag eru tilgreindar nýjar mögulegar staðsetningar fyrir safnstæði hópferðabíla og leigubíla og er ein þeirra við Stórholt.
Á afgreiðslufundi samgöngustjóra Reykjavíkurborgar 5. júní 2024, var samþykkt tillaga um að sjö bifreiðastæði sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts yrðu merkt sem bílastæði fyrir leigubifreiðar. Jafnframt að bifreiðastæði norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs yrðu merkt sem biðstöð hópbifreiða, safnstæði. Þá var tekið fram að ofangreindar ráðstafanir yrðu merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það ætti við, í samræmi við reglugerð nr. 250/2024 um umferðarmerki og notkun þeirra. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2024 var lögð fram fundargerð frá afgreiðslufundinum og 25. s.m. var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um umferð í Reykjavík nr. 754/2024, þar sem mælt var fyrir um að tillagan öðlaðist gildi.
Af hálfu kærenda er greint frá því að síðdegis 19. júní 2024 hafi þeir orðið þess varir að merkin “BUS” og “TAXI” hafi verið máluð á svæði þar sem áður hafi verið bílastæði í Stórholti. Hafi þessi ákvörðun ekki verið kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með formlegum hætti þrátt fyrir að um breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á nærumhverfi. Þá hafi íbúum ekki verið veittur möguleiki á að koma að athugasemdum áður stæðin hafi verið tekið í notkun. Í deiliskipulagi fyrir Hlemm hafi fjórar götur verið nefndar sem möguleg staðsetning undir safnstæði fyrir hópbifreiðar og leigubíla, þ.á m. Stórholt. Umræddar götur séu langar og því mörg svæði sem komið hafi getað til greina. Hafi það gert íbúum illkleift að hreyfa við mótmælum við staðsetningu stæðanna vegna ófullnægjandi kynningar á ákvörðuninni. Aukin umferð fylgi safnstæðum fyrir leigubíla og börn í húsinu búi við skert umferðaröryggi vegna mikillar umferðar hópbifreiða. Hávaðamengun fylgi safnstæðunum og gera megi ráð fyrir að þau hafi í för með sér aukna loftmengun vegna bifreiða sem standi í lausagangi.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé umrætt svæði skilgreint sem M1b, blönduð miðborgarbyggð og eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykilstöðvar í hverju þéttbýli á miðborgarsvæðum. Fyrirhuguð safnstæði hafi verið kynnt og auglýst veturinn 2019-2020 og veittur frestur til að koma að andmælum. Deiliskipulagið hafi verið samþykkt 11. mars 2020 í skipulags- og samgönguráði, það „uppfært“ 18. janúar 2022 en engar breytingar hafi verið gerðar á kafla um safnstæði. Framkvæmdir og aðgerðir sem lúti að því að framfylgja skilmálum deiliskipulagsins, og færa safnstæðin á þá staði sem þegar hafi verið tilgreindir í skipulaginu, þurfi ekki að kynna eða auglýsa sérstaklega. Notkunarbreyting stæðanna hafi verið á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og samþykkt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti, 5. júní 2024.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvörðunar Reykjavíkurborgar að staðsetja safnstæði fyrir leigubíla og hópferðabíla við Stórholt í Reykjavík, en umrædd stæði eru í grennd við íbúðir kærenda að Stakkholti 4a. Var ákvörðun um endanlega staðsetningu/merkingu bílastæðanna samþykkt á afgreiðslufundi samgöngustjóra 5. júní 2024. Verður að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu fremur en ákvörðun borgarráðs frá 19. mars 2020 um að samþykkja deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ en kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar, er tók gildi 7. apríl 2020, er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sama háttar til um síðari breytingu á deiliskipulaginu.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Slíka kæruheimild er t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun var hins vegar tekin á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 en þar er mælt er fyrir um að veghaldari geti kveðið á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar að höfðu samráði við sveitarstjórn, þegar það eigi við og að fengnu samþykki lögreglu, m.a. um stöðvun og lagningu ökutækis, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í umferðarlögum. Verður kærumáli af þeim sökum vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.