Ár 2005, fimmtudaginn 13. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 71/2003, kæra eiganda helmingshlutar fasteignarinnar að Karfavogi 24, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. október 2003 um að hafna kröfu um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2003, sem barst nefndinni hinn 28. s.m., kærir Þ, Rekagranda 8, Reykjavík, eigandi helmingshlutar fasteignarinnar að Karfavogi 24, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2004 um að hafna kröfu hans um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykktan aðaluppdrátt.
Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Málavextir: Á fundi sínum hinn 12. apríl 1984 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur að heimila byggingu sólskála við húsin nr. 14, 16, 18, og 20 í raðhúsalengjunni nr. 14-24 við Karfavog eftir uppdrætti Magnúsar Skúlasonar. Ekki var sótt um byggingu sólskála við húsin nr. 22 og 24. Í dagbók byggingarfulltrúa kemur fram að skálarnir við húsin nr. 14 og 20 hafi verið skráðir byggðir þegar það ár en skálarnir við húsin nr. 16 og 18 ekki fyrr en árið 1986.
Kærandi máls þessa er eigandi 50% hlutar í fasteigninni að Karfavogi 24. Með bréfi hans til byggingarfulltrúa, dags. 24. janúar 2003, gerði hann grein fyrir þeim fyrirætlunum sínum að byggja sólskála við eignina. Benti kærandi á að sólskálar hafi verið byggðir við fjögur húsanna nr. 14-24 við Karfavog, þar af tveir sem væru í ósamræmi við aðaluppdrátt húsanna. Fór kærandi þess á leit við byggingarfulltrúa að hann léti eigendur húsanna nr. 16 og 18 við Karfavog breyta sólskálunum til samræmis við samþykktar teikningar.
Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. október 2003, hafnaði byggingarfulltrúi kröfu kæranda.
Málsrök kæranda: Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að ósamræmis gæti í útliti húsanna sem rýri útlit þeirra og virði.
Málsrök byggingarfulltrúa: Af hálfu byggingarfulltrúa er bent á að samkvæmt skoðun á vettvangi liggi fyrir að sólskálarnir við húsin nr. 16 og 18 séu ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Í gögnum embættisins komi fram að þeir hafi verið fullbyggðir árið 1986 og þegar það ár hafi embættinu og eigendum raðhúsanna verið, eða mátt vera, kunnugt um að skálarnir væru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið aðhafst í málinu af hálfu embættisins. Engin gögn liggi fyrir um að aðrir eigendur raðhússins hafi gert athugasemdir við skálana fyrr en nú, a.m.k. 18 árum eftir byggingu þeirra. Kærandi hafi eignast 50% eignarhluta í húsinu nr. 24 hinn 26. ágúst 2002. Gera verði ráð fyrir að honum hafi verið misræmið ljóst við kaupin eða a.m.k. mátt vera kunnugt um að skálarnir væru ekki eins. Hafa verði í huga að foreldrar hans hafi byggt umrætt hús og búi móðir hans þar enn en hún sé eigandi 50% eignarhluta hússins til móts við kæranda.
Ljóst sé að breytingar á skálunum nú hefðu í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir eigendur þeirra. Engin gögn liggi fyrir í málinu um að ósamræmi milli sólskálanna geti haft áhrif á söluverðmæti húsanna. Útlit skálanna sé ekki svo frábrugðið þeim skálum sem byggðir hafi verið í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og því ólíklegt að ósamræmið geti haft í för með sér tjón fyrir aðra eigendur.
Sjónarmið eigenda hússins nr. 16 við Karfavog: Byggingarfulltrúi gaf eigendum húsanna nr. 16 og 18 við Karfavog færi á að tjá sig um kröfu kæranda og barst honum svar frá eigendum hússins nr. 16. Hafna þeir kröfu kæranda og vísa m.a. til þess að skálinn sé byggður milli húsanna og samanstandi eingöngu af þaki og framhlið. Af þessum sökum sé ekki útlitslýti af skálunum og merkjanlegt ósamræmi sé vart fyrir hendi. Kærandi sjái lítið í skálann frá sinni lóð. Í ljósi þessa sé ályktað að ósamræmið skipti hvorki skipulagsyfirvöld, arkitekt hússins eða nágranna nokkru máli.
Niðurstaða: Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. október 2003 um að hafna kröfu kæranda um að sólskálum að Karfavogi 16 og 18 verði breytt til samræmis við samþykktan aðaluppdrátt.
Í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga 73/1997 segir að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar sé honum heimilt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu er tekin af byggingarfulltrúa. Rannsókn úrskurðarnefndarinnar hefur leitt í ljós að ákvörðunin hefur hvorki verið lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar né hlotið staðfestingu borgarstjórnar svo sem áskilið er í tilvitnaðri lagagrein.
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls. Ákvörðun byggingarfulltrúa verður ekki túlkuð sem slík ákvörðun, þar sem hún hefur ekki hlotið staðfestingu svo sem lögskylt er.
Af framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir á sveitarstjórnarstigi lokaákvörðun er sæti kæru til æðra stjórnvalds. Að þessu virtu verður hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa ekki tekin til efnismeðferðar og er kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir