Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2019 Torfur

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 20. júní 2019 um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar að lóð undir svínabú að Torfum og borunar eftir neysluvatni á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grundar I og IIa og Finnastaða, Eyjafjarðarsveit, ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 20. júní 2019 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar að lóð undir svínabú að Torfum og borunar eftir neysluvatni á sömu lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið aftur til meðferðar. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 26. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí 2019. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðaár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagstillagan taki til byggingar tveggja gripahúsa samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfsmannahúss. Ráðgert sé að á hverjum tíma verði fjöldi grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Framkvæmdin falli undir lið 1.10 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og liggi fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 12. mars 2019, um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Samþykkt deiliskipulagsins hefur verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 49/2019.

Með umsókn, dags. 19. júní 2019, sóttu landeigendur að Torfum um framkvæmdaleyfi á grundvelli áðurgreinds deiliskipulags fyrir vegtengingu frá Eyjafjarðarbraut vestri að lóð svínabúsins, borun eftir neysluvatni innan lóðar búsins og breytingar á árfarvegi Finnastaðaár. Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 20. júní s.á. var umsóknin tekin fyrir og framkvæmdaleyfi veitt. Upplýsti skipulagsfulltrúi umsækjanda um að sveitarstjórn hefði samþykkt að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag, þ.e. fyrir vegtengingu og borun eftir vatni en ekki fyrir breytingu á árfarvegi Finnastaðaár. Með vísan til samþykktar sveitarstjórnar gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi 13. ágúst 2019 og tekur leyfið til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri (vegnr. 821) og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að hið kærða framkvæmdaleyfi eigi rætur að rekja til ákvarðana sem hugsanlega reynist ólögmætar sem a.m.k. þurfi að vísa aftur til meðferðar hjá viðkomandi stjórnvöldum. Því sé ljóst að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af því að komið verði í veg fyrir að framkvæmdir sem síðar reynist mögulega ólögmætar fái að eiga sér stað. Nái framkvæmdirnar fram að ganga áður en endanleg ákvörðun sé tekin um lögmæti deiliskipulags og ákvörðunar Skipulagsstofnunar, sbr. kæru kærenda, dags. 24. júní 2019, muni það veikja möguleika þeirra á réttlátri niðurstöðu við úrlausn málsins.

Ákvörðun um deiliskipulag og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, sem kærðar hafi verið séu grundvallar­forsendur fyrir áframhaldandi framkvæmdum fyrir fyrirhugað svínabú að Torfum. Óhjákvæmilegt sé að líta til þess við úrlausn á kæru um framkvæmda­­­­­leyfi. Þá hafi framkvæmdaraðili farið fram á flýtimeðferð málsins fyrir úrskurðar­nefndinni. Með það í huga verði að teljast óeðlilegt að veitt sé leyfi fyrir slíkum framkvæmdum á meðan málið bíði úrlausnar um lögmæti lögbundinna skilyrða slíkra framkvæmda.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þær framkvæmdir sem leyfðar hafi verið standi vissulega í tengslum við deiliskipulagið, sem og fyrirhugaðar framkvæmdir við svínabú. Sá þáttur framkvæmda sem nú hafi verið heimilaður sé ekki mengandi starfsemi. Um sé að tefla landmótun, vatnsöflun og bakkavarnir vegna flóðahættu frá Finnastaðaá. Þær framkvæmdir ógni ekki þeim hagsmunum sem kærendur tefli fram að verið sé að verja og hafi kærendur ekki leitt rök að því að svo sé.

Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Ákvörðun um framkvæmdaleyfi hafi verið tekin eftir að nýtt skipulag hafi tekið gildi. Aðdragandi og grundvöllur ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis byggi þannig á gildum réttarheimildum og lögmætri stjórnsýslumeðferð. Engin lagaleg rök hafi verið færð fram af hálfu kærenda sem leiða mættu til annarrar niðurstöðu. Kærendur hafi ekki fært fram lögfræðileg rök fyrir því hvað í málsmeðferðinni megi leiða til ógildingar framkvæmdaleyfisins eða endurupptöku málsins hjá sveitarfélaginu. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis sé bindandi. Verði málið því ekki tekið upp að nýju eða ný ákvörðun tekin í málinu. Skorti á að lagaskilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt svo að svo megi verða.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að framkvæmdaleyfið sé gefið út á grundvelli gildandi deiliskipulags vegna spildunnar úr Torfum. Leyfishafi hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um framkvæmdina og stofnunin hafi tekið þá ákvörðun að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs svínabús. Þar sem ekki hafi verið talin þörf á að fram færi mat á umhverfisáhrifum hafi Eyjafjarðarsveit afgreitt deiliskipulagið án þess að slíkt mat lægi fyrir og gefið út framkvæmdaleyfi. Ekkert sé athugavert við málsmeðferð Skipulagsstofnunar eða ferlið við samþykkt deiliskipulagsins sem framkvæmda­leyfið sæki stoð í. Því beri að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.

Hið fyrirhugaða svínabú sé staðsett langt utan fjarlægðarmarka, eða í um 950 til 1000 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, en áskilið sé að svínabú með fleiri en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, sbr. 6. gr. reglugerðar um eldishús alifugla, loðdýra og svína nr. 520/2015. Staðsetning svínabúsins að Torfum hafi þótt henta hvað best með tilliti til fjarlægðar frá næstu mannabyggðum, aðgengi að hitaveitu og úrgangslosunar frá dýrum.

—–

Aðilar máls hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar hér.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar stjórnvalds­ákvörðunar. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Í hinu kærða framkvæmda­leyfi felst heimild til handa leyfishafa að bora eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús og tengja veginn frá Eyjafjarðarbraut vestri við lóð búsins. Svo sem lýst er í greinargerð deiliskipulags fyrir svínabú að Torfum er talsverð fjarlægð í næstu mannabústaði í umráðum kærenda. Íbúðarhús á Finnastöðum er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabús til norðvesturs og íbúðarhús við Grund I og II er í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabús til norðausturs. Minni fjarlægð er frá landamerkjum jarða kærenda að lóð svínabúsins en hún er þó að lágmarki nokkrir tugir metra. Með hliðsjón af þessu og að virtu eðli heimilaðra framkvæmda verður ekki séð að þær geti raskað hagsmunum kærenda í nokkru. Þótt framkvæmdirnar séu óumdeilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús sem kærendur setja fyrir sig er ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur geti byggt aðild sína á því. Þá skapar það kærendum ekki kæruaðild að þeir hafi kært deiliskipulag það sem framkvæmdaleyfið er veitt með stoð í, enda snerta þær framkvæmdir sem leyfið heimilar ekki hagsmuni þeirra, svo sem áður greinir. Þar sem kærendur verða ekki taldir eiga þá lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.