Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2025 Sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Árið 2025, mánudaginn 20. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 7/2025, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 8. janúar 2025 um að synja beiðni um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til matvælaráðuneytisins, nú atvinnuvegaráðuneytis, dags. 10. janúar 2025, kærðu samtökin Vá! – félag um vernd fjarðar og eigendur jarðarinnar Dvergasteins synjun Matvælastofnunar um frest til að skila inn athugasemdum við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði. Kæran var framsend til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 16. s.m. með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fara kærendur fram á að synjun Matvælastofnunar verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 7. janúar 2024 óskaði kærandi eftir því við Matvælastofnun að frestur til athugasemda við auglýsta tillögu að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði yrði framlengdur. Vísuðu kærendur til þess að nýju áhættumati frá Hafrannsóknarstofnun hefði verið frestað og fyrir vikið lægju ekki fyrir ný viðmið frá því að umfangsmiklar slysasleppingar og umhverfisslys hefðu orðið í atvinnugreininni. Erindinu var svarað með tölvupósti 8. s.m. þar sem fram kom að Matvælastofnun teldi ekki þörf á að framlengja umræddan frest. Ítrekuðu kærendur beiðnina með tölvupósti sama dag og var því erindi svarað með tölvupósti 10. s.m. þar sem vísað var til fyrra svars og beiðninni hafnað.

Niðurstaða: Ákvarðanir Matvælastofnunar, er lúta að skráningarskyldu eða veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstrarleyfis til fiskeldis samkvæmt II., III. og V. kafla laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. segir enn fremur að ákvörðun, sem ekki bindi enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leidd. Í stjórnsýslulögum eru lögfestar tvær undan­tekningar frá ákvæði 2. mgr. 26. gr., þ.e. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er varðar óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls og 2. mgr. 19. gr. sömu laga er varðar synjun eða takmörkun á aðgangi að gögnum máls. Verður ekki séð að þessar undantekningar eigi við í máli þessu.

Hin kærða ákvörðun varðar málsmeðferð Matvælastofnunar við útgáfu rekstrarleyfis en ekki er að ræða um ákvörðun er bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.