Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2010 Borgarholtsbraut

Árið 2012, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2010, kæra á synjun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 á beiðni um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2010, sem barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Ólafur Örn Svansson hrl., f.h. S, eiganda fasteignarinnar að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að greindri fasteign.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi  og að viðurkenndur verði réttur hans til breytinga á aðkomu að Borgarholtsbraut 15 í samræmi við fyrirliggjandi teikningar.

Með bréfi, dags. 16. júní 2011, sem barst úrskurðarnefndinni 21. sama mánaðar, skaut kærandi jafnframt til nefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 um að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15.  Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði felld úr gildi og að kærumálið verði sameinað máli þessu.  Þar sem bæði kærumálin snúast um afgreiðslu Kópavogsbæjar á sömu beiðni kæranda verður kærumálið nr. 45/2011  sameinað kærumáli þessu.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var reist íbúðarhús á lóðinni að Borgarholtsbraut 15 á árunum 2002-2003, en áður hafði staðið þar sumarhús.  Aðkoma að íbúðarhúsinu er um tröppur sem liggja yfir kamb við húsið norðanvert.   Kærandi sótti um leyfi til að leggja veg að húsinu á árinu 2007 en skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði erindinu hinn 2. október sama ár.  Kærandi leitaði enn eftir að fá leyfi fyrir innkeyrslu að húsi sínu á árinu 2009 og hóf jafnframt framkvæmdir við hana en var gert að stöðva þær.  Urðu málalyktir þær að skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundi hinn 19. janúar 2010 og tók bæjarráð undir þá afgreiðslu á fundi 21. sama mánaðar.  Í kjölfar þess óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins en þeirri málaleitan var hafnað af bæjaryfirvöldum.  Skaut kærandi synjun bæjaryfirvalda um breytta aðkomu að umræddri fasteign hans til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.  Eftir það ákvað skipulagsnefnd bæjarins að taka málið upp að nýju og samþykkti á fundi sínum hinn 17. maí 2011 aðkomu fyrir ökutæki og gangandi vegfarendur að fasteign kæranda í samræmi við tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar sem hafði verið grenndarkynnt.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu hinn 19. maí sama ár og vísaði málinu til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hafnaði hins vegar skipulagstillögunni á fundi hinn 24. sama mánaðar.  Hefur kærandi einnig skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að núverandi aðkoma að lóð hans og húsi fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um greiða aðkomu slökkviliðs og sjúkrabíla, auk þess sem núverandi aðkoma torveldi aðgang fatlaðra, fólks með barnavagna og eldra fólks að fasteigninni.  Brýnt sé að gildandi deiliskipulag svæðisins taki mið af áðurnefndum kröfum um aðgengi að íbúðarhúsum.  Hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar þrátt fyrir fyrirliggjandi umsögn og álit sem styðji málstað kæranda og eftir grenndarkynningu þar sem engar athugasemdir hafi borist.  Synjun skipulagsyfirvalda Kópavogsbæjar um breytta aðkomu að fasteign kæranda sé með öllu ómálefnaleg, enda bendi allt til þess að um sé að ræða geðþóttaákvörðun sem reist sé á pólitísku og persónulegu hagsmunamati eins bæjarfulltrúa.

Úrskurðarnefndin kallaði eftir gögnum vegna kærumálanna og gaf Kópavogsbæ kost á að tjá sig um kæruefnið en gögn og greinargerð hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum.  Hins vegar upplýstu þau úrskurðarnefndina hinn 5. mars 2012 um að kærandi hefði höfðað mál á hendur bæjaryfirvöldum vegna umdeildrar synjunar á breyttri aðkomu að húsi kæranda og að málið hefði verið dómtekið.   

Niðurstaða:  Beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteign hans að Borgarholtsbraut, sem synjað var með ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010, var tekin til meðferðar að nýju og henni synjað með ákvörðun  bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011.  Verður að líta svo á að með því hafi bæjaryfirvöld endurupptekið hina fyrri afgreiðslu sína á erindi kæranda og að lokinni málsmeðferð tekið nýja stjórnvaldsákvörðun hinn 24. maí 2011, sama efnis og hina fyrri.  Af þeim sökum hefur eldri ákvörðunin ekki lengur þýðingu að lögum og á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Fyrir liggur að hin kærða synjun bæjarstjórnar Kópavogs á erindi kæranda hinn 24. maí 2011 var borin undir dómstóla með þingfestingu máls á hendur Kópavogsbæ hinn 28. september 2011, þar sem krafist er ógildingar á téðri ákvörðun. 

Ágreiningsmál sem geta komið til kasta úrskurðarnefndarinnar verða borin undir dómstóla án þess að kæruleið innan stjórnsýslunnar sé tæmd.  Er því aðilum máls í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér þann kærurétt eða beri ágreining sinn um kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir beint undir dómstóla, sem skera úr slíkum ágreiningi samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Kærandi hefur borið lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar frá 24. maí 2011 undir dómstóla og verður ekki séð að hann eigi nú einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess sama réttarágreinings. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er ekki fullnægt lagaskilyrðum um aðild máls fyrir nefndinni skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem hér eiga við.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson