Mál nr. 7/2008.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 7/2008. Sigríður Steinunn Þrastardóttir, Sílakvísl 11, 110 Reykjavík hér eftir nefnd kærandi gegn Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, hér eftir nefnt kærði.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 9. júlí 2008 Steinunn Guðbjartsdóttir
Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:
1. Stjórnsýslukæra dags. 09.07.2008 ásamt fylgiskjölum.
2. Athugasemdir kærða dags. 01.09.2008 ásamt fylgiskjölum.
3. Bréf úrskurðarnefndar til kæranda dags. 04.09.2008.
Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.
II. Málsmeðferð
Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst Úrskurðarnefndinni 09.07.2008. Þegar umsögn barst frá kærða var hún send til kæranda og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna.
III. Málsatvik
Þann 31. mars 2008 barst kærða kvörtun frá einum sameigenda í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík um að kærandi héldi óskráðan hund sem ónæði væri af. Jafnframt kom fram að viðkomandi íbúi í húsinu mundi ekki veita samþykki sitt fyrir hundahaldinu.
Sama dag sendi kærði kæranda bréf þar sem athugasemdir voru gerðar við hundahaldið.
Kærandi sendi inn umsókn um leyfi til hundahalds dagsett 14.04.2008.
Eftir nokkur samskipti milli kærða og kæranda í síma sendi kærði kæranda bréf dagsett 2. maí 2008. Í bréfinu var kæranda gert að fjarlægja hundinn úr húsinu.
Kærandi óskaði eftir upplýsingum og rökstuðningi fyrir synjuninni með bréfi dagsettu 22.05.2008. Kærði svaraði með bréfi dagsettu 28.05.2008.
Með stjórnsýslukæru dags. 09.07.2008 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar.
Kærða var með bréfi dags. 20.08.2008 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 01.09.2008.
Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 04.09.2008. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2000 þurfi ekki samþykki annarra eigenda í fjöleignahúsum ef íbúð umsækjenda hefur sérinngang þó svo að um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsrými eða lóð enda sé hundurinn ekki leyfður í því rými. Kærandi segir að ákvæði þetta skuli skýra þröngt enda skerði það réttindi manna eins og friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu. Líta beri til þess að verið sé að ganga á meginsjónarmið grendarréttarins með því að fara fram á að eigandi skuli taka tillit til veikleika eða viðkvæmni nágranna síns þegar hann ákveður hvernig hann vill hagnýta eignina sína. Skoða þurfi tilgang laganna sem sé sá að vernda þá sem hafa ofnæmi fyrir dýrum en ekki til að vernda fólk sem hefur einungis vilja til að notfæra sér þessa grein til þess að stjórna því hvernig annað fólk kýs að hagnýta eign sína.
Í kærunni kemur fram að húsið að Sílakvísl 11 sé fjöleignahús þar sem allar íbúðir hafi sérinngang. Húsið er á tveimur hæðum. Á efri hæðinni eru 4 íbúðir og býr kærandi í annarri íbúð frá hægri. Þessar íbúðir deila með sér stiga sem leiðir niður á stétt. Neðri íbúðirnar þurfa aldrei að nota þessa stiga til að komast að íbúðum sínum eða öðru sameiginlegu rými. Allar íbúðirnar deila svo ruslageymslu og hjólageymslu. Kærandi hefur fengið samþykki allra íbúa á efri hæðinni fyrir hundahaldinu ásamt samþykki frá einum íbúa á neðri hæðinni.
Kærandi fellst ekki að á nauðsynlegt sé að fá samþykki allra íbúa í húsinu til að hundahald hennar verði leyft. Hundurinn hafi engin áhrif á fólkið á neðri hæðinni. Þá hafi sama fólk leyft annan hund á efri hæðinni sem geti ekki talist sanngjarnt.
V. Málsástæður og rök kærða
Kærði segir aðdraganda málsins þann að 31.03.2008 hafi Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar borist kvörtun frá einum sameigenda í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík um að kærandi héldi óskráðan hund og að viðkomandi mundi ekki veita leyfi fyrir hundinum vegna ónæðis af hundahaldinu. Sama dag sendi kærði kæranda bréf þar sem gerð var athugasemd við hundahaldið enda væri það án tilskilinna leyfa. Þann 14.04.2008 sendi kærandi inn umsókn fyrir hundahaldinu ásamt greiðslu skráningargjalds. Með bréfi kærða dags. 02.05.2008 var formlega áréttað að umsókn um leyfi fyrir hundinum væri hafnað með þeim rökstuðningi að samþykki fengist ekki og veittur andmælaréttur ásamt leiðbeiningum um kæruleiðir. Kærandi nýtti sér andmælarétt sinn með bréfi dagsettu 22.05.2008 og sendi inn 4 af 6 undirskriftum fyrir samþykki til hundahalds frá íbúum í húsinu. Í eftirliti þann 24.06.2008 kom í ljós að hundurinn var enn á staðnum, en að sögn kæranda var verið að vinna í að koma honum fyrir annars staðar. Komið var aftur þann 04.07.2008 en þá var enginn heima nema hundurinn. Í bréfi dagsettu 10.07.2008 var farið fram á aðstoð lögreglu við handsömun hundsins og fór lögreglan á staðinn 17. sama mánaðar en án árangurs. Í lögregluskýrslu kemur fram að kærandi segist enn vera að reyna að koma hundinum fyrir annars staðar. Kærða barst síðan bréf frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að lögreglan mundi ekki beita sér í handsömun hundsins þar sem ekki væri um opinbera rannsókn máls að ræða. Á ofangreindu tímabili bárust að sögn kærða ítrekaðar kvartanir um ónæði vegna hundsins.
Kærandi vísar til 2. mgr. 6. gr. samþykktar nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík þar sem fram kemur að ekki þurfi samþykki sameigenda í húsi sé um sérinngang að ræða. Kærði segist líta svo á að þörf sé á samþykki, sé um einhvers konar sameiginleg rými að ræða. Í fjöleignahúsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík hátti þannig til að um sameiginlega ruslageymslu, hjólageymslu og tröppuuppganga sé að ræða í húsinu. Í 41. gr. laga um fjöleignahús kveði á um að hundahald sé bannað í fjöleignahúsum en hægt sé að gera sérstakar samþykktir í húsum s.s. að leyfa eða banna gæludýrahald. Í uppkasti af fundargerð húsfundar komi fram að hundahald sé leyft en það eitt dugi ekki til þess, jafnframt þurfi samþykki sameigenda. Fundagerðarbók er týnd að sögn húseigenda og ekki vitað um lögmæti fundarins.
Í greinargerð kærða kemur fram að í grendarrétti felist að eigandi eignar í fjöleignahúsi megi ekki nýta eign sína á þann hátt að það fari í bága við hagsmuni annarra eigenda. Hagnýting eignar skal vera með þeim hætti að hún raski ekki venjulegum friði og valdi ekki óþægindum umfram það sem ætla má í eign af þessu tagi. Þannig beri gæludýraeigendum að gæta sérstaklega að því að dýrin valdi ekki truflun og ónæði fyrir aðra íbúa fjöleignahúss, sérstaklega þegar litið er til þeirra ströngu ákvæða fjöleignahúsalaga um gæludýrahald sem er bannað að meginstefnu og eingöngu leyft með samþykki allra eigenda hússins. Áskilnaður um samþykki eigenda fyrir hundahaldi er skilyrðislaus og ekkert rúm fyrir huglægt mat á því hvaða hvatir liggja að baki neitun. Fyrir liggi fjöldi kvartana um ónæði af völdum hundsins sem nágranni segi að gelti í sífellu þegar hann sé einn heima.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar.
Reglur um töku ákvarðana í fjöleignahúsum er að finna í 41. gr. laga um fjöleignahús nr. 26/1994. Samkvæmt 13. tl. A liðar 41. gr. laganna þarf samþykki allra eigenda til ákvarðana um hvort halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.
Um hundahald í Reykjavík gilda jafnframt ákvæði samþykktar nr. 52/2002 sem sett var með stoð í 25. gr. l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Skv. 2. gr. samþykktarinnar er meginreglan sú að hundahald er bannað í Reykjavík. Heimilt er að veita einstaklingum undanþágu frá meginreglunni, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Í 2. mgr. 6. gr. samþykktarinnar er tekið fram að þegar íbúð umsækjanda hefur sérinngang, þótt um sé að ræða annars konar sameiginlegt húsými eða sameiginlega lóð, þá sé veiting undanþágu til hundahalds ekki háð samþykki annarra eigenda, enda er öll viðvera og /eða umferð hundsins um slík rými stranglega bönnuð. Túlka ber heimild til að veita undanþágu frá banni við hundahaldi þröngt og verður að gera kröfu um að umsækjandi uppfylli öll skilyrði samþykktarinnar fyrir undanþágu.
Í fjöleignahúsinu að Sílakvísl 11 háttar þannig til að um sameiginlega ruslageymslu, hjólageymslu og tröppuuppganga er að ræða. Að mati nefndarinnar er það skilyrði fyrir því að hundahald í húsinu að Sílakvísl 11, Reykjavík verði leyft að samþykki allra eigenda í húsinu liggi fyrir. Áskilnaður um samþykki eignenda fyrir hundahaldi er skilyrðislaus og ekkert rúm fyrir huglægt mat á því hvaða hvatir liggja að baki neitun.
Með vísun til þess er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar er staðfest.
Steinunn Guðbjartsdóttir
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir
Date: 6/26/09