Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2024 Horn 1

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn Litlahorns ehf. um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Þá var einnig kærð ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí s.á. um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Litlahorn ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn þess um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 22. júlí 2024.

Málavextir: Hinn 9. maí 2024 sótti Litlahorn ehf. um byggingarleyfi á jörðinni Horni 1 fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu með sex herbergjum fyrir 12 gesti. Á fundi umhverfis- og skipulags­nefndar 5. júní s.á. var umsókn kæranda synjað. Nefndin taldi uppbyggingu á svæðinu ekki heimila þar sem fram kæmi í aðalskipulagi að hún skyldi vera samkvæmt deiliskipulagi. Undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 væri ekki uppfyllt þar sem byggingaráformin samræmdust ekki aðalskipulagi. Byggingarfulltrúi synjaði kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti 7. s.m. Í kjölfarið sendi kærandi byggingarfulltrúa, umhverfis- og skipulags­nefnd og skipulagsfulltrúa bréf, dags. 9. s.m., þar sem afgreiðslunni var mótmælt. Með bréfi, dags. 17. s.m., fór kærandi fram á endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar sveitar­félagsins á grundvelli 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til vara óskaði hann eftir heimild til að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir framkvæmdasvæðið. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 2. júlí s.á. og var beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar hafnað, en samþykkt að veita heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hið umrædda svæði.

Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1 tekin fyrir. Um var að ræða 63,6 m2 viðbyggingu með 15,3 m2 vindfangi fyrir matsal og anddyri og stækkun á tæknirými um 9,6 m2 auk 141 m2 gistiálmu með sex herbergjum. Í fundargerð kom fram að samkvæmt aðalskipulagi væri umrætt svæði á reit VÞ 36, þar sem gert væri ráð fyrir m.a. ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhúsi með veitingum. Í skilmálum fyrir reitinn kæmi fram að uppbygging væri heimil samkvæmt deiliskipulagi. Gert væri ráð fyrir allt að 120 gestum. Ekki væri til gildandi deiliskipulag fyrir svæðið, en að umsækjandi hefði upplýst sveitarfélagið um að deiliskipulag væri í vinnslu. Heimilaði bæjarráð að veita mætti byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda hefði kærandi hafið vinnu við gerð deiliskipulags. Þá var samþykkt að falla frá grenndarkynningu skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga þar sem að mati bæjarráðs varðaði framkvæmdin ekki hagsmuni annarra en umsækjanda. Á grundvelli heimildar bæjarráðs samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti 15. ágúst 2024. Byggingarheimild fyrir umræddri framkvæmd var svo gefin út 3. september s.á.

Með bréfi, dags. 22. júlí s.á., upplýsti byggingarfulltrúi kæranda um að ákvörðun hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin af til þess bærum aðila samkvæmt 1. mgr. 44. gr. sbr. 6. gr. skipulagslaga. Hefði byggingarfulltrúi því ákveðið að afturkalla ákvörðunina á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún væri ógildanleg og ekki til tjóns fyrir aðila.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júlí 2024 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi hafi verið haldin verulegum ágöllum sem eigi að leiða til ógildingar hennar. Fyrirhuguð mannvirkjagerð, sem sótt hafi verið um, sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. ágúst 2024, kom fram að kærandi teldi einnig að ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024, um að samþykkt byggingarleyfis væri skilyrt því að deiliskipulagsvinna væri hafin, bryti í bága við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Fór hann fram á að ákvörðun bæjarráðs yrði ógilt að því er varðaði skilyrði um gerð deiliskipulags, en að ákvörðun um veitingu byggingarleyfis til handa kæranda stæði óhögguð. Engin þörf væri á gerð deiliskipulags þar sem framkvæmdin félli bæði að Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012–2030 ásamt því að vera í samræmi við núverandi landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar á Horni 1. Gerð deiliskipulags væri tímafrek, kostnaðarsöm og mjög íþyngjandi fyrir kæranda í ljósi þess að allar forsendur lægju fyrir í gildandi aðalskipulagi.

Öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem starfi á sama svæði og kærandi, hafi ítrekað verið veitt byggingarleyfi án skilyrðis um gerð deiliskipulags. Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 hafi meðal annars verið veitt byggingarleyfi fyrir gistihúsi á Seljavöllum án allra skilyrða. Á Seljavöllum sé ekki í gildi deiliskipulag og í aðalskipulagi komi skýrt fram að uppbygging skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, sem séu sömu forsendur og gildi um Horn 1. Báðar framkvæmdirnar lúti að uppbyggingu ferðaþjónustu og séu sambærilegar og tilheyri sama svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hornafjarðar, þ.e. Nesjahverfi. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu sveitarfélagsins að útskýra hvaða önnur sjónarmið eigi við um veitingu leyfis til gistihússins á Seljavöllum en eigi við um leyfi kæranda. Ákvörðun bæjarráðs um að skylda kæranda til að vinna deiliskipulag hafi verið ómálefnaleg og gengið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi bæjarráð skýra lagaheimild til að veita leyfið án deiliskipulagsgerðar. Vísað sé til fleiri dæma um uppbyggingu og leyfis­veitingar á grundvelli aðalskipulags, sem séu sambærilegar fyrirætlunum kæranda, þar sem ekki hafi verið gerð krafa um deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 2024, að fyrri afgreiðsla hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið í samræmi við lög þar sem umhverfis- og skipulagsnefnd hefði ekki verið heimilt að afgreiða mál á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga heldur væri það bæjarstjórn eða sá aðili sem hefði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála skv. 6. gr. laganna. Í samþykkt um stjórn- og fundarsköp sveitarfélagsins hefði vald til fullnaðarafgreiðslu mála á grundvelli þessa lagaákvæðis ekki verið afsalað til umhverfis- og skipulagsnefndar og því væri það bæjarstjórn, eða eftir atvikum bæjarráð, sem tæki endanlegar ákvarðanir á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Í ljósi þessa hafi umsókn um byggingarleyfi verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs 16. júlí s.á. og bókað í fundargerð um samþykki nefndarinnar fyrir byggingarleyfinu enda væri vinna við gerð deiliskipulags á svæðinu hafin. Þar sem fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní s.á. hafi verið ógildanleg hefði hún verið afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga. Eigi kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Sveitarfélagið hafi við meðferð byggingarleyfisumsóknar, sem samþykkt hafi verið 16. júlí 2024, verið í samskiptum við kæranda á öllum stigum málsins og veitt honum ítarlegar upp­lýsingar um framvindu þess. Fullyrðingar um að afgreiðsla málsins hafi dregist úr hófi og valdið kæranda fjártjóni séu ekki réttar.

Uppbygging kæranda að Horni sé ekki sambærileg þeim dæmum sem hann telji fram í kæru sinni. Horn sé einn fjölsóttasti ferðamannastaður sveitarfélagsins og þar sé rekin greiðasala, gistihús og tjaldsvæði. Staðurinn sjálfur sé áfangastaður þar sem gestir komi til að upplifa náttúrufegurð o.fl. Ólík uppbygging hafi farið fram á umræddum svæðum á undanförnum árum. Kærandi hafi síðustu árin fengið byggingarleyfi samþykkt þrátt fyrir ákvæði aðal­skipulags sem tekið hafi gildi 28. febrúar 2018 um að uppbygging í landi Horns vegna ferða­þjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Kærandi hafi nú sótt um leyfi til að stækka núverandi kaffihús um 78,9 m2 ásamt því að reisa nýja 141,8 m2 gistiálmu. Samtals hafi verið sótt um aukningu byggingarmagns á svæðinu yfir 220 m2. Ljóst sé að framkvæmdunum muni fylgja frekari breytingar á svæðinu, svo sem vegna aðkomu fólks og bíla. Á Seljavöllum, sem kærandi vísi til, hafi verið óskað eftir leyfi til að breyta notkun núverandi íbúðarhúss í minna gistiheimili í sama notkunarflokki skv. gr. 9.1.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og það hafi verið áður. Breyting á notkun hússins feli ekki í sér aukningu byggingarmagns eða aðrar breytingar á svæðinu. Þá séu heimildir og kröfur aðalskipulags fyrir þessi tvö svæði ólíkar. Á Horni, reit VÞ 36, séu heimildir fyrir umfangsmeiri og ólíkri starfsemi. Þar séu heimildir fyrir ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhús með veitingu. Heimilt sé að vera þar með allt að 120 gesti. Á Seljavöllum, reit VÞ 10, sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir allt að 30 gestum og starfsemi sem tengist ferðaþjónustu sé eingöngu fyrir gistingu og greiðasölu. Svæði VÞ 36 sé með meiri heimildir fyrir atvinnustarfsemi en VÞ 10 og að samræming uppbyggingar á fyrrnefndu svæði sé miklu meira krefjandi en á Seljavöllum.

Kærandi hafi haldið því fram að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófsreglu þar sem gerð deiliskipulags sé það íþyngjandi aðgerð og að sveitarfélaginu hafi borið að fara með málið samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við afgreiðslu umsóknar hans. Ef þannig háttaði til að sveitarfélögum bæri að afgreiða mál er varði þessa lagagrein eingöngu með meðalhófsreglu að leiðarljósi væri gerð deiliskipulagsáætlana tilgangslaus. Ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé undanþáguákvæði frá meginreglu 2. mgr. 37. gr. laganna. Í 44. gr. sé ekki fjallað um að skipulagsyfirvöldum sé skylt að heimila framkvæmdir án deiliskipulagsgerðar, heldur sé um heimildarákvæði að ræða. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé ljóst að skipulags­yfirvöldum beri að leggja mat á hvert tilfelli fyrir sig áður en ákvörðun sé tekin. Mikil upp­bygging hafi átt sér stað á Horni á undanförnum árum og fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sé mikilvægt að mótuð sé heildstæð stefna fyrir svæðið í formi deiliskipulags. Því hafi sveitar­félagið ákvæðið að ákvæði 44. gr. skipulagslaga yrði ekki nýtt í þessu tilfelli. Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og sú stefna svo útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við eigi og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Ljóst sé að þessar nánari útfærslur sé ekki að finna í aðalskipulagi fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sem fyrirhuguð sé á Horni.

Þrátt fyrir að kærandi telji að framkvæmdir þær sem hann hafi sótt um og hin kærða ákvörðun bæjarráðs séu í fullu samræmi við Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 þá komi fram í aðalskipulaginu að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Í greinargerð aðalskipulagsins komi einnig sérstaklega fram um breytingar á aðalskipulagi að eitt af markmiðum með að styrkja atvinnulíf sé að „efla byggð og að sveitarfélagið geti veitt góða þjónustu við dreifbýlið. Talið er að uppbygging á þessum ellefu svæðum verði jafnt og þétt næstu árin og því mikilvægt að gerð verði grein fyrir þessum þáttum í deiliskipulags­áætlunum fyrir svæðin.“ Sveitarfélagið hafi túlkað ákvæðið á þann hátt og mótað ákveðna stjórnsýsluframkvæmd, þ.e. að umfangsminni framkvæmdir, svo sem minni viðbyggingar, breytingar á klæðningu o.þ.h., væri hægt að heimila án deiliskipulagsgerðar. Uppbygging í landi Horns, sem hafi farið fram á undanförnum árum, sé umfangsmikil og unnin í áföngum. Aðstæður á svæðinu hafi breyst og sé Horn einn af vinsælustu áfangastöðum í sveitarfélaginu. Kærandi hafi hvorki mótmælt aðalskipulagsbreytingunni frá árinu 2018 né óskað eftir breytingu á henni, þó ákvæðið hafi verið í gildi í meira en sex ár og minnt hafi verið á það við afgreiðslu fyrri umsókna þar sem undanþáguákvæði hafi verið beitt.

Ákvæði um að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi hafi verið sett í aðalskipulag, sem hafi öðlast gildi árið 2014, fyrir nánast öll verslunar- og þjónustu­svæði í dreifbýli og á flestum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af þeim 11 verslunar- og þjónustusvæðum sem komið hafi til eftir breytingu á aðalskipulagi árið 2018 hafi ákvæði um uppbyggingu á grundvelli deiliskipulags verið sett fyrir sjö svæði og á fjórum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af öllum þeim svæðum þar sem í skilmálum aðalskipulags komi fram að uppbygging ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, hafi sveitarfélagið nýtt sér ákvæði 44. gr. skipulagslaga í einstökum tilfellum vegna umfangsminni framkvæmda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að kærandi byggi á að skipulagslög nr. 123/2010 og núverandi skipulagskerfi geri ráð fyrir að sveitarfélög vinni deiliskipulag fyrir þau svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Þar sé átt við svæði í fleirtölu og hverfi og lóðir en ekki eina staka lóð eins og eigi við á Horni. Skipulagslög geri ekki ráð fyrir að unnið sé deiliskipulag fyrir staka lóð í þéttbýli og hvað þá í dreifbýli. Lóðin sem um ræði sé aðeins um 1.000 m2 að stærð og í um 7–8 km fjarlægð frá næsta bæ. Krafa um gerð deiliskipulags á Horni eigi engan veginn við og gangi gegn hugmyndinni að baki deiliskipulagi, sem sé að gera skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags þar sem teknar séu ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Óheimilt sé að binda samþykkt byggingarleyfis því skilyrði að gert verði deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæði í ljósi þess að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag fyrir svæðið hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er annars vegar deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að synja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Hins vegar er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarráðs sveitarfélagsins frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án gerðar deiliskipulags á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með vísan til þess að kærandi hafi hafið vinnu að gerð deiliskipulags. Fer kærandi fram á að fellt verði úr gildi „skilyrði [um gerð deiliskipulags] fyrir samþykki byggingarleyfis“ sem vísað sé til í afgreiðslu bæjarráðs.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2024, var kærandi upplýstur um að ákvörðun um synjun byggingarleyfis frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin í samræmi við lög og að hún væri afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvalds­ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður þeim hluta kærumáls þessa því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það á hendi sveitarstjórna að skipuleggja land innan marka sveitarfélags og annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Skipulagsáætlanir eru tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti, en þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar er meginreglan sú að gera skuli deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Finna má undantekningu frá þeirri reglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir. Eins og fram kemur í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn, eða þeim aðila sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, heimilt að ákveða að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.

Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. október 2014. Breyting á aðalskipulaginu, Verslun og þjónusta á 11 stöðum í dreifbýli, var staðfest af Skipulagsstofnun 13. febrúar 2018 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Meðal annars var gerð breyting á skipulagsuppdrætti varðandi Nes – Lón og á blaðsíðu 39 í greinargerð aðalskipulagsins var bætt inn svohljóðandi texta í töflu 16.1. um svæði VÞ 36: „Horn. Ferðaþjónusta, gisting, tjaldsvæði, þjónustuhús með veitingum. Uppbygging skal heimil, skv. deiliskipulagi.“

Í hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024 segir: „Umsækjandi upplýsti sveitarfélagið um að deiliskipulag er í vinnslu og um að […] verkfræðistofa sér um gerð þess. Bæjarráð heimilar að veita megi byggingarleyfi á grundvelli 1.mgr. 44.gr. skipulagslaga enda hefur landeigandi hafið vinnu við deiliskipulag á svæðinu.“

Eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag fyrir Horn 1, en deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi er sérstaklega tekið fram að uppbygging á reit VÞ 36, Horn, sé heimil samkvæmt deiliskipulagi, en þegar ákvörðun bæjarráðs um að veita megi byggingarleyfi til handa kæranda var tekin 16. júlí 2024 var einungis vinna hafin við deiliskipulag svæðisins. Verður því að telja að sú ákvörðun hafi ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að framkvæmd skuli vera í samræmi við aðalskipulag.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun bæjarráðs felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornarfjarðar frá 5. júní 2024 um synjun umsóknar um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.