Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2004 Lækjargata

Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2004, kæra stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 um að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. desember 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Lækjargötu 4, Reykjavík f.h. stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu. 

Samþykkt byggingarfulltrúa var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 16. nóvember 2004. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist munnleg andmæli byggingarleyfishafa og gögn frá Reykjavíkurborg um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 24. ágúst 2004 var lögð fram umsókn um leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu og var afgreiðslu erindisins frestað.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 7. september 2004 var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og/eða ákvörðunar um grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum þriðju hæðar fyrir veitingastarfsemi og nálægðar þeirra við íbúðarhúsnæði.  Skipulagsfulltrúi tók beiðnina fyrir á fundi hinn 10. september 2004 og samþykkti að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum að Austurstræti 20 og 22, Lækjargötu 2 og 4 vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum fyrir veitingastarfsemi.  Kynningin fór fram dagana 16. – 30. september 2004 og settu 12 íbúðareigendur fram athugasemdir vegna þessa.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 1. október 2004 voru athugasemdirnar kynntar og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. október 2004 var bókað að nefndin gerði ekki athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar.  Var málinu því vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.  Byggingarfulltrúi afgreiddi erindið hinn 9. nóvember 2004 með áskilnaði um lokaúttekt byggingarfulltrúa, samþykki heilbrigðiseftirlits og athugun á að hljóð frá veitingastöðunum ylli ekki ónæði að Lækjargötu 4 áður en húsnæðið yrði tekið í notkun. 

Hið kærða leyfi felur í sér heimild til að koma fyrir tveimur veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.  Á þriðju hæð er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi gesta verði 100 en á fjórðu hæð 120.  Snyrtingar verði sameiginlegar og eldhús, uppþvottur og aðstaða starfsmanna verði í kjallara.  Jafnframt verði gerður hringstigi af svölum á þriðju hæð niður á jörð og stigi frá fjórðu hæð niður á svalir á þriðju hæð.  Ennfremur verði lyftustokki breytt þannig að lyfta komist í kjallara, gólf í eldhúsi hækkað um 18 cm, handriði og gróðri komið fyrir á svölum þriðju hæðar o.fl. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að hið kærða byggingarleyfi sé í hróplegu ósamræmi við þær áætlanir sem uppi hafi verið þegar eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Lækjargötu 4 hafi keypt íbúðir sínar.  Húsin liggi saman og því muni veitingarekstur í húsnæðinu að Lækjargötu 2A valda þeim fjárhagslegu tjóni vegna hávaða sem sé þegar ærinn. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 þess efnis að veita heimild til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu í Reykjavík. 

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi lýtur það aðallega að framkvæmdum innanhúss s.s. frágangi innréttinga og gólfefna auk lítilsháttar framkvæmda á svölum hússins og uppsetningu brunastiga milli hæða.  Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessar framkvæmdir ekki þess eðlis að framhald þeirra sé líklegt til að raska hagsmunum kærenda eða hafa áhrif á niðurstöðu máls þessa.  Af þessum sökum ber ekki nauðsyn til að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað.  Þrátt fyrir framangreint eru frekari framkvæmdir við bygginguna á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ingibjörg Ingvadóttir