Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2019 Látrar, Aðalvík

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2019, kæra vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Beinist kæran annars vegar að svonefndu Sjávarhúsi og hins vegar að byggingum í fjörukambinum. Gerð er krafa um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja beiðni um endurupptöku þeirrar ákvörðunar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja Sjávarhúsið, en sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2015. Jafnframt er kærð synjun skipulags- og byggingarfulltrúa sem einnig kom fram í greindu bréfi, dags. 28. maí 2019, á þeirri kröfu kæranda að fimm smáhýsi sem staðsett eru í fjörukambinum verði fjarlægð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 31. janúar 2020 og í maí og júní s.á.

Málavextir: Mál þetta á sér talsverða forsögu, en kærandi hefur um langt skeið komið á framfæri athugasemdum við Ísafjarðarbæ vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum. Á árinu 2014 fór kærandi fram á það við skipulags- og byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að svonefnt Sjávarhús á Látum yrði fjarlægt, þar sem það hefði verið reist án tilskilinna leyfa. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. febrúar 2015, var tilkynnt að fram kominni kröfu væri hafnað, m.a. með þeim rökum að langt væri liðið frá byggingu hússins.

Á árinu 2016 kom kærandi að frekari athugasemdum til Ísafjarðarbæjar og skoraði á sveitar­félagið að hefja lögformlegt ferli er lyti að því að Sjávarhúsið yrði fjarlægt sem og geymslu­skúrar sem reistir hefðu verið í fjörukambinum án tilskilinna leyfa. Jafnframt beindi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fór m.a. fram á það að bygging fyrrgreinds Sjávarhúss yrði úrskurðuð óleyfisframkvæmd og að byggingaraðila yrði gert að fjarlægja húsið. Einnig var gerð krafa um að áðurnefndir geymsluskúrar yrðu fjarlægðir. Í úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 6. september 2018 í máli nr. 116/2016, var vísað til þess að meira en ár væri liðið frá því að synjun á kröfu kæranda um að Sjávarhúsið skyldi fjarlægt hefði verið tilkynnt honum og kæmi því ekki til álita að endurskoða lögmæti þeirrar ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var þeim hluta málsins því vísað frá. Þá tók úrskurðarnefndin ekki afstöðu til þeirrar kröfu að viðbygging Sjávarhússins og geymsluskúrar yrðu fjarlægðir heldur lagði fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða þá enn óafgreidd erindi kæranda þess efnis.

Í kjölfarið sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til kæranda, dags. 18. janúar 2019, þar sem m.a. var tekið fram að ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að hafna því að hlutast til um að Sjávarhúsið yrði fjarlægt teldist endanleg á stjórnsýslustigi. Var og bent á að félagið kynni að eiga rétt á því að umrædd ákvörðun yrði tekin til meðferðar á ný teldi það að skilyrði 24. gr. stjórnsýslu­laga væru uppfyllt. Þá lægi fyrir að svonefnd áhaldahús eða smáhýsi í fjörukambi væru undan­þegin byggingarleyfi, sbr. g. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hefði ekkert fram komið, að telja yrði, um að þau uppfylltu ekki skilyrði ákvæðisins. Auk þess væri ekki unnt að líta svo á að með samkomulagi frá árinu 2004 varðandi byggingarleyfi í friðlandinu á Hornströndum hefði að þessu leyti verið vikið frá ákvæðum reglugerðarinnar. Hefði Ísafjarðarbær ekki haft aðkomu að málum vegna lóðarréttinda á þessu svæði enda landið í einkaeigu. Loks var tilkynnt að skipulags- og byggingarfulltrúi hefði til skoðunar hvort leggja ætti til við skipulags- og mannvirkjanefnd að hafna kröfum kæranda varðandi umrædd áhaldahús eða smáhýsi nema eitthvað kæmi fram af hans hálfu sem leiddi til annars. Var kæranda gefinn kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum sínum, ábendingum eða andmælum fyrir 25. febrúar 2019. Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. febrúar s.á., fór kærandi fram á að greind ákvörðun um að Sjávarhúsið yrði ekki fjarlægt væri endurupptekin með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hefði m.a. byggst á röngum forsendum um það hvenær húsið hefði verið reist.

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. maí 2019, var tilkynnt að kröfu um endurupptöku væri hafnað. Var m.a. vísað til þess að ákvörðun sú sem hér um ræddi hefði verið tilkynnt kæranda 3. febrúar 2015 og ljóst að allir tímafrestir skv. 24. gr. stjórnsýslulaga væru liðnir. Einnig var tekið fram að óháð tímafrestum væri ekki fallist á að umrædd ákvörðun hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum í skilningi tilvitnaðs ákvæðis. Engu gæti breytt í þeim efnum hvort fasteignin væri byggð á árunum 1970, 1980-1983 eða 1993. Þá var tekið fram að ekkert hefði fram komið af hálfu kæranda er breytti afstöðu til svonefndra áhaldahúsa eða smáhýsa í fjörukambi. Einnig kom fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á eignarhald á sjávarlóðunum í fjörukambi Látra miðað við afsal lóðanna frá 26. október 1932. Með vísan til þess alls sem fram hefði komið væri því kröfu kæranda um að áhaldahús eða smáhýsi í fjörukambi yrðu fjarlægð hafnað. Þá kom fram í nefndu bréfi að ólokið væri málsmeðferð vegna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús yrði fjarlægð. Nú liggur fyrir ákvörðun vegna síðastgreindrar kröfu kæranda og hefur hann kært hana til úrskurðarnefndarinnar. Er það kærumál nr. 55/2020.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í bréfi Ísafjarðarbæjar til kæranda, dags. 3. febrúar 2015, hafi átt að upplýsa um þau tímamörk sem 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tilgreini. Ef svo hefði verið gert hefði verið hægt að bregðast við á réttan hátt. Jafnframt hafi ekki verið veittar upplýsingar um það hvernig staðið skyldi að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Hvað varði kröfu um endurupptöku sé tekið fram að það standist enga skoðun að svonefnt Sjávarhús hafi verið reist árið 1970. Það sé ekki sjáanlegt á loftmyndum frá 4. ágúst 1986 sem finna megi á vef Landmælinga Íslands. Leyfi fyrir byggingu hússins hafi verið veitt árið 1988 og það hafi verið reist á tímabilinu 1988-1992. Ákvörðun Ísafjarðarbæjar sé því byggð á röngum forsendum. Mæli veigamiklar ástæður með því að leyfa endurupptöku, en einnig hafi komið fram nýjar upplýsingar sem styðji kröfu kæranda.

Þegar umrætt hús hafi verið reist hafi gilt allt aðrar reglur og lög en árið 1970. Hvorki liggi fyrir leyfi frá Ísafjarðarbæ fyrir byggingunni né leyfi frá Náttúruverndarráði eða Umhverfisstofnun. Umrædd lóð sé í sameign og eigi kærandi 50% í henni. Þurfi samþykki allra landeiganda til byggingar hússins, en það liggi ekki fyrir. Einnig séu byggingarréttindi bundin við íbúðarhús og þjónustuhús, en á lóðinni hafi staðið verbúð og þar af leiðandi sé ekki leyfilegt að byggja á henni. Á Látrum sé kvóti fyrir fjölda sumarbústaða sem reisa megi og hafi enginn annar land­eigandi látið eigendum Sjávarhússins í té ónýtt byggingarréttindi sín. Skerði Sjávarhúsið því eignarrétt einhvers annars landeiganda og geti þetta valdið miklum vandræðum og deilum seinna meir þegar og ef kvótinn klárist.

Milli nánar tilgreindra landeigenda hafi verið gert samkomulag 26. október 1932 um byggilegar lóðir á Látrakambi, sem sé samnefni fyrir Nessjó og Heimasjó. Ekki hafi allir landeigendur nýtt sér þessar lóðir en einnig hafi verið reistir skúrar fyrir utan þetta skilgreinda svæði seinna meir. Hafi landeigendur Látra ekki verið sammála um hvort um sé að ræða séreignarrétt eða afnotarétt af sameiginlegu landi. Kærandi telji það ekki skipta máli þar sem reglur um byggingu húsa gildi óháð því hvort um séreignar- eða sameignarland sé að ræða. Í dag séu á Nessjó fimm smáhýsi, Sjávarhúsið og Ólafsskáli. Séu smáhýsin nýtt sem fjórhjólageymslur.

Því sé hafnað að smáhýsin séu undanþegin byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Standi þau ein og sér, fjarri sumarhúsum viðkomandi aðila. Hvorki hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umræddum smáhýsum né liggi fyrir samþykki allra landeigenda eða Umhverfisstofnunar fyrir byggingu þeirra. Einn eigandinn hafi fengið leyfi til að byggja smáhýsi við sumarhúsið sitt en hann hafi reist það við Nessjó. Fjórir af fimm eigendum smáhýsanna séu ekki landeigendur og eigi því engin réttindi á Látrum. Af þeim húsum sem staðið hafi við Nessjó þá falli einungis eitt þeirra í flokkinn „íbúðarhús“, en önnur í flokkinn „önnur hús“ og því sé ekki heimild til að endurbyggja þau. Þrátt fyrir að lög og reglur um þetta svæði séu afar skýrar þá hafi þeir aðilar sem stóðu að byggingu húsanna ekki farið að settum reglum. Sé í þessu sambandi bent á 1. gr. auglýsingar um friðland á Hornströndum og „Samkomulag varðandi byggingarleyfi á friðlandinu á Hornströndum“.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er tekið fram að kæran uppfylli tæpast skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Til að mynda komi ekki fram nákvæmlega hvaða kröfur séu gerðar eða á hvaða grundvelli. Þá virðist hluti kærunnar varða mál sem enn sé til meðferðar hjá Ísafjarðarbæ. Leiði þetta til þess að óhjákvæmilegt sé að vísa kærunni frá. Verði kæran þrátt fyrir þetta tekin til efnislegrar meðferðar sé áréttað að sveitarfélagið telji að það sé ekki hlutverk þess eða byggingarfulltrúa að leysa úr einkaréttarlegum ágreiningi aðila. Nærtækara sé að viðkomandi nýti sér þau einka­réttarlegu úrræði sem standi til boða til að fá þeim rétti sínum framgengt.

Ítrekuð séu sjónarmið sem þegar hafi komið fram í málinu. Afstaða sveitarfélagsins til svo­nefndra áhaldahúsa eða smáhýsa í fjörukambinum sé óbreytt. Þá sé bent á að ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um þær ráðstafanir sem byggingarfulltrúi geti gripið til, t.d. ef mannvirki séu reist án tilskilinna leyfa, feli í sér heimildir byggingarfulltrúa. Í þeim felist ekki skylda hans til að t.d. stuðla að því að mannvirki sé fjarlægt af þeirri ástæðu og þótt fyrir liggi að það hafi verið reist án byggingarleyfis. Við mat byggingar­fulltrúa á því hvort þessum heimildum skuli beitt komi margvísleg atriði til skoðunar. Þeirra á meðal sé sá tími sem liðinn sé frá því að mannvirki hafi verið reist, réttmætar væntingar eigenda þess og sjónarmið um að ekki skuli raska verðmætum án fullnægjandi tilefnis. Þá hafi sama ágreiningi áður verið vísað til úrskurðarnefndarinnar og sé vísað til þess eftir því sem við eigi.

——-

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kærð er. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. júlí 2019. Afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa vegna meintra óleyfisframkvæmda að Látrum voru tilkynntar kæranda með bréfi, dags. 28. maí s.á. en af hans hálfu er því haldið fram að það hafi verið póstlagt 13. júní s.á. og ekki borist stjórnarformanni félagsins fyrr en 18. s.m. Þótt úrskurðarnefndinni hafi borist þær skýringar frá Ísafjarðarbæ að umrætt bréf hafi verið póstlagt 28. maí 2019, og það þyki sennilegt þegar hliðsjón er höfð af verkferlum bæjarins og skráningu í málaskrá, telur nefndin án frekari gagna ekki hægt að útiloka að bréfið hafi ekki borist kæranda fyrr en 18. júní s.á. Verður kæru hans af þeim sökum ekki vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1.tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í máli þessu er meðal annars deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Ísafjarðarbæjar að synja beiðni kæranda um endurupptöku á þeirri ákvörðun að hafna því að hlutast til um að svonefnt Sjávarhús á Látrum yrði fjarlægt. Sú ákvörðun að hafna því að fjarlægja Sjávarhúsið var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, og var kæru hans á þeirri ákvörðun vísað frá af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála með úrskurði í kærumáli nr. 116/2016 á þeim grundvelli að kærufrestur væri löngu liðinn, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Í kjölfar úrskurðarins var kæranda af hálfu Ísafjarðarbæjar leiðbeint um möguleika á því að óska eftir endurupptöku teldi kærandi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga uppfyllt. Samkvæmt nefndu lagaákvæði á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Ísafjarðarbæ voru tímafrestir þeir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir og voru þeir raunar liðnir þegar kæra barst úrskurðarnefndinni á þeirri ákvörðun sem endurupptökubeiðnin laut að. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé þeim ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Markmiðið sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Hvorki í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né heldur í greinargerð með frumvarpi til laganna er að finna skilgreiningu á því hvaða ástæður teljist til veigamikilla ástæðna. Sama orðalag er notað í 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um hvenær kæra sem borist hefur að liðnum kærufresti getur verið tekin til meðferðar, þótt ljóst sé að henni verði ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. Í athugasemdum við 1. mgr. 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Verður að telja ljóst að við mat á því hvort endurupptaka eigi mál beri að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra. Einnig verður að taka mið af þeim sjónarmiðum sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti og áður var getið. Eiga nefnd sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga.

Sú synjun skipulags- og byggingarfulltrúa á að beita þvingunarúrræðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 sem kærandi kærði í kærumáli nr. 116/2016 og beiddist síðar endurupptöku á laut að fasteign sem er í eigu annars aðila. Hefði skipulags- og byggingarfulltrúi komist að öndverðri niðurstöðu og beitt þvingunarúrræðunum hefði sú ákvörðun verið verulega íþyngjandi fyrir eiganda húss þess sem hér um ræðir. Eru hagsmunir hans andstæðir hagsmunum kæranda. Þótt kæranda hafi ekki verið leiðbeint um fresti til endurupptöku eða kæru er til þess að líta að almennt verður að gera þá kröfu til aðila, séu þeir ósáttir við niðurstöðu máls, að þeir fylgi því eftir og kanni þau réttarúrræði sem þeim kunna að standa til boða. Í öllu falli réttlætir skortur á leiðbeiningum ekki þann mikla drátt sem varð á því að kærandi leitaði réttar síns þegar litið er til annarra hagsmuna í málinu og þeirra sjónarmiða sem að framan eru reifuð. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu að vafi kunni að leika á því hvenær húsið var reist, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Sjávarhúsið byggt árið 1970. Þrátt fyrir að mögulegt sé að byggingu þess hafi ekki verið lokið fyrr en nokkrum árum síðar er ljóst að töluvert er frá því liðið. Að framangreindu virtu voru ekki fyrir hendi skilyrði til endurupptöku og var skipulags- og byggingarfulltrúa því rétt að synja fram kominni beiðni þess efnis.

Í máli þessu er jafnframt deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að hafna kröfu kæranda um að svonefnd áhaldahús eða smáhýsi í fjöru­kambinum verði fjarlægð. Er nefnd ákvörðun studd þeim rökum að smáhýsin séu undanþegin byggingarleyfi, sbr. g. lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Að auki er til þess vísað að kærandi hafi ekki sýnt fram á eignarhald á sjávarlóðunum í fjörukambi Látra miðað við skiptagjörð vegna lóðanna frá 26. október 1932. Með afsali, dags. 24. maí 2013, er þinglýst var 10. júní s.á., afsala nánar tilgreindir aðilar 100% hlut sínum í ½ hlut í Látrum í Aðalvík, landsnúmer 189033, og 100% hlut í ½ Neðri-Miðvík í Aðalvík, landsnúmer 189037, til kæranda máls þessa. Er kærandi skráður eigandi Látra ásamt fleirum í fasteignaskrár Þjóðskrá Íslands. Þrátt fyrir framangreinda skiptagjörð verður að leggja þá opinberu skráningu til grundvallar og telja að kærandi eigi hagsmuna að gæta um ráðstöfun jarðarinnar.

Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingar­fulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð er falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Er mælt fyrir um það í 1. mgr. 9. gr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að beiting þeirra sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Svo sem fyrr greinir var það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að umrædd smáhýsi væru undanþegin byggingarleyfi skv. g. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að nánar tilgreindar framkvæmdir og breytingar séu undanþegnar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Geta smáhýsi fallið þar undir, sbr. g. lið ákvæðisins að nánar tilgreindum kröfum uppfylltum, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deili­skipulagi. Þótt í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sé m.a. gert ráð fyrir því að á Látrum megi endurbyggja öll íbúðarhús og þjónustuhús sem búið hafi verið í eftir 1908 og fram­kvæmdir skuli nánar útfærðar í deiliskipulagi verður ekki hjá því litið að ekki er í gildi deiliskipulag fyrir Látra. Kom af þeim sökum ekki til álita að rökstyðja höfnun á beitingu þvingunarúrræða með vísan til ákvæðis gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð sem gerir samræmi við deiliskipulag að skilyrði. Þegar af þeirri ástæðu að hin kærða ákvörðun um synjun á að beita þvingunarúrræðum vegna smáhýsa byggðist á röngum forsendum verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Það athugist að samkvæmt auglýsingu nr. 332/1985 um friðland á Hornströndum eru Látrar í Aðalvík innan friðlandsins. Samkvæmt lið 1 í auglýsingunni er öll mannvirkja­gerð, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum frá stór­straums­fjöruborði, háð leyfi Umhverfisstofnunar, en að auki þarf eins og fyrr segir að liggja fyrir leyfi byggingarfulltrúa. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hafði skipulags- og byggingarfulltrúi samband símleiðis við starfsmann Umhverfisstofnunar við meðferð málsins. Þótt úrskurðarnefndin hafi verið upplýst um að í einhverjum tilvikum hafi verið sótt um leyfi til stofnunarinnar fyrir byggingu smáhýsa á sínum tíma er rétt að benda á að ekki verður séð að frekari rannsókn hafi farið fram að hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa á því hvort gætt hefði verið að reglum framangreindrar auglýsingar að öllu leyti og hvaða máli það gæti skipt við ákvörðun hans.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðar­bæjar sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja beiðni um endur­upptöku þeirrar ákvörðunar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja Sjávarhúsið á Látrum.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja kröfu kæranda um að fimm smáhýsi sem staðsett eru í fjöru­kambinum á Látrum verði fjarlægð.