Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2015 Glaðheimareitur Bolungarvík

Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 um að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits í Bolungarvík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2015, er barst nefndinni 17. s.m., kæra eigendur, Hlíðarstræti 20, Bolungarvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits. Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Bolungarvíkurkaupstað 17. september 2015 og í mars 2017.

Málavextir: Í nokkur ár mun framtíðarskipan húsnæðismála hjá leikskólanum Glaðheimum hafa verið til skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum Bolungarvíkurkaupstaðar. Á fundi bæjarstjórnar 10. apríl 2014 var lögð fram tillaga um staðsetningu viðbyggingar við leikskólann að Hlíðarstræti 16-18. Lagði meirihluti bæjarstjórnar til að áfram yrði unnið að hönnun viðbyggingarinnar í samræmi við tillögu C, sem gerði ráð fyrir nýrri álmu meðfram Hlíðarstræti, hornrétt á eldri byggingu. Kannað yrði sérstaklega hvort hægt væri að minnka byggingarmagn. Greiddi minnihluti bæjarstjórnar atkvæði gegn tillögunni þar sem ekki hefði verið tekið tillit til athugasemda þeirra um aukna slysahættu og skert öryggi við aðkomu að leikskólanum. Áfram var unnið að málinu og á fundi umhverfismálaráðs 11. desember 2014 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Glaðheimareits og lagt til við bæjarstjórn að hún yrði auglýst til kynningar. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 29. janúar 2015. Afmarkast skipulagssvæðið af Þjóðólfsvegi, Völusteinsstræti, Holtabrún og göngustíg norðan við lóð leikskólans að Hlíðarstræti.

Í auglýstri tillögu var tilgreint að skipulagssvæðið væri hluti af grónu íbúðarhúsahverfi bæjarins og ekki væri gert ráð fyrir miklum breytingum á því. Markmið deiliskipulagsins væri að afmarka lóðir og skilgreina stækkunarmöguleika á þeim. Fyrir lægi að stækka þyrfti leikskólann sem væri innan reitsins. Gerði tillagan ráð fyrir að byggingarmagn á lóð leikskólans að Hlíðarstræti 16-18 yrði aukið úr 263,80 m² um 478,30 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,10 í 0,25. Á tillöguuppdrætti voru sýndar tvær mismunandi hugmyndir að stækkun leikskólans.

Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, þ. á m. frá kærendum. Bentu þeir m.a. á að áætlaður byggingarreitur fyrir leikskólalóð næði allt of langt að húseign þeirra. Framkomnar athugasemdir voru til umfjöllunar á fundi umhverfismálaráðs 14. apríl 2015. Var fært til bókar að byggingarfulltrúa væri falið „að yfirfara byggingarreitinn á leikskólalóðinni“ og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar drög að svörum við athugasemdum. Málið var á dagskrá bæjarstjórnar 30. s.m. þar sem lögð var fram bókun um uppbyggingu leikskóla í sveitarfélaginu.

Á fundi umhverfismálaráðs 26. maí 2015 voru lögð fram svör við framkomnum athugasemdum og kom þar fram að gerðar hefðu verið breytingar á hinni auglýstu skipulagstillögu varðaði byggingarreit lóðarinnar að Hlíðarstræti 16-18. Þá var tekið fram að fjarlægð byggingarreits lóðarinnar frá húsum við Hlíðarstræti 20 og Hjallastræti 27 yrði að lágmarki 6 m. Var lagt til við bæjarstjórn að tillagan svo breytt yrði samþykkt.

Hinn 18. júní 2015 var málið tekið fyrir að nýju í bæjarstjórn. Færði meirihluti hennar til bókar að umhverfismálaráð hefði í umfjöllun sinni um tillöguna tekið tillit til athugasemda íbúa í Hlíðarstræti og breytt henni til að koma til móts við þær. Minnihluti bæjarstjórnar benti hins vegar á að umhverfismálaráð hefði tekið undir athugasemdir næstu nágranna á fundi 26. maí 2015 og alvarlegt væri ef ekki væri hlustað á athugsemdir íbúanna. Var tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Í kjölfar þess var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 2. september 2015.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að með því að heimila í deiliskipulagi svo stóra byggingu nærri húseign þeirra sé gróflega á þeim brotið. Fyrirhuguð viðbygging muni hafa í för með sér veruleg grenndaráhrif og skerða gæði og verðmæti fasteignar þeirra. Útsýni frá húsi kærenda skerðist og hætta sé á aukinni snjósöfnun og vindstreng við hús þeirra. Hafi umhverfismálaráð tekið undir áhyggjur kærenda í svarbréfi til þeirra. Ekki hafi verið tekið tillit til framkominna athugasemda að því er varði nálægð fyrirhugaðrar byggingar við hús kærenda.

Málsrök Bolungarvíkurkaupstaðar: Sveitarfélagið tekur fram að leikskólinn að Hlíðarstræti 16-18 hafi verið byggður árið 1979. Árið 2007 hafi verið opnuð deild leikskólans í Lambhaga við Höfðastíg. Í Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008-2020 segi m.a. að ljóst sé að stækka þurfi leikskólann. Hann verði áfram við Hlíðarstræti en jafnframt sé gert ráð fyrir leikskólastarfi í Lambhaga. Komið hafi verið til móts við athugasemdir er borist hafi á kynningartíma tillögunnar. Meðal annars hafi verið málsett lágmarksfjarlægð milli Hlíðarstrætis 20 og byggingarreits leikskólans og byggingarreitur færður fjær Hlíðarstrætinu. Hafi deiliskipulagið verið unnið í samræmi við gildandi skipulagslög og skipulagsreglugerð.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag tekur m.a. til lóðarinnar að Hlíðarstræti 16-18 og er í máli þessu fyrst og fremst deilt um heimild fyrir viðbyggingu leikskóla sem þar er starfræktur. Umrædd lóð er á svæði ÞÍ í Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008-2020 sem skilgreint er sem svæði fyrir þjónustustofnanir. Er lóðin 0,4 ha samkvæmt aðalskipulagi og segir m.a. í skilmálum fyrir lóðina að þar sé gert ráð fyrir leikskóla og tilheyrandi uppbyggingu. Svæði ÞÍ er einnig leiksvæði samkvæmt aðalskipulaginu. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að húsnæði leikskólans við Hlíðarstræti rúmi ekki þann fjölda barna sem sé á leikskólaaldri í Bolungarvík, en meðal markmiða aðalskipulagsins er að tryggja nægt leikskólapláss. Ljóst sé að stækka þurfi leikskólann. Hann verði áfram við Hlíðarstræti en jafnframt sé gert ráð fyrir leikskólastarfi í Lambhaga, þar sem leikskólinn sé jafnframt starfræktur.

Núverandi hús á lóðinni að Hlíðarstræti 16-18 er 263,80 m² að stærð, en byggingarmagn innan byggingarreits lóðarinnar getur samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi orðið allt að 742,10 m². Í sérskilmálum skipulagsins fyrir nefnda lóð er áskilið að fjarlægð byggingarreits frá húsum við Hlíðarstræti 20, þ.e. húsi kærenda, og Hjallastræti 27 verði að lágmarki 6 m. Jafnframt er tekið fram að huga skuli að gæðum lóðarinnar við hönnun byggingar og staðsetningu hennar m.t.t. snjósöfnunar, vinds og skuggamyndunar. Þá skuli tryggja að aukið byggingarmagn og fyrirkomulag á lóð skerði ekki gæði nágrannalóða. Leitast skuli við að draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum með landmótun, gróðurnotkun, veggjum o.þ.h. innan lóðar.

Á deiliskipulagsuppdrætti er skýringarmynd með tveimur hugmyndum að stækkun leikskólans. Önnur þeirra sýnir viðbyggingu er liggur þvert á skólann, meðfram Hlíðarstræti í átt að húsi kærenda, og er það sú staðsetning sem kærendur hafa gert athugasemdir við. Í svörum sveitarfélagsins við athugasemdum er bárust á kynningartíma tillögunnar kemur fram að ljóst sé að útsýni frá norðurhlið húss kærenda muni skerðast verulega og útsýni frá norðurhluta austurhliðar lítillega. Ekki verði séð að aukinnar skuggamyndunar muni gæta við húsið, en ekki sé útilokað að aukinn vindstrengur verði milli viðbyggingar leikskólans og hússins.

Heimiluð stækkun á húsnæði leikskólans samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi byggir á áðurgreindri stefnu og markmiðum gildandi aðalskipulags, eins og kveðið er á um í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana jafnframt fullnægt.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, er fela m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað. Fyrir liggur að með greindu skipulagi var m.a. verið að þjóna almannahagsmunum með því að bregðast við þörf á auknu leikskólaplássi í sveitarfélaginu og studdist ákvörðun sveitarstjórnar því við málefnaleg sjónarmið.

Á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti er markaður byggingarreitur yfir stóran hluta lóðarinnar Hlíðarstræti 16-18, sem er talin vera 2.968,39 m² að stærð. Heimilað er að stækka byggingu þá sem fyrir er á lóðinni úr 263,80 m² í 742,10 m², eða um 478,30 m² . Staðsetning viðbyggingar getur því orðið með ýmsu móti á lóðinni. Grenndaráhrif viðbyggingarinnar á næstu fasteignir verða því ekki ráðin fyrr en endanleg ákvörðun verður tekin um staðsetningu hennar með samþykki byggingarleyfis og þá að gættum gildandi skilmálum deiliskipulagsins. Skýringarmyndir þær sem sýna tvær hugmyndir að staðsetningu viðbyggingarinnar teljast ekki vera bindandi hluti skipulagsins skv. gr. 5.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda er þess ekki sérstaklega getið á skipulagsuppdrættinum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags sé haldin ógildingarannmörkum eru ekki efni til að fella það úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Bolungarvíkur frá 18. júní 2015 um að samþykkja deiliskipulag Glaðheimareits í Bolungarvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson