Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2024 Iðndalur

Árið 2024, föstudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður

Fyrir var tekið mál nr. 64/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun lóðarinnar Iðndals 23, Vogum, á kostnað eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 14. júní 2024, kærir Iðndalur 23 ehf., ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun á hluta lóðar sem fylgja eignahlutum 01 0103 og 01 0104 að Iðndal 23, Vogum, á kostnað eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess jafnframt krafist að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sendi bréf sín með ábyrgðarpósti og að þeir undirriti bréfin.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 12. júlí 2024.

Málavextir: Kærandi máls þessa er með atvinnustarfsemi í iðnaðarhúsnæðinu að Iðndal 23, Vogum. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 19. apríl 2024, var þeirri kröfu beint að fyrirsvarsmanni kæranda að númerslausar vinnuvélar og ökutæki á sérafnotahluta félagsins á lóðinni yrðu fjarlægð og úrgangur flokkaður og komið í löglega förgun. Undanskilin þessari hreinsun voru ökutæki, vinnuvélar og kerrur á skráningarnúmerum auk lausafjármuna með stöðuleyfi frá byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Veittur var fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að ljúka verkinu en tekið fram að heilbrigðiseftirlitið gæti að öðrum kosti gripið til þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Með vísan til þeirra úrræða mætti heilbrigðiseftirlitið hlutast til um hreinsun lóðarinnar og kostnaður sem félli þannig til væri tryggður með lögveði í eignarhluta félagsins í lóðinni. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 22. maí 2024 fór heilbrigðiseftirlitið í vettvangsferð að Iðndal 23 og var niðurstaðan sú að lokinni skoðun að úrbætur væru ekki fullnægjandi. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 23. s.m., var krafa um hreinsun lóðarinnar ítrekuð og gefinn tveggja vikna lokafrestur til að ljúka hreinsun. Sama dag var málið tekið fyrir á fundi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja þar sem tekin var ákvörðun um að heilbrigðiseftirlitinu yrði falin hreinsun lóðarinnar að loknum þeim lokafresti sem veittur hafði verið. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi dags. 28. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst ekki hafa móttekið þau bréf sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi sent en ekkert þeirra hafi verið sent í ábyrgðarpósti og því sé algerlega ósannað hvaða dag þau hafi borist. Iðndalur 23 ehf. hafi frá árinu 2012 haft allar tekjur af útleigu tækja og þjónustu tengdri byggingariðnaðinum. Ekki fáist skilið hvers vegna Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telji sjónmengun stafa af starfseminni. Númerslausir bílar sem standi á lóðinni fái skráningarnúmer þegar þeir séu í útleigu líkt því sem bílaleigur geri án afskipta heilbrigðiseftirlitsins. Staflar af byggingarefni á lóðinni hafi aflagast eftir veturinn en þeim verði komið í betra horf á næstunni. Byggingarfulltrúi hafi óskað eftir því við kæranda að tekið yrði til á lóðinni sem hafi verið gert.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja fari með „offorsi“ gegn kæranda. Lóðin Iðndalur 23 sé skilgreind sem atvinnulóð en lóðum í kring hafi verið breytt í íbúðarlóðir. Hafi kærandi sótt um að fá lóð sinni breytt í lóð undir íbúðarhúsnæði til þess að breyta rekstri í útleigu leiguíbúða en því hafi í tvígang verið hafnað af skipulagsnefnd. Þetta „upphlaup“ yfir byggingarefni á lóðinni sé óskiljanlegt en til standi að nota það í byggingu húss á lóðinni þegar leyfi fáist. Veður á svæðinu sé slæmt á veturna en hingað til hafi ekkert fokið af lóðinni né skaði hlotist af starfseminni.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að heimild heilbrigðisnefndar til beitingar þvingunarúrræða byggist á XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í nefndum lögum, reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs sé heimild til að krefjast lóðarhreinsunar. Um þvingunarúrræði vísist til reglugerðar nr. 941/2002 og um stofnun lögveðs í fasteign vegna kostnaðar við hreinsun sé vísað til laga nr. 7/1998.

Kæranda hafi verið ritað bréf, dags. 23. maí 2024, þar sem bent hafi verið á niðurstöðu vettvangsferðar sem farin hafði verið 22. s.m. en að mati embættisins hafi úrbætur ekki verið fullnægjandi. Engin viðbrögð hafi borist við því erindi. Sama dag og bréfið var sent hafi Heilbrigðisnefnd Suðurnesja komið saman og tekið ákvörðun um hreinsun lóðarinnar að loknum þeim lokafresti sem gefinn hafi verið í bréfinu. Hafi kæranda verið sent annað bréf um þá ákvörðun dags. 28. s.m. Tölvupóstur hafi þá borist frá kæranda 3. júní s.á. og var þeim pósti svarað degi síðar og óskað eftir að fyrirsvarsmaður kæranda legði fram skriflegt umboð til að fara með málefni Iðndals 23 ehf.

Vettvangsferð að Iðndal 23 hafi verið farin 9. júlí 2024 og lóðin skoðuð. Hafi fyrirsvarsmaður kæranda þá komið á vettvang og rætt við starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins. Á þeim hluta lóðarinnar sem tilheyri Iðndal 23 ehf. hafi verið sex númerslaus ökutæki sem fyrirsvarsmaður kæranda kvaðst munu fjarlægja af lóðinni. Rituð hafi verið skýrsla um vettvangsferðina, dags. 11. júlí 2024. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki hlutast til um gáma á lóðinni, enda hlutverk byggingarfulltrúa.

Bent sé á að bréf, dags. 19. apríl 2024 sem og bréf dags. 23. og 28. maí s.á., hafi verið send með almennum pósti á skráðan fyrirsvarsmann kæranda samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Af framkominni kæru sé augljóst að a.m.k. síðastnefnda bréfið hafi borist honum. Telji heilbrigðiseftirlitið því að rétt hafi verið staðið að tilkynningum um málsmeðferðina.

Í kæru sé því haldið fram að rekin sé útleiga bíla að Iðndal 23 án frekari rökstuðnings eða gagna, en slíkur rekstur sé starfsleyfisskyldur hjá Samgöngustofu. Þá hafi það enga þýðingu við úrlausn málsins þótt rusl og úrgangur á lóðinni sé í eigu fleiri leigutaka en kæranda, enda hafi leigusali úrræði til að taka á því. Allt frá árinu 2014 hafi heilbrigðiseftirlitið haft uppi kröfur á félagið um hreinsun lóðarinnar og til að mynda hafi verið gerð samskonar krafa um hreinsun lóðarinnar árið 2021. Í ljósi þeirra athugasemda sem heilbrigðiseftirlitið hafi beint til kæranda á undanförnum árum ætti fyrirsvarsmönnum þess að vera fullljóst hvaða reglur gildi um meðferð úrgangs og hvernig þeim sé fylgt eftir.

Þá sé það ekki stutt neinum gögnum að númerslausir bílar á lóðinni séu nýttir til útleigu. Séu umrædd ökutæki sannanlega númerslaus og illa útlítandi auk þess sem frá mörgum þeirra hafi sýnilega lekið olía í jarðveg. Þá séu glerbrot frá bílrúðum einnig sýnileg í jarðvegi. Sé því mat heilbrigðiseftirlitsins að umgengni um lóðina Iðndal 23 sé slík að henni fylgi hætta á mengun, slysum og að rusl og úrgangur sé til lýta.

Samkvæmt framangreindu telji heilbrigðiseftirlitið að ákvörðunin hafi verið innan valdheimilda þess og framkvæmd hennar farið að gildandi lögum og reglugerðum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sendi bréf sín undirrituð og með ábyrgðarpósti heldur einungis til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um að hefja hreinsun á eignarhlutum 01 0103 og 01 0104 lóðarinnar Iðndal 23, Vogum, á kostnað eiganda, sem tryggður er með lögveði í viðkomandi eignarhlutum félagsins skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Við töku ákvörðunarinnar var vísað til laga nr. 7/1998, reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs.

Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998. Samkvæmt 47. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að ákvæðum laganna sé framfylgt sem og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á.

Bréf heilbrigðiseftirlitsins voru send á lögheimili skráðs fyrirsvarsmanns Iðndals 23 ehf. Skráður fyrirsvarsmaður félagsins er dóttir þess manns er fer með daglega stjórn kæranda. Sá maður kemur fram fyrir hönd félagsins gagnvart úrskurðarnefndinni í máli þessu. Hann kveðst ekki hafa haft vitneskju um bréfin sem dagsett eru 19. apríl 2024, 23. og 28. maí s.á. Samkvæmt gögnum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja barst eftirlitinu tölvupóstur frá greindum aðila 3. júní 2024 þar sem hann kveðst hafa fengið tvö bréf í hendurnar þann sama dag og var þar komið að athugasemdum varðandi fyrirhugaða hreinsun lóðarinnar. Verður litið svo á að þá þegar hafi honum verið ljóst að stjórnvaldið væri með mál varðandi hreinsun umræddrar lóðar til meðferðar. Hefði honum því verið í lófa lagið og rétt að fylgjast með þeim bréfum sem bárust á heimilisfang kæranda. Í umræddum bréfum voru leiðbeiningar um kærufrest og kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998 en kæra til nefndarinnar barst innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður því litið svo á að kærandi hafi átt þess kost að koma að andmælum skv. 13. og 14. gr. laga nr. 37/1993 og bregðast við tilkynningunum. Er einnig til þess að líta að kæranda hefur gefist færi á að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð þessa kærumáls.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 941/2002 var eiganda eða umráðamanni lóða skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði. Í 1. mgr. 20. gr. sömu reglugerðar kom fram að bannað væri að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Í 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs er fjallað um almennan þrifnað utanhúss. Þar kemur fram að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Sé það hlutverk heilbrigðisnefnda að annast eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í því skyni er heilbrigðisnefndum veitt heimild til að krefjast aðgerða og úrræða sé kröfum ekki fylgt eftir, m.a. að krefjast aðgerða ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða sé ástand lóðar til lýta fyrir umhverfið sbr. a–lið, fyrirskipa hreinsun lóða sbr. b–lið, sem og láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun sbr. c–lið. Þá er heilbrigðisnefnd einnig veitt heimild með d–lið greinarinnar til að hreinsa einkalóðir á kostnað eiganda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.

Kærandi er einn af tveimur leigutökum lóðarinnar og eigandi hluta 01 0103 og 01 0104 í fasteigninni. Hann hefur því sérafnotarétt af þeim hlutum lóðarinnar sem ákvörðun um hreinsun beinist að og ber honum skylda til að halda lóðinni hreinni og snyrtilegri, sbr. 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 942/2002 og 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023. Í bréfum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja kemur meðal annars fram að umgengni um lóðina sé slík að henni fylgi hætta á mengun og slysum. Númerslaus ökutæki standi á lóðinni ásamt öðrum úrgangi sem sé til lýta fyrir umhverfið. Með bréfunum fylgdu myndir sem styðja þessar staðhæfingar og gerir úrskurðarnefndin að því virtu ekki athugasemdir við það mat heilbrigðiseftirlitsins eða hina kærðu ákvörðun.

Að framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 23. maí 2024 um að hefja hreinsun lóðarinnar Iðndals 23, Vogum.