Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2022 Bárugata

Árið 2022, föstudaginn 14. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. ágúst 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta og hækka mæni og útveggi hússins að Bárugötu 14.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúða að Ránargötu 13 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. ágúst 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta og hækka mæni og útveggi hússins að Bárugötu 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. júlí 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. janúar 2021 var lögð fram umsókn um leyfi til að breyta og hækka mæni og útveggi hússins að Bárugötu 14. Málinu var frestað og vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum. Var hún grenndarkynnt 29. janúar 2021 með athugasemdafresti til 26. febrúar s.á. Fresturinn var framlengdur fimm sinnum eða til og með 7. júní 2021. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 25. ágúst s.á. var erindið samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 20. s.m., og var erindinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingar­fulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingar-fulltrúa 31. ágúst 2021 var umsóknin samþykkt og byggingar­­­leyfi gefið út 31. maí 2022. Munu framkvæmdir hafa hafist í byrjun júní s.á. en byggingarfulltrúi stöðvaði þær til bráðabirgða 30. júní 2022 á grundvelli 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var stöðvuninni aflétt með tilkynningu í tölvupósti byggingarfulltrúa til leyfishafa 9. ágúst s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að lóðir Ránargötu 13 og Bárugötu 14 liggi saman og því hafi kærendur sérstaka og lögvarða hagsmuni tengda framkvæmdum við Bárugötu 14 enda hafi grenndarkynning framkvæmdanna náð til þeirra. Við grenndarkynningu hafi kærendum verið kynnt að beiðni um breytingar á Bárugötu 14 fæli í sér að mænir hússins yrði hækkaður um 90 cm og að útveggir hússins yrðu hækkaðir um 20 cm. Þeir hafi mótmælt þeirri beiðni og komið á framfæri athugasemdum sínum er vörðuðu skuggavarp frá Bárugötu 14 eftir hækkun hússins. Kærendur hafi ákveðið að una ákvörðun skipulags- og samgönguráðs dags. 25. ágúst 2021 um að samþykkja beiðni um hækkun mænis og útveggja umrædds húss í samræmi við fyrirliggjandi kynningu og hafi staðið í þeirri trú að þá hefði verið samþykkt beiðni eigenda hússins um að hækka mæni þess um 90 cm og útveggi um 20 cm. Sú góða trú kærenda hafi byggt á grenndarkynntum gögnum frá byggingaryfirvöldum. Sérstaklega sé vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 20. ágúst 2021, sem lögð hafi verið fram á fundi skipulags- og samgönguráðs 25. s.m. Í umsögninni segi orðrétt um tillögu um hækkun Bárugötu 14: „Samkvæmt tillögunni er lagt upp með að hækka núverandi útveggi með steinsteypu um 20 cm (úr kóta 19,543 í 19,750) og mænishæð um 90 cm (úr kóta 21,574 í 22,500), þ.e. mynda portbyggt ris sem fellur vel að núverandi formi hússins.“ Samkvæmt grenndarkynntum teikningum hafi aðeins verið gert ráð fyrir hækkun útveggjar öðrum megin en ekki báðum megin.

Þegar hafist hafi verið handa við uppslátt mænis og útveggja í byrjun júní sl. hafi kærendum verið ljóst að framkvæmdir sem þá hafi verið hafnar væru í engu samræmi við þær breytingar sem kynntar hafi verið fyrir þeim og samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs 25. ágúst 2021. Ljóst sé af ljósmyndum að framkvæmdir séu hafnar við að hækka húsið mun meira en 20 cm hækkun útveggja og 90 cm hækkun mænis. Byggingarleyfi hefði verið gefið út 31. maí 2022 og verði ekki annað ráðið en að leyfið sé í andstöðu við áðurnefnda samþykkt skipulags- og samgönguráðs og gögn sem kynnt hefðu verið fyrir kærendum. Verði ekki annað ráðið en að framkvæmdir hafi verið leyfðar fyrir meiri hækkun hússins en sem nemur 20 cm fyrir gafla og 90 cm fyrir mæni húss.

Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um annað en fyrirhugaða hækkun gafla um 20 cm og mænis um 90 cm. Ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis til meiri hækkunar hússins sé því ólögmæt enda hafi m.a. ekki verið gætt að ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um réttindi kærenda og þeim ekki gefinn kostur á að tjá sig um framkvæmdir sem nú séu hafnar. Enda þótt talið yrði að í samþykkt skipulags- og samgönguráðs hefði falist heimild til að hækka gafla hússins um meira en 20 cm og mæni um meira en 90 cm sé sú samþykkt ólögmæt og byggingarleyfið jafnframt þar sem grenndarkynning hefði ekki farið fram fyrir kærendum um það efni. Meðferð málsins hafi verið ólögmæt og ekki fylgt ákvæðum laga. Framkvæmdin brjóti að ýmsu öðru leyti gegn skipulagsskilmálum, skipulagslögum og lögum um mannvirki nr. 160/2010. Vísað sé til eðli máls og meginreglna laga. Þá hafi kærendur ekki fengið öll gögn málsins afhent þrátt fyrir óskir þess efnis.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur sé liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála en byggingarleyfið hafi verið samþykkt 31. ágúst 2021. Þá hafi frestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 einnig verið liðinn. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað. Málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga.

Samkvæmt kynntum aðaluppdrætti hafi umbeðin hækkun mænis verið málsett 4,26 m frá efstu plötu. Við endurteknar framlengingar á grenndarkynningu og beiðni um frekari gögn hefði orðið mælivilla þannig að efri plata hússins hafi verið mæld 32 cm lægri en hún sé í raun. Við skoðun hafi komið í ljós að breyting skuggavarps vegna 32 cm hækkunar sé hverfandi. Það sé því ljóst að kynnt gögn sýni rétt skuggavarp þótt að innsláttarvilla hafi verið á gögnum og hafi afar lítil áhrif á kynnt skuggavarp.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar kæra í máli þessu hafi verið send úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 23. júní 2022. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi gefið út byggingarleyfi 31. maí 2022. Útgáfa þess sé stjórnvaldsákvörðun sem hefði verið kærð innan kærufrests. Þá hafi kærendum fyrst verið ljóst eftir að framkvæmdir hófust í kjölfar útgáfu byggingarleyfis að til stæði að hækka húsið meira en áður hefði verið kynnt þeim og síðar samþykkt í skipulags- og samgönguráði. Þá leggi kærendur áherslu á að við einfalda skoðun á framkvæmdum við Bárugötu 14 megi ráða að mænir hússins hafi verið hækkaður um a.m.k. 2,5 m. Reykjavíkur­borg hafi stöðvað til bráða­birgða framkvæmdir við Bárugötu 14 með bréfi, dags. 30. júní 2022. Í bréfinu komi skýrt fram að samþykkt byggingarfulltrúa sé haldin annmörkum og kunni að vera ógildanleg. Fram­kvæmdum hefði verði hætt í skamman tíma en síðar hafist að nýju. Samkvæmt upplýsingum borgaryfirvalda hefði framkvæmdabanni verið aflétt. Ekki liggi þó fyrir formleg ákvörðun um afléttingu banns og ekkert sé um þá ákvörðun að finna á vefsíðu borgaryfirvalda. Því sé mót­mælt að lítil „mælivilla“ hafi slæðst í teikningar af hækkun hússins. Þá sé það beinlínis rangt og ósannað að fyrrgreindar framkvæmdir hafi engin eða lítil áhrif á skuggavarp. Engin rann­sókn hafi farið fram á skuggavarpi.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu og hækkun mænis og útveggja hússins að Bárugötu 14 þannig að fáist portbyggð hæð með fullri lofthæð. Kærendur eru íbúar að Ránargötu 13 og lúta athugasemdir þeirra einkum að auknu skuggavarpi, en Bárugata 14 er mót suðri við hús þeirra.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er hins vegar að finna undantekningu frá framangreindir meginreglu um gerð deiliskipulags, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir fram­kvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skuli skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt fyrir þeim sem hagsmuna áttu að gæta með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Svo sem áður hefur komið fram var athugasemdafrestur framlengdur fimm sinnum og skuggavarps-myndir leiðréttar í þrígang. Kærendur komu að athugasemdum sínum við grenndar-kynninguna. Lutu þær m.a. að því að sótt væri um 90 cm hækkun á mæni hússins en miðað við teikningar væri hækkunin „augljóslega meiri“.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og samgönguráðs 25. ágúst 2021 og hún samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 20. s.m. Var umsókninni vísað til fullnaðar­afgreiðslu byggingarfulltrúa. Í umsögninni er ekki fallist á að aukið skuggavarp eða skert birtu-skilyrði á jafndægri hafi þau neikvæðu áhrif á lífsgæði íbúa á nærliggjandi lóð nr. 13 við Ránargötu sem athugasemdir þeirra lutu að.

Í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hönnunargögn sem fylgja skulu grenndarkynningu byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsóknar. Í greininni kemur fram að fylgja skuli afstöðumynd, hnitsett í mælikvarða 1:500 – 1:2000 eða í öðrum læsilegum mæli­kvarða sem sýni fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, þ.e. sýni mannvirki sem fyrir séu á svæðinu, hæðarlínur og annað í landslagi sem skipti máli fyrir útfærslu framkvæmdar. Gera þurfi grein fyrir landmótun, götumyndum og öðru sem nauðsynlegt sé til að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til framkvæmdarinnar. Hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin á þessu stigi. Með umræddri grenndarkynningu fylgdu uppdrættir, þ.m.t. götumynd, ásamt skuggavarpsmyndum. Fyrir liggur að skilað var inn leiðréttum gögnum um skuggavarp til Reykjavíkurborgar í þrígang á tímabilinu frá mars til maí og þau afhent kærendum. Landmælingadeild landupplýsingakerfis Reykjavíkurborgar, LUKR, á umhverfis- og skipulagssviði mun hafa annast uppmælingu á helstu hæðarkótum á báðum lóðum og þeim upplýsingum komið fyrir á sniðteikningu ásamt götumynd sem einnig var afhent kærendum.

Byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir til bráðabirgða með bréfi til byggingarleyfishafa, dags. 30. júní 2022. Fram kemur í bréfinu að mismunur væri á hæðarsetningu í grenndar­kynntum gögnum og væri munurinn nokkur á aðaluppdráttum og skuggavarps­uppdráttum er varðaði „mænishæð fyrirhugaðrar hækkunar núverandi húss“. Mat embættisins væri að samþykkt byggingar­fulltrúa væri haldin þeim annmörkum sem gætu valdið því að hún teldist ógildanleg, sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggingarfulltrúi féll frá stöðvun framkvæmda 9. ágúst 2022. Samkvæmt upplýsingum og gögnum frá byggingarfulltrúa höfðu embættinu borist upplýsingar frá arkitekt um að rétt mænishæð hússins væri 32 cm yfir þeirri hæð sem notuð var til að meta hið grenndarkynnta skuggavarp. Þá var einnig skilað inn uppdrætti þar sem bent var á innsláttarvillu í hæðarkóta og skuggavarp leiðrétt.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á grenndarkynntum skuggavarpsmyndum verður ekki talið að þeir séu slíkir að varði ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Sjá má af grenndarkynntum og samþykktum aðaluppdráttum hver endanleg hæð hússins verður. Mesti munur á skuggavarpi samkvæmt aðaluppdráttum annars vegar og skuggavarpsmyndum hins vegar verður u.þ.b. tvöfaldur 32 cm hæðarmunur, þ.e. 64 cm lengri skuggi af þakinu á láréttan flöt á jafndægri þegar sólarhæð í Reykjavík er 26°. Hæð skugga á lóðréttan flöt mun breytast jafnt og hæðar-breyting fyrirhugaðrar hækkunar. Auk þess liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bárugötu 14 eftir hækkun mun ekki skera sig úr nýtingarhlutfalli grannlóða og húsið verður ekki hærra en þau hús sem standa beggja vegna við götuna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið tilefni til þess að verða við kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. ágúst 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta og hækka mæni og útveggi hússins að Bárugötu 14.