Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2020 Garðarsbraut, Húsavík

Árið 2021, fimmtudaginn 21. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2020, kæra vegna synjunar byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 á endurskoðun og endurgreiðslu sorphirðugjalda sem lögð voru á vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Bjarkarkot ehf. þá ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 að synja um „endurgreiðslu og niðurfellingu sorphirðugjalda“ sem lögð voru á kæranda vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 23. ágúst 2020 og 30. nóvember s.á.

Málavextir: Hinn 13. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra Norðurþings bréf þar sem þess var óskað að álagning sorphirðugjalds vegna eignar hans Garðarsbrautar 12, fastanúmer 215-2556, 228-6800 og 228-6801, yrði endurskoðuð og gjaldið endurgreitt fyrir tímabilið 1. mars 2018 til og með 1. maí 2020. Mun kærandi starfrækja gistiþjónustu í húsnæðinu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings 11. júní 2020 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Sveitarstjóra er falið að svara erindunum og tjá íbúðareigendum að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda.“ Með tölvupósti 16. s.m. var kæranda tilkynnt niðurstaða málsins og var vísað til þess að samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum væru lögð gjöld á alla íbúðareigendur í Norðurþingi, þar með talin sorphirðugjöld, enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði. Væri hins vegar tilefni til þess að eign yrði skráð sem atvinnuhúsnæði breyttust álögð gjöld til samræmis við lög, reglugerðir og samþykktir þannig að sorphirðugjöld væru ekki innheimt og þar með á ábyrgð eiganda húsnæðisins að kaupa slíka þjónustu. Var jafnframt tekið fram að óskaði eigandi Garðarsbrautar 12 eftir því að fasteignin yrði skráð sem atvinnuhúsnæði og fengi þar með felld niður sorphirðugjöld á vegum sveitarfélagsins væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni og skyldi hún berast skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings á tiltekið netfang.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi eignast húsnæðið að Garðarsbraut 12 í upphafi árs 2018 og hafi ætlunin verið að gera upp íbúðirnar og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Hafi Norðurþing bent kæranda á að heppilegast væri að skrá húsnæðið sem íbúðarhúsnæði þar sem auðveldara væri að selja íbúðirnar í sitthvoru lagi og að hver íbúð hefði sitt fastanúmer. Fljótlega eftir að kærandi hafi komið að rekstri húsnæðisins hafi honum orðið það ljóst að sorpmálum væri mjög ábótavant. Sorpílátum hafi verið illa sinnt. Þau hafi verið losuð sjaldan og gjarnan innsigluð þar sem ekki hafi verið hægt að fylgjast með réttri flokkun. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi sóðaskap og óþægindi hefði verið óskað eftir því að sveitarfélagið fjarlægði sorpílátin þar sem tíðni losunar og stærð ílátanna hentaði ekki þeirri starfsemi sem væri í húsnæðinu. Sveitarfélagið hefði fjarlægt sorpílátin, eins og óskað hefði verið eftir, og hætt allri þjónustu við húsnæðið. Hefði kæranda ekki verið bent á að bærinn gæti komið til móts við þarfir eigenda í sorphirðumálum og hefði kærandi ekki haft vitneskju um slíkt. Hann hefði því óskað eftir því að Íslenska gámafélagið (ÍGF), sem sjái um sorphirðu fyrir sveitarfélagið, útvegaði stórt sorpílát og tæki að sér losun þess eftir pöntunum. ÍGF hafi verið greitt fyrir leigu á sorpíláti og losun á sorpi síðan í mars árið 2018. Í maí 2020 hafi kæranda þótt kostnaður við sorphirðu orðinn óvenju hár og við nánari skoðun hefði komið í ljós að sveitarfélagið hefði innheimt gjöld fyrir sorphirðuþjónustu allt frá því að óskað hefði verið eftir því við sveitarfélagið að þjónustu við Garðarsbraut 12 yrði hætt, sem það hefði og gert.

Hinn 13. maí 2020 hefði kærandi sent sveitarfélaginu formlegt bréf þar sem þess hefði verið óskað að sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmerin 215-2556, 228-6800 og 228-6801 yrðu endurgreidd yfir tiltekið tímabil og þau felld niður í kjölfarið þar sem kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustu við sorphirðu vegna húsnæðisins væri enginn. Hefði beiðnin verið tekin fyrir á fundi byggðarráðs Norðurþings hinn 11. júní 2020 og henni hafnað.

Í 1. gr. gjaldskrár Norðurþings um meðhöndlun og förgun sorps árið 2020 sé tilgreind upphæð árlegs þjónustugjalds vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í Norðurþingi til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að gjöld fyrir meðhöndlun og urðun úrgangs skuli innheimt með fasteignagjöldum. Í 8. gr. samþykktar nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi frá 3. júlí 2017 komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu. Þar komi einnig fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði fyrir veitta þjónustu. Jafnframt segi í ákvæðinu að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu.

Í máli þessu sé tekist á um hvort þjónustugjöldum við sorphirðu samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sé beitt eins og um fasteignaskatt sé að ræða. Sorphirðugjöld vegna Garðarsbrautar séu sannanlega hærri en sem nemi rekstrarkostnaði sveitarfélagsins við þjónustuna, auk þess sem gjöldin séu augljóslega ekki miðuð við stærð, fjölda, magn úrgangs eða tíðni sorphirðu vegna eignarinnar. Engu máli skipti hvort húsnæðið sé skráð sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði þar sem kostnaður við þjónustuna hafi ekki lent á sveitarfélaginu. Sorphirðugjöldin séu ekki ætluð til annars en að standa undir rekstrarkostnaði við sorphirðu.

Verði að gera ríka kröfu á ríki og sveitarfélög um að þau sinni upplýsingagjöf og leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sveitarfélaginu hefði verið í lófa lagið að benda á að sorphirðugjöld yrðu eftir sem áður innheimt vegna fasteignanna óháð því hvort kærandi þæði þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélaginu beri að tryggja jafnræði á milli eigenda fasteigna og að einstaka aðilar greiði ekki hærri gjöld en sanngjarnt sé hverju sinni. Því beri að líta til meðalhófs við ákvarðanir sínar, taka mið af reglum varðandi sorphirðu og innheimta ekki þjónustugjöld fyrir þjónustu sem hafi ekki verið veitt í tvö og hálft ár.

Sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að leggja gjöld á fyrirtækið vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna þess fyrir tímabilið 1. mars 2018 og út árið 2020 þar sem engin þjónusta hafi þá verið veitt og enginn kostnaður fallið á sveitarfélagið. Greitt hafi verið samviskusamlega fyrir losun á því sorpi sem fallið hafi til á tímabilinu. Ekki sé verið að reyna að komast hjá því að greiða fyrir losun og urðun á því sorpi sem til falli. Umrætt húsnæði sé skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Öllum tilmælum sveitarfélagsins í þá veru að fyrirtækið breyti skráningu húsnæðisins í atvinnuhúsnæði, til þess eins að bæta sveitarfélaginu upp tekjumissi í gegnum þjónustugjöld við sorphirðu, sé alfarið hafnað.

Málsrök Norðurþings: Sveitarfélagið bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi. Hafi sveitarfélagið á því tímabili sem hér um ræði byggt á samþykkt sinni nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu frá 3. júlí 2017, sem sæki lagastoð í framangreint ákvæði laga nr. 55/2003 og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Árlega hafi sveitarfélagið samþykkt gjaldskrá vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Gjaldskrá fyrir árið 2018 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 29. nóvember 2017, gjaldskrá fyrir árið 2019 hafi verið samþykkt 13. desember 2018 og gjaldskrá fyrir árið 2020 hinn 4. desember 2019. Í öllum tilvikum hafi gjaldskrárnar tekið gildi 1. janúar viðkomandi ár. Krafa kæranda nái til áranna 2018, 2019 og 2020. Kærandi hafi keypt þær þrjár íbúðir sem um ræði með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018. Fyrir vikið hafi álagningarseðill ársins 2018 verið sendur á fyrri eiganda en aðrir innheimtuseðlar á kæranda. Samkvæmt kaupsamningi skyldi gefa út afsal 15. febrúar 2018 og verði að leggja til grundvallar að eigi síðar en þá hafi kæranda verið kynntur álagningarseðill vegna fasteignagjalda. Afsali hafi ekki enn verið þinglýst. Kæranda hafi verið sendir álagningarseðlar vegna 2019 hinn 7. febrúar það ár og vegna 2020 hinn 10. febrúar það ár. Kærandi hafi hingað til greitt umrædda álagningu fasteignagjalda athugasemdalaust, eða allt þar til 14. maí 2020.

Kærandi geti ekki búið til nýjan kærufrest með því að krefjast endurgreiðslu á þegar greiddum sorphirðugjöldum. Kærufresturinn byrji að líða þegar gjöldin séu lögð á. Sé það í síðasta lagi þegar álagningarseðill vegna gjaldanna sé sendur til viðkomandi gjaldanda. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 hafi kærufrestur vegna sorphirðugjalda runnið út 10. mars 2018 vegna gjalda það ár, 9. mars 2019 vegna gjalda það ár og 11. mars 2020 vegna gjalda það ár. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi verið lögð fram 10. júlí 2020.

Í kæru komi kröfugerð ekki skýrt fram. Orðalagið í kæru verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé álagningin sem verið sé að kæra, en ekki synjun á endurgreiðslu. Þannig segi í upphafsorðum niðurstöðukafla kærunnar: „Norðurþingi er ekki stætt að leggja gjöld á Bjarkarkot ehf. vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna fyrirtækisins …“ Sé litið svo á að kröfugerðin lúti að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna endurgreiðslu, þá blasi við að yrði sú ákvörðun felld úr gildi þá breytti það engu um réttarástandið, álagningin stæði eftir sem áður. Kærandi hafi þannig ekki lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu sem væri í reynd ekkert annað en lögfræðileg álitsgerð.

Við ákvörðun gjaldskrár vegna þjónustugjalda sé sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að haga gjaldtökunni með almennum hætti og þurfi þau ekki að sýna fram á að gjaldið samsvari kostnaði gagnvart hverjum einstökum viðtakanda þjónustunnar. Sérstaklega komi fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Norðurþing hafi, eins og önnur sveitarfélög, valið þessa leið við gjaldtöku og ákvarðað samræmt gjald vegna meðhöndlunar úrgangs á allar íbúðir í sveitarfélaginu. Ekki sé hægt að útiloka að eigendur einstakra íbúða geti rökstutt að kostnaður við þjónustuna gagnvart þeim sé lægri en þau gjöld sem greidd séu. Nægilegt sé að sveitarfélagið sýni fram á almenna, gagnsæja og sanngjarna álagningu gjalda og að gjaldtöku sé ekki þannig hagað að hagnaður sé af starfseminni að jafnaði.

 

Eftirfarandi sé samantekt úr bókhaldi sveitarfélagsins vegna sorphirðu þess árin 2015 til 2019:

Ár                   Tekjur*                       Gjöld              Niðurstaða

2015                59.621.844                  84.431.826      24.809.982

2016                59.958.717                  70.178.809      10.220.092

2017                62.178.687                  56.092.237      -6.086.450

2018                57.217.959                  61.694.150        4.476.191

2019                58.187.505                  70.906.279      12.718.774

Nettó             297.164.712                343.303.301     46.138.589

*Sorphirðugjald og sorpeyðingargjald

 

Árið 2017 hafi tekjur orðið aðeins hærri en bein útgjöld vegna sorphirðu sveitarfélagsins. Þótt sveitarfélagið telji að það hefði getað rökstutt óbreytta gjaldtöku hafi verið ákveðið að lækka gjöldin árið 2018 vegna þessa, þannig að bein útgjöld við starfsemina væru meiri en allar tekjur vegna hennar. Áætlun 2020 geri ráð fyrir tapi af starfseminni.

Sveitarfélagið hafi beinlínis lögbundna heimild til að ákveða fast gjald á hverja fasteignar-einingu miðað við þjónustustig. Skráning eigna kæranda sem íbúða skilgreini þjónustustig og skyldur sveitarfélagsins í þessum efnum. Kæranda hafi verið veitt sama þjónusta og sama þjónustustig og öðrum íbúðareigendum. Ekki sé hægt að bera ábyrgð á því hvort aðrir en þeir sem dvelji í íbúð noti sorpílát sem tilheyri þeirri íbúð og hver séu viðbrögð íbúðareigenda við slíku. Tíðari tæmingar eða notkun annarra íláta séu á ábyrgð hvers fasteignareigenda. Íbúðareigandi virðist ekki hafa snúið sér til sveitarfélagsins árið 2018 heldur samið beint við þjónustuaðila sveitarfélagsins um aðra tilhögun. Ekki fáist séð að kostnaðurinn hafi tekið nokkrum breytingum við þessa aðgerð kæranda.

Áréttað sé að það standist ekki viðurkennd lagasjónarmið að ætla sveitarfélagi að reikna út kostnað við hverja staka íbúð fyrir sig, heldur sé nægilegt að deila allri gjaldtöku á eignir með sama þjónustustig með gagnsæjum og sanngjörnum hætti. Það sé gert og þrátt fyrir það nægi heildartekjur ekki til að standa straum af öllum kostnaði við að veita þjónustuna. Sé gjaldtakan þannig á allan hátt innan ramma þeirra reglna sem gildi um þjónustugjöld.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að sveitarfélagið hafi um árabil ekki þurft að þjónusta Garðarsbraut 12 vegna losunar sorps, en hafi engu að síður innheimt gjöld af kæranda fyrir þjónustuna. Ljóst sé að Norðurþing innheimti gjald sem eigi ekki rétt á sér og sé bent á að í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda segi í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár að stjórnvöldum beri að hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verði ljóst að ofgreitt hafi verið.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu sorphirðugjalda á kæranda vegna eigna hans að Garðarsbraut 12 fyrir árin 2018, 2019 og 2020 og synjun á kröfu hans um endurgreiðslu þeirra gjalda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Þó skal kæru ekki sinnt skv. 2. mgr. nefndrar 28. gr. ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðlum, dags. 7. febrúar 2018, 7. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020. Leitaði kærandi til sveitarfélagsins með ósk um endurgreiðslu 13. maí 2020 og 15. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra máls þessa með bréfi, dags. 10. s.m., sem póstlagt var þann dag. Meira en ár var þá liðið frá því að álagning vegna sorphirðu árið 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðlum og einnig frá því að hún var tilkynnt fyrri eiganda með sama hætti vegna sorphirðu 2018. Kærandi eignaðist fasteignir þær sem um ræðir með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018, og var afsal gefið út honum til handa 15. febrúar s.á., en þá fer almennt fram uppgjör gjalda milli aðila. Var einnig liðið meira en ár frá því tímamarki þegar kæran var móttekin. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kæru kæranda vegna álagningar þessara ára því ekki sinnt og þeim kröfum hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þessa atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við meðferð máls þessa hefur sveitarfélagið upplýst að það hafi fellt niður sorphirðugjöld vegna ársins 2020, en það hafi ekki fordæmisgildi gagnvart álagningu fyrri eða síðari ára. Hefur úrskurðarnefndin undir höndum álagningarseðla, dags. 2. október 2020, þar sem fram kemur að álagning sorphirðugjalds á kæranda vegna fasteigna hans hafi verið felld niður. Eftir niðurfellingu gjaldanna hefur álagning ársins 2020 ekki lengur réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um lögmæti gjaldtöku þess árs. Verður kröfum kæranda hvað það ár varðar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem áður greinir óskaði kærandi eftir endurskoðun álagningar sorphirðugjalda með bréfi, dags. 13. maí 2020, en því erindi var synjað af byggðarráði 11. júní s.á. Synjun um endurupptöku máls bindur á það enda að nýju og er því stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Kæra til nefndarinnar var póstlögð 10. júlí s.á og hún því nægilega snemma framkomin hvað varðar ákvörðun um synjun á endurgreiðslu sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019, sem ekki hafa verið felld niður, og verður sá hluti málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Norðurþingi voru allir þeir tímafrestir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett m.a. til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Við mat á því hvort endurupptaka eigi mál ber að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra, sem og þeirra sjónarmiða sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti. Eiga fyrrgreind sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri. Í tilkynningu til kæranda var þó tekið fram að um álagningu á alla íbúðareigendur væri að ræða en álögð gjöld myndu breytast yrði eign skráð sem atvinnuhúsnæði, en til þess þyrfti að koma fram beiðni íbúðareiganda. Af nefndum gögnum verður hins vegar hvorki ráðið að afstaða hafi verið tekin til þess hvort álagningin hefði t.d. byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, né að fram hafi farið mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að endurskoða álagninguna, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Í þessu sambandi skal tekið fram að undir meðferð kærumáls þessa leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá sveitarfélaginu um númer og birtingu gjaldskráa þeirra sem nefnd álagning byggðist á, en skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, s.s. sorphirðu. Fengust þau svör að ekki yrði séð að gjaldskrár þær sem um ræðir hefðu fengið númer en vísað til þess að þær hefðu verið birtar opinberlega á vef Norðurþings. Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að umræddar gjaldskrár hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Með hliðsjón af framangreindu var því fullt tilefni til þess fyrir sveitarfélagið að leggja sérstakt mat á og taka afstöðu til þess hvort vafi um lögmæti álagningar hinna umdeildu gjalda ætti að leiða til endurskoðunar álagningarinnar, þrátt fyrir þann tíma sem liðinn væri frá henni. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi synjun byggðarráðs á beiðni kæranda um endurskoðun og endurgreiðslu álagðra gjalda vegna áranna 2018 og 2019. Hins vegar verður öðrum kröfum kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni, eins og áður er komið fram.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 um að synja um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019 á kæranda vegna Garðarsbrautar 12, Húsavík.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.