Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2012 Eyrarbraut

Árið 2013, fimmtudaginn 14. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2012, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um að breyta stærð og mörkum lóðarinnar  Eyrarbrautar 10 á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2012, er barst nefndinni 15. s.m., kærir A, Eyrarbraut 10, Stokkseyri þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að breyta stærð og mörkum lóðarinnar Eyrarbrautar 10 á Stokkseyri. 

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá Sveitarfélaginu Árborg hinn 3. ágúst 2012.

Málsatvik:  Með bréfi, dags. 23. desember 2011, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar sýslumanninum á Selfossi um breytta stærð lóða í sveitarfélaginu til samræmis við gildandi lóðarblöð.  Í tilkynningunni kom m.a. fram að skráð stærð lóðar kæranda að Eyrarbraut 10 væri 900 m² en ný stærð væri 1.065,8 m².  Var tilkynningunni þinglýst hinn 11. febrúar 2012.  Kærandi kom á framfæri athugasemdum og óskaði frekari upplýsinga um greinda stækkun lóðarinnar með tölvubréfi til sveitarfélagsins hinn 18. maí s.á.  Mun kæranda ekki hafa borist svar við fyrirspurn sinni þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst hafi fengið lóð sinni úthlutað árið 1976 og hafi hún verið sögð 30×30 m.  Hafi engin kvöð verið á úthlutuninni eða nokkuð komið fram um að ekki ætti að fara eftir uppdrætti sem kæranda hafi þá verið sýndur.  Líti kærandi svo á að téður uppdráttur sé enn í gildi en ekkert annað hafi verið gert með lögformlegum hætti sem breyti honum.  Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir lóðina.  Sé gerð athugasemd við að hin umdeilda breyting hafi hvorki verið kynnt kæranda né haft samráð við hann vegna þessa.  Leiði óvissa um rétt lóðarmörk til þess að kærandi hafi ekki getað hafið framkvæmdir á lóðinni að norðanverðu og sé eign hans í reynd verðlaus þar sem ekki séu til staðar rétt útmæld lóðarmörk. 

Málsrök Árborgar:  Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Ekki hafi verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun um lóðarmörk Eyrarbrautar 10.  Kæranda hafi verið kynnt lóðarblað og gerð hafi verið tilraun til að setja út lóðarmörk.  Verði með vísan til framangreinds trauðla ráðið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreinings í máli þessu.  Þá verði ekki séð að neitt hafi verið tekið af upphaflegum lóðarréttindum kæranda samkvæmt lóðarleigusamningi frá 1977.

Niðurstaða:  Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Fyrir liggur í málinu tilkynning skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar um stækkun lóðarinnar að Eyrarbraut 10 og um breytta afmörkun hennar samkvæmt lóðarblaði.  Tilkynningin tekur til allmargra lóða og er hún árituð um þinglýsingu hinn 11. febrúar 2012.  Ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi samþykkt hina umdeildu breytingu á stærð og mörkum lóðar kæranda og var því ekki fullnægt skilyrðum 48. gr. skipulagslaga um breytt mörk lóðarinnar. 

Hin kærða ákvörðun um breytingu á stærð og afmörkun lóðarinnar felur í raun í sér breytingu á tvíhliða lóðarleigusamningi sveitarfélagsins við kæranda.  Bar nauðsyn til þess að gerð yrði breyting á þeim samningi áður en tilkynnt var um breytta stærð og mörk lóðarinnar, en þessa var ekki gætt við meðferð málsins.

Þá liggur ekki fyrir að byggingarfulltrúa hafi verið falið að afgreiða erindi um breytingar á lóðamörkum með sérstakri samþykkt um embættisafgreiðslur og brast hann því vald til þess að taka ákvörðun sem fól í sér breytingu á mörkum lóðar kæranda, enda verður ekki talið að einungis hafi verið um minni háttar leiðréttingu á skráningu að ræða.

Þrátt fyrir þá annmarka sem að framan er lýst var tilkynningu um hina kærðu ákvörðun þinglýst og getur hún þannig haft áhrif á þinglýst lóðarréttindi kæranda.  Verður, með tilliti til þessa, að fallast á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar, sbr. tilkynningu, dags. 23. desember 2011, um að breyta stærð og mörkum lóðarinnar Eyrarbrautar 10, á Stokkseyri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________           ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                 Þorsteinn Þorsteinsson