Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2002 Trönuhraun

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2002, kæra framkvæmdastjóra Billjardstofu Hafnarfjarðar á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. september 2002 um að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2002, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, framkvæmdastjóri Billjardstofu Hafnarfjarðar, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 17. september 2002. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 var tekið fyrir erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir undanþágu vegna aðgengi fatlaðra að Billjardstofu Hafnarfjarðar, Trönuhrauni 10, annari hæð.  Skipulags- og byggingarráð afgreiddi erindið með eftirfarandi hætti:  „Ákvæði byggingarreglugerðar eru lágmarksákvæði og er skipulags- og byggingarráði ekki heimilt að víkja frá þeim.  Að framansögðu getur skipulags- og byggingarráð ekki orðið við erindinu.  “

Undanfari umsóknar kæranda um undanþágu frá ákvæði byggingarreglugerðar um aðgengis fatlaðra að billjardstofunni var að hann óskaði eftir vínveitingaleyfi en var synjað vegna skorts á aðgengi fatlaðra að staðnum sem staðsettur er á annari hæð hússins. 

Kærandi vildi ekki una málalokum þessum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og áður segir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi bendir á að fatlaðir einstaklingar, sem ekki séu í hjólastól, hafi sótt staðinn en þeir einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar þurfi að vera í hljóastól eigi erfitt með að spila snóker vegna stærðar borðsins sem spilað sé við. 

Kærandi bendir og á þá staðreynd að hús það sem hér um ræðir sé komið til ára sinna og við byggingu þess hafi ekki verið gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra í hjólastólum og ekki sé fyrir hendi sá möguleiki að setja lyftu í húsnæðið. 

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin kallaði eftir afstöðu Hafnarfjarðarbæjar til kærunnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2002.  Byggingarfulltrúi upplýsti úrskurðarnefndina ítrekað um að til stæði að endurskoða fyrri afstöðu byggingaryfirvalda í málinu.  Það var þó ekki fyrr en hinn 9. september 2003 sem skipulags- og byggingarráð tók umsókn kæranda frá 27. ágúst 2002 fyrir að nýju og samþykkti að verða við henni með tilvísun í gr. 12.8 byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í síðastgreindri ákvörðun fólst að skipulags- og byggingarráð dró til baka hina kærðu ákvörðun og tók nýja í hennar stað þar sem fallist var á umsókn kæranda.

Í ljósi breyttra aðstæðna á kærandi ekki lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________       _____________________
   Þorsteinn Þorsteinsson               Ingibjörg Ingvadóttir