Ár 2003, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 61/2001, kæra eiganda Keiluhallarinnar, Flugvallarvegi við Öskjuhlíð, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2001 um sölu á viðbyggingarrétti við Keiluhöllina, Öskjuhlíð.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. september 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Magnússon hdl., f.h. H ehf., kt. 441193-3199, eiganda Keiluhallarinnar, Flugvallarvegi við Öskjuhlíð, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2001 að samþykkja umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings þar sem lagt var til að byggingarréttur við Keiluhöllina við Öskjuhlíð yrði seldur eiganda fasteignarinnar. Fer kærandi fram á að vikið verði frá kærufresti og málið tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Málavextir: Með bréfi til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 20. desember 2000, var þess farið á leit af hálfu kæranda að veitt yrði leyfi fyrir stækkun Keiluhallarinnar um 500 fermetra. Skipulags- og umferðarnefnd fór með skipulagsmál fram til þess að skipulagsnefnd og byggingarnefnd Reykjavíkur voru sameinaðar í eina nefnd hinn 1. október 2000. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. janúar 2001 en afgreiðslu þess var þá frestað. Mun hafa verið leitað álits borgarskipulags um þýðingu samnings milli borgarinnar og þáverandi eiganda Keiluhallarinnar frá 25. maí 1994 um greiðslu Reykjavíkurborgar fyrir eftirgjöf byggingarréttar ofan á umrætt hús og endurgreiðslu gatnagerðargjalda vegna þess byggingarréttar. Erindið var síðan til umfjöllunar á fundi nefndarinnar hinn 24. janúar 2001, þar sem fyrir lá umsögn Borgarskipulags um hvort fyrrgreindur samningur frá árinu 1994 gæti leitt til þess að greiða ætti fyrir umsóttan byggingarrétt. Var niðurstaða Borgarskipulags sú að svo væri ekki. Málið var síðan tekið fyrir í nefndinni hinn 21. febrúar 2001 og var samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við umsótta viðbyggingu. Borgarráð samþykkti þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 27. febrúar 2001 en ákvað jafnframt að fela skrifstofustjóra Borgarverkfræðings að gefa umsögn um málið með hliðsjón af fyrri ákvörðunum borgarráðs varðandi byggingarrétt við Keiluhöllina. Skipulagstillaga sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti fyrir sitt leyti og borgarráð staðfesti hinn 27. febrúar mun hafa fengið lögboðna meðferð og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda í kjölfar umfjöllunar Skipulagsstofnunar.
Umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings, sem borgarráð hafði ákveðið að leita eftir á fundi sínum hinn 27. febrúar 2001, var lögð fyrir borgarráð á fundi þess hinn 10. apríl 2001. Mun niðurstaða umsagnarinnar hafa verið sú, að með hliðsjón af sölu byggingarréttar eiganda Keiluhallarinnar til borgarinnar á árinu 1994 væri rétt, að krefjast greiðslu fyrir umsótta viðbyggingu við húsið samkvæmt erindinu frá 20. desember 2000. Samþykkti borgarráð umsögnina á þeim fundi. Kærandi kærði þá ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins hinn 17. júlí 2001. Ráðuneytið vísaði kærunni frá með úrskurði, dags. 6. nóvember 2001, með þeim rökum að álitaefnið ætti undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt 8. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í úrskurðinum kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt um umdeilda ákvörðun borgarráðs með bréfi, dags. 17. apríl 2001, og hafi kæran því borist ráðuneytinu við lok almenns kærufrests hinn 17. júlí s.á. Hafi því ekki verið unnt að framsenda erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er kæranda þar bent á að óska eftir því við úrskurðarnefndina að vikið verið frá kærufresti 3. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga en að öðrum kosti eigi kærandi þess kost að bera málið undir dómstóla.
Að fengnum þessum málalyktum skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni umdeildu afgreiðslu borgarráðs hafi verið gengið gegn hagsmunum hans með ólögmætum og óréttmætum hætti, þar sem lagaheimild skorti fyrir gjaldtöku fyrir veitingu byggingarréttar, auk þess sem ákvæði stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt og farið hafi verið á svig við góða stjórnsýsluhætti við meðferð málsins. Fyrirhuguð gjaldtaka, sem samkvæmt umsögn borgarverkfræðings verði kr. 2.437 fyrir hvern fermetra viðbyggingarinnar miðað við verðlag í mars 2001, auk greiðslu gatnagerðargjalda, sé augljóslega gjaldtaka eða skattur sem verði að eiga stoð í lögum. Slík gjaldtaka hljóti að þurfa að styðjast við málefnaleg sjónarmið en ekkert samhengi sé milli ákvörðunar um gjaldtöku og raunkostnaðar Reykjavíkurborgar við veitingu byggingarréttarins.
Telur kærandi að samningur fyrri eiganda Keiluhallarinnar og Reykjavíkurborgar frá árinu 1994, um eftirgjöf byggingarréttar ofan á húsið og greiðslu Reykjavíkurborgar af því tilefni, eigi enga þýðingu að hafa við úthlutun byggingarréttar til kæranda. Ella væru yfirvöld að beita ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvarðanatöku í málinu. Skírskotar kærandi til álits Borgarskipulags frá 21. janúar 2001 um þetta álitaefni. Jafnvel þótt byggingarréttur geti haft fjárgildi í samningum milli manna, leiði það ekki til þess að það yfirvald, sem að lögum hafi það hlutverk að úthluta þeim rétti, geti selt þann rétt sér til ávinnings. Fyrrgreindur samningur frá árinu 1994 hafi ekki haft í för með sér að réttur til viðbyggingar Keiluhallarinnar væri takmarkaður enda hafi þar verið um sölu á mjög afmörkuðum réttindum að ræða sem Reykjavíkurborg hafi metið til fjár.
Bendir kærandi á að hann hafi fengið leyfi fyrir viðbyggingu við umrædda fasteign á árinu 1997 án þess að til hafi komið krafa um söluandvirði réttarins af hálfu Reykjavíkurborgar. Því sé ljóst að ekki gæti samræmis í ákvarðanatökum borgarinnar að þessu leyti og hin umdeilda ákvörðun virðist tekin að geðþótta. Stjórnvöld hafi farið offari við málsmeðferðina en stjórnvöld verði að gæta meðalhófs við ákvarðanir sínar. Andmælaréttur kæranda hafi auk þess verið brotinn þar sem honum hafi ekki verið kynnt umsögn borgarverkfræðings frá 30. mars 2001, sem hafi verið undanfari hinnar kærðu ákvörðunar borgarráðs, en ákvörðunin varði verulega fjárhagslega hagsmuni kæranda.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.
Fyrir frávísunarkröfunni eru færð fram þau rök að gögn málsins beri með sér að málskot kæranda til félagsmálaráðuneytisins vegna samþykktar borgarráðs hafi fyrst legið fyrir rúmlega þremur mánuðum eftir hina kærðu samþykkt, eða hinn 16. júlí 2001. Úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp hinn 6. nóvember 2001 eða tæplega sjö mánuðum eftir ákvörðun borgarráðs. Málið hafi ekki verið borið undir úrskurðarnefndina fyrr en með bréfi lögmanns kæranda, dags. 27. desember 2001, eða meira en einum og hálfum mánuði eftir að úrskurður félagsmálaráðuneytisins lá fyrir. Ekkert hafi gerst í málinu fyrr en úrskurðarnefndin hafi kallað eftir umsögn Reykjavíkurborgar í málinu í maí 2003. Það sé skoðun Reykjavíkurborgar að með engu móti sé unnt að verða við þeirri beiðni kæranda að falla frá kærufresti og taka málið til úrskurðar. Kæruheimildir séu afar skýrar og komi fram í 8. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, en þar sé kveðið á um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um ákvörðun og skuli úrskurður kveðinn upp svo fljótt sem auðið er en eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að kæra berist og í undantekningartilvikum að liðnum þremur mánuðum. Því séu gerðar ríkar kröfur til málshraða á þessu sviði og að kærur berist án ástæðulauss dráttar. Sú kæra sem nú er óskað umsagnar um hafi borist úrskurðarnefndinni rúmlega sjö mánuðum eftir að ákvörðun borgarráðs lá fyrir og beri að vísa henni frá með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum.
Í 2. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að úrskurðarvald um ágreining samkvæmt lögunum eigi undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Þrátt fyrir það sé ákvörðun borgarráðs kærð til félagsmálaráðuneytisins en kærandi hafi notið lögmannsaðstoðar við gerð kærunnar. Sú ráðstöfun kæranda, að kjósa þá leið að að bera málið undir félagsmálaráðuneytið, geti ekki leitt til þess að kærufrestur verði annar og lengri í ljósi þeirrar skoðunar ráðuneytisins að málið heyri ekki undir það. Af þessum sökum og með hliðsjón af nauðsyn á skjótri úrlausn ágreiningsmála á sviði skipulags- og byggingarmála, sem búi að baki fyrrgreindum lagaákvæðum um kærufrest og tímamörkum fyrir úrskurði í þeim málum, beri einnig að vísa kæru þessari frá. Engu breyti þótt afsakanlegt yrði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti vegna málskotsins til ráðuneytisins. Ekkert geti afsakað það tómlæti kæranda að senda kæruna til úrskurðarnefndarinnar meira en sjö vikum eftir að honum varð kunn niðurstaða ráðuneytisins. Úrskurður félagsmálaráðuneytisins hafi legið fyrir hinn 6. nóvember 2001 og frá þeim tíma hafi kæranda verið um úrskurðinn kunnugt. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að málskot kæranda til úrskurðarnefndarinnar hefði átt sér stað innan mánaðar frá uppkvaðningu úrskurðar ráðuneytisins.
Þá verði að líta til þess að löggjafinn geri ríkar kröfur til þess að mál hljóti skjóta afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni eins og 8. gr. skipulags- og byggingarlaga beri með sér. Í máli þessu hafi verið óskað umsagnar Reykjavíkurborgar 17 mánuðum eftir að nefndinni hafi borist umrædd kæra og verði að telja að hér sé um slíkt tómlæti að ræða og svo skýr brot á settum sérlagaákvæðum um málshraða að ekki verði leyst úr kærunni nú og því beri að vísa henni frá af þeim sökum. Að sömu niðurstöðu leiði að slíkur dráttur sé orðinn á úrlausn máls þessa að stjórnsýsluúrræði það sem felst í afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar á kæru málsins og þau sjónarmið sem að baki því úrræði búi séu ekki lengur fyrir hendi. Það sé meginhlutverk sérstakra úrskurðarnefnda að veita borgurunum kost á skjótari réttarúrræði en að leita til almennra dómstóla. Ætla verði, miðað við þann tíma sem nú sé liðinn frá ákvörðun borgarráðs og með hliðsjón af framkomu kæranda, að hagsmunir hans, sem ætlunin sé að tryggja með málskotsúrræði til sérstakrar úrskurðarnefndar, séu eins og komið sé jafntryggðir eða betur með málskoti til dómstóla.
Frávísunarkrafan sé og studd þeim rökum að álitaefni máls þessa eigi ekki undir úrskurðarnefndina. Í málinu sé um það deilt hvort sala Reykjavíkurborgar á byggingarrétti við Keiluhöllina í Öskjuhlíð sé lögmæt og styðjist við málefnaleg sjónarmið. Úrskurðarvald nefndarinnar takmarkist við mál sem tengist ákvæðum laga nr. 73/1997. Það sé ekki á valdsviði nefndarinnar að taka afstöðu til hvort sveitarfélögum sé heimilt að selja byggingarrétt eða ekki. Sala á byggingarrétti, líkt og sala á öðrum fasteignatengdum réttindum, sé einkaréttarlegs eðlis. Fái sú skoðun stuðning í áliti umboðsmanns Alþingis í bréfi, dags. 27. nóvember 1997, þar sem staðfest hafi verið að sala Reykjavíkurborgar á geymsluhúsnæði hafi verið gerningur á sviði einkaréttar og jafnframt að ákvæði stjórnsýslulaga giltu ekki um einkaréttarlega samninga.
Með hliðsjón af framangreindum röksemdum og sjónarmiðum, skýrum ákvæðum skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 um kærufresti, fresti til úrlausnar mála fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og hagsmuna og málsatvika að öðru leyti beri að vísa máli þessu frá nefndinni.
Verði málið tekið til efnismeðferðar er vísað til þess að byggingarréttur á lóð, hvort heldur sem um sé að ræða viðbyggingar- eða nýbyggingarrétt, sé háður eignarrétti, sbr. t.d. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Um sé að ræða fasteignatengd réttindi, sem almennt verði ráðstafað með samningum og geti verið sérstakt veðandlag. Um verðmæti byggingaréttar gildi engar gjaldskrár eða verðskrár, heldur taki verð hans mið af markaðsaðstæðum. Með deiliskipulagi sé ákvarðaður byggingarréttur á einstökum lóðum. Með því að skilgreina nýtingu lands, heimila uppbyggingu þess og tiltekna nýtingu, aukist að jafnaði verðmæti þess. Við verðmat á landi og lóðum sé m.a. litið til atriða eins og staðsetningar, landnotkunar og byggingarréttar. Gildi einu hvort landið sé í einkaeigu eða eigu opinberra aðila. Með deiliskipulagningu landsins verði til verðmæti sem séu fólgin í nýtingarmöguleikum þess, sem eigendum landsins sé heimilt að ráðstafa á einkaréttarlegum grundvelli. Einkaaðili, eða eftir atvikum opinber aðili, geti ráðstafað þeim verðmætum með sölu byggingarréttar á lóð sem hann eigi sjálfur eða hafi fengið á leigu frá sveitarfélaginu, ef ráðstöfun lóðarinnar eða þeirra réttinda sem henni tengist, sé ekki sérstökum takmörkunum háð. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skuli sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Í 1. gr. sveitarstjórnarlaga komi fram að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Sveitarfélög hafi því sjálfsákvörðunarrétt um þau málefni sveitarfélagsins sem ekki sé sérstaklega mælt fyrir um í lögum. Í lögum sé ekki að finna ákvæði um skyldu sveitarfélaga til úthlutunar byggingarréttar til fyrirtækja og einstaklinga. Úthlutun byggingarlóða sé því ekki meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og megi vísa í þessu sambandi til úrskurða félagsmálaráðuneytisins, sem uppkveðnir hafi verið hinn 17. apríl 2001 vegna lóðaúthlutana í Mosfellsbæ, 9. október 2001 vegna lóðaúthlutana í Hafnarfirði og 28. janúar 2002 vegna lóðaúthlutana í Garðabæ. Í öllum úrskurðunum líti ráðuneytið svo á að lóðaúthlutanir sveitarfélaga teljist ekki til lögbundinna verkefna en í niðurstöðum ráðuneytisins sé m.a. bent á að í 6. mgr. 6. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hafi verið að finna upptalningu á helstu verkefnum sveitarfélaga og væri úthlutun byggingarlóða ekki þar á meðal. Með vísan til venju og eðlis máls telji ráðuneytið ekki vafa á því að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta byggingarlóðum, líkt og þeim sé heimilt að taka ákvarðanir um aðra fjárhagslega hagsmuni sína og vísi ráðuneytið í þessu sambandi sérstaklega til 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Ekki síst með hliðsjón af þessum úrskurðum félagsmálaráðuneytisins verði að telja að sala byggingarréttar geti ekki talist slík nauðsynjaþjónusta sveitarfélaganna að um hana eigi að gilda hliðstæð sjónarmið og um lögbundna þjónustu sveitarfélaga. Sveitarfélögum sé á hinn bóginn heimilt samkvæmt 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að taka að sér hvert það verkefni sem varði íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum. Á grundvelli 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga hafi það verið talið til lögmætra verkefna að bjóða fram byggingarrétt á lóðum til þess að efla og styrkja byggðina, mannlíf og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Sama hljóti að gilda um kaup og sölu fasteigna og fasteignatengdra réttinda. Í þessu sambandi megi benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 150/2000, en þar hafi reynt á það hvort Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að jafna fjárhæð eignarnámsbóta vegna tiltekins lands niður á leigutaka allra lóða á því landi í formi upptökugjalda. Hafi Hæstiréttur talið að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að leggja á sérstakt upptökugjald enda væri hvorki um að ræða skatt eða þjónustugjöld og umræddur lóðarhafi hafi gengið að úthlutunarskilmálum sem kváðu á um slíkt gjald. Í niðurstöðu Hæstaréttar sé sérstaklega bent á að við undirritun lóðarleigusamnings hafi komist á samningur einkaréttarlegs eðlis milli aðila en með vísan til þess og annarra sjónarmiða sem fram komi í dóminum, m.a. að málefnalegar ástæður geta legið til þess að innheimta slíkt gjald á sumum byggingarsvæðum en öðrum ekki, hafi Hæstiréttur talið að ekki hafi þurft að mæla fyrir um upptökugjald þetta í lögum. Með skírskotun til þessa dóms telji Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að selja sérstaklega byggingarétt án sérstakrar lagaheimildar enda sé um að ræða sölu á verðmætum líkt og upptökugjald Hafnarfjarðarbæjar sem hvorki teljist skattur né þjónustugjöld. Með sölu byggingarréttar sé ekki verið að skerða hagsmuni lóðarhafans, enda sé hin umdeilda greiðsla hans endurgjald fyrir tiltekin, framseljanleg verðmæti, sem byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Sveitarstjórn beri skylda til að rýra ekki verðgildi eigna sveitarfélagsins með aðgerðum sínum, heldur beri henni að standa vörð um auðlindir þess og gæta þess að þær séu nýttar á forsvaranlegan hátt. Byggingarland og skilgreindur byggingarréttur teljist til slíkra auðlinda. Það hljóti því að vera skylda sveitarstjórnar að varpa ekki frá sér þeim verðmætum, sem í byggingarrétti felast.
Með vísan til umsagnar borgarlögmanns til félagsmálaráðuneytisins vegna málsins, dags. 25. september 2001, málsatvika þessa máls og með hliðsjón af framangreindu telji Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að selja viðbyggingarrétt á lóð Keiluhallarinnar við Öskjuhlíð. Sæki sú heimild sér m.a. stoð í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, almennar skyldur sveitarfélaga um að hámarka þau verðmæti sem felist í auðlindum sveitarfélagsins og því að sala á fasteignatengdum réttindum séu gerningar á sviði einkaréttar.
Niðurstaða: Af hálfu kæranda var sent inn erindi, dags. 20. desember 2000, til skipulags- og umferðarnefndar er fól í sér beiðni um leyfi fyrir 500 fermetra viðbyggingu við Keiluhöllina við Öskjuhlíð. Gögn málsins bera með sér að þörf hafi verið á deiliskipulagsbreytingu svæðisins ef samþykkja ætti viðbygginguna. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti að auglýsa deiliskipulagsbreytingu sem gerði ráð fyrir viðbyggingu og fjölgun bílastæða. Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna á fundi hinn 27. febrúar 2001 og mun skipulagstillagan hafa öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 431/2001. Ekki verður séð að erindi kæranda hafi verið sem byggingarleyfisumsókn til meðferðar og afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa, byggingarnefnd eða borgarstjórn.
Hin kærða samþykkt borgarráðs hljóðar svo: „Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 30. f.m. um viðbyggingu við Keiluhöllina í Öskjuhlíð, þar sem lagt er til að byggingarréttur verði seldur auk greiðslu gatnagerðargjalds. Borgarráð samþykkir umsögnina með 6 samhljóða atkvæðum.” Samkvæmt þessari bókun fól samþykktin í sér afstöðu ráðsins til umsagnar borgarverkfræðings þar sem mælt var með að viðbyggingarréttur við Keiluhöllina við Öskjuhlíð yrði seldur á tilteknu verði. Samþykktin var ekki þáttur í meðferð fyrrgreindrar skipulagstillögu eða meðferð byggingarleyfisumsóknar, enda heyra slíkar umsóknir ekki undir borgarráð, sbr. 38. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Að þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða samþykkt feli ekki í sér lokaákvörðun á erindi kæranda frá 20. desember 2000 og sé því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða sé að öðru leyti ákvörðun á sviði skipulags- og byggingarmála sem borin verði undir úrskurðarnefndina. Er kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. Að þessari niðurstöðu fenginni þykja ekki efni til að taka afstöðu til annarra málsástæðna fyrir frávísun málsins eða efnisúrlausn þess.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir