Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2012 Réttindi byggingarstjóra

Árið 2012, föstudaginn 13. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 um að synja umsókn um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2012, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. s.m., kærir H húsasmíðameistari, Reykjavík, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að hafna umsókn hans um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og er farið fram á að lagt verði fyrir Mannvirkjastofnun að veita hið umbeðna starfsleyfi. 

Málavextir:  Með umsókn til Mannvirkjastofnunar, dags. 21. nóvember 2011, sótti kærandi um starfsleyfi sem byggingarstjóri framkvæmda sem falla undir 1.-3. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Með bréfi Mannvirkjastofnunar, dags. 28. s.m., var kæranda tilkynnt að honum væri veitt starfsleyfi sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð samkvæmt 1. mgr. 28. gr. greindra laga, með vísan til 6. tl. ákvæðis til bráðabirgða, og tók leyfið til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Hins vegar var tekið fram að nefnt bráðabirgðaákvæði 6. tl. tæki ekki til þeirra mannavirkja sem féllu undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna, sem tekur til framkvæmda m.a. við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir.  Var kæranda veittur frestur til að koma að athugasemdum og skila inn frekari gögnum, áður en ákvörðun um umsókn yrði tekin, sem hann og gerði með bréfi, dags. 19. desember s.á. 

Með bréfi, dags. 4. janúar 2012, synjaði Mannvirkjastofnun umsókn kæranda um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja, sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki, þar sem ekki væru uppfyllt þau menntunarskilyrði sem áskilin væru fyrir veitingu leyfisins skv. 4. mgr. 28. gr. sömu laga.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að starfi byggingarstjóra hafi á undanförnum árum í raun verið sinnt af aðalverktökum eða húsasmíðameisturum við mannvirkjagerð.  Hafi kærandi um áratuga skeið haft atvinnu af framkvæmdum sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem aðalverktaki eða húsasmíðameistari og m.a. sem skráður byggingarstjóri.  Sé hin kærða ákvörðun afar íþyngjandi fyrir kæranda og skerði verulega atvinnuréttindi hans. 

Málsrök Mannvirkjastofnunar:  Stofnunin kveðst styðja hina kærðu synjun þeim rökum að umsækjandi um starfsleyfi byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga þurfi að uppfylla þau skilyrði sem fram komi í 28. gr. laganna.  Samkvæmt 4. mgr. greinds ákvæðis geti einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með umræddum framkvæmdum.  Kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur 28. gr. téðra laga um menntun. 

Ákvæði 6. tl. ákvæðis til bráðabrigða sömu laga taki ekki til starfa byggingarstjóra við mannvirkjagerð sem falli undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Fái sú ályktun stuðning í athugasemdum í frumvarpi til fyrrgreindra laga við greindan 6. tl.  Þar komi fram að sanngjarnt sé að starfandi byggingarstjórar geti haldið áfram að vinna við sambærilega mannvirkjagerð og áður eftir gildistöku laganna, en að þau mannvirki sem talin séu upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafi almennt ekki verið háð byggingarleyfum.  Af þeim sökum hafi engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga og þurfi hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins því að vera uppfyllt í umræddu tilfelli. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort kærandi eigi rétt til að starfa sem byggingarstjóri við mannvirkjagerð sem fellur undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Tekur það ákvæði til vatnsaflsvirkjana, jarðvarmavirkjana og annarra orkuvera, olíuhreinsistöðva og vatnsstíflna sem falla undir 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. laga um mannvirki geta einungis verkfræðingar og tæknifræðingar, að vissum skilyrðum uppfylltum, öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með framkvæmdum við framangreind mannvirki.  Kærandi uppfyllir ekki þau menntunarskilyrði og kemur því einungis til álita hvort hann geti, með stoð í 6. tl. bráðabirgðaákvæðis mannvirkjalaga, átt rétt til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum. 

Í fyrrgreindum 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna eru þeir, sem sannanlega hafa tekið að sér byggingarstjórn mannvirkja í gildistíð eldri laga, taldir uppfylla skilyrði 2. og 3. mgr. 28. gr. laga um mannvirki. Er þeim því heimilt að annast byggingarstjórn þeirra mannvirkja sem falla undir 1. og 3. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Í frumvarpi því sem varð að umræddum lögum um mannvirki kemur m.a. fram í athugasemdum við ákvæði 6. tl. ákvæðisins til bráðabirgða:  „Þau mannvirki sem talin eru upp í 2. tölul. 4. mgr. 27. gr. hafa almennt ekki verið háð byggingarleyfum og því hafa engir starfað sem byggingarstjórar við þá mannvirkjagerð í gildistíð eldri laga. Þess vegna nær [6. tl.] ákvæðis til bráðabirgða ekki til þeirra mannvirkja heldur þurfa allir sem taka að sér byggingarstjórn þeirra að uppfylla hæfnisskilyrði 4. mgr. 28. gr. frumvarpsins.“

Samkvæmt þessu verður að telja að í tilvitnuðu ákvæði 6. tl. bráðabirgðaákvæðis laga um mannvirki felist ekki heimild til að veita kæranda leyfi til að hafa umsjón með slíkum framkvæmdum sem tilgreindar eru í 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laganna.  Með vísan til þess sem að framan er rakið var Mannvirkjastofnun óheimilt að lögum að veita kæranda starfsleyfi til að starfa sem byggingarstjóri við þau mannvirki sem 2. tl. 4. mgr. 27. gr. mannvirkjalaga tekur til og stendur því hin kærða ákvörðun óhögguð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2012 að synja umsókn kæranda um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra vegna mannvirkja sem falla undir 2. tl. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson