Árið 2023, fimmtudaginn 1. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 59/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Dranghrauni 3, matshluta 02.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir G.P. Kranar ehf., lóðarhafi Skútahrauns 2a, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Dranghrauni 3, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Málavextir: Kærandi er lóðarleiguhafi að lóðinni Skútahrauni 2a. Árið 2008 tók gildi deiliskipulag Dranghrauns – Skútahrauns og kemur fram í greinargerð deiliskipulagsins að kvöð sé um „að bílastæði fyrir kjallara (neðstu hæð) húsa við nr. 3 og 5 við Drangahraun (hámarksflatarmál 2000 m2) verði á lóð Skútahrauns 2a og að fjöldi þeirra verði skv. byggingarreglugerð“, auk þess sem á skipulagsuppdrætti kemur fram að kvöð sé um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Þá er í greinargerð skipulagsins að finna almenna skilmála þess efnis að athafnasvæði innan lóða skuli vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Hinn 23. nóvember 2022 sótti Virki ehf., lóðarhafi Drangahrauns 3, um leyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. apríl 2023 var umsóknin samþykkt og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.
Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kom kærandi áleiðis þeim ábendingum að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni. Óskaði úrskurðarnefndin af því tilefni eftir upplýsingum frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Í svarbréfi sveitarfélagsins, dags. 25. maí 2023, kom fram að ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út. Lagði kærandi þá fram myndir með tölvubréfi, dags. 31. maí 2023, sem sýndu framkvæmdir á hinu umrædda svæði.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að inntak kvaða samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi deiliskipulag svæðisins. Því séu hin samþykktu byggingaráform í andstöðu við 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Einnig sé vandséð hvernig lóðarhafi Drangahrauns 3 hyggist fullnægja því skilyrði deiliskipulagsins að ferming og afferming fari fram innan lóðar hans. Þá sé hámarksmænishæð í ósamræmi við skilmála deiliskipulagsins. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér stórfellda röskun á starfsemi kæranda og erfitt verði að vinda ofan af framkvæmdunum eftir að þær verði afstaðnar.
Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið vísar til þess að umdeild byggingaráform séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og því sé ekki fyrir hendi nein heimild til framkvæmda á lóðinni.
Athugasemdir Virkis ehf.: Af hálfu Virkis ehf. er bent á að samþykktir aðaluppdrættir séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og því séu engar forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Engin lagaheimild sé til þess að stöðva framkvæmdir. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda sé verulega íþyngjandi og beri að skýra allan vafa í hag þess aðila sem stöðvunin beinist gegn.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.
Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.
Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsókn fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði en ekki verður talið að þær fyrirhugaðar framkvæmdir séu óafturkræfar. Með hliðsjón af því og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.
Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja eða halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir. Einnig skal kæranda bent á að hægt er að fara fram á það við byggingarfulltrúa að hann beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki vegna meintra óleyfisframkvæmda, en ákvörðun þar að lútandi er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða vegna fyrirhugaðs iðnaðar- og geymsluhúsnæðis á lóð Drangahrauns 3, matshluta 02.