Ár 2000, miðvikudaginn 23. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59, Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 59/1999, kæra olíufélagsins Skeljungs hf. á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogsdal – Smáralind.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. desember 1999, kærir Árni Á. Árnason, hdl, fyrir hönd Skeljungs hf., samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi á lóðinni Hagasmára 1 í Kópavogi og óskar eftir því að úrskurðarnefndin felli úr gildi það ákvæði samþykktarinnar að gert sé ráð fyrir bensínsölu (sjálfsala) í suðvesturhorni lóðarinnar. Um kæruheimild vísast til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og gr. 10.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Málavextir: Árið 1994 var Skeljungi hf. úthlutað lóðinni nr. 9 við Hagasmára í samræmi við þágildandi deiliskipulag. Er lóðin á reit, sem afmarkast af Hagasmára, Smárahvammsvegi, Fífuhvammsvegi og Reykjanesbraut. Samkvæmt deiliskipulaginu var ekki gert ráð fyrir annarri bensínstöð á skipulagsreitnum. Nýr deiliskipulagsuppdráttur, samþykktur af bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar 24. mars 1998, sýndi heldur ekki neina aðra bensínstöð eða bensínsölu en bensínstöð Skeljungs hf. á nefndum reit.
Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 19. október 1999 var lögð fram að nýju tillaga, sem áður hafði verið auglýst að breyttu deiliskipulagi reitsins, þar sem m.a. var gert ráð fyrir sjálfvirkri bensínsölu (eldsneytisdælum) á lóðinni að Hagasmára 1. Athugasemdir höfðu borist frá kæranda varðandi þann þátt tillögunnar að gert væri ráð fyrir bensínsölu á lóðinni. Skipulagsnefnd hafnaði bensínsölu á lóðinni en samþykkti tillöguna að öðru leyti með vísun til bókana og var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Nokkur ágreiningur var um umrædda bensínsölu milli skipulagsnefndar og bæjarráðs, en tillagan, sem gerði ráð fyrir bensínsölunni, var að lokum samþykkt af bæjarstjórn hinn 23. nóvember 1999 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 10. desember 1999 sem nýtt deiliskipulag fyrir umræddan reit.
Þessi skipulagsbreyting er kærð af Árna Á. Árnasyni hdl., fh. Skeljungs, með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags 21. desember 1999, eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Með bréfi til bæjarskipulags Kópavogs, dags 4. október 1999, mótmælir Árni Á. Árnason hdl., fh. Skeljungs hf., fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi að því er lýtur að bensínsölu á lóðinni nr. 1 við Hagasmára, en breytingin var auglýst í Lögbirtingablaði nr. 94/1999. Í bréfinu segir m.a:
,,Ljóst er að vegna nálægðar við bensínstöð Skeljungs mun þessi skipulagsbreyting verða til þess að eldsneytissala Skeljungs við Hagasmára 1 (sic) á eftir að minnka verulega. Af því myndi leiða verulegt fjárhagslegt tjón fyrir félagið. Þetta fjárhagslega tjón myndi lýsa sér í minni framtíðartekjum, verð fasteignarinnar myndi lækka og nýtingarmöguleikar skerðast. Ljóst er að ef þetta yrði raunin ætti Skeljungur skaðabótakröfu á hendur Kópavogskaupstað á grundvelli 26. gr. 2. mgr. sbr. og 33. gr 1. mgr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997.”
Ennfremur segir í tilvitnuðu bréfi lögmanns Skeljungs hf.:
,,Skeljungi var upphaflega úthlutuð lóðin Hagasmári 1 (sic) á fundi bæjarráðs Kópavogs þann 16. júní 1994. Á þeim tíma var tekin ákvörðun um byggingu á lóðinni út frá þágildandi deiliskipulagi og var þá ekki gert ráð fyrir hinni nýju bensínstöð að Hagasmára 1 sem nú er fyrirhuguð. Skeljungur hefur nú tekið í notkun á lóðinni nýja bensínstöð og er hér um stærstu stöð félagsins að ræða.”
Í bréfi lögmanns Skeljungs hf. til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. desember 1999, eru höfð uppi sömu málsrök og í mótmælabréfi til bæjarskipulags Kópavogs frá 4. október 1999, en til viðbótar segir þar:
,,Að auki skal hér bent á að 1. gr. 3. mgr. skipulags- og byggingarlaga en telja verður að með samþykki deiliskipulagsins hafi það ákvæði verið brotið en þar segir að markmið laganna sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Telja verður að réttur Skeljungs hafi verið fyrir borð borinn með þessari ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs enda var hún tekin í andstöðu við vilja skipulags-nefndar.”
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að meðferð skipulagstillögunnar frá 7. desember 1999 hafi í einu og öllu verið lögformleg og í samræmi við aðalskipulag Kópavogs 1992-2012, sem staðfest var af umhverfisráðherra 29. apríl 1994.
Í greinargerð bæjarlögmanns Kópavogsbæjar til bæjarráðs frá 4. nóvember 1999, vegna athugasemda Árna Á. Árnasonar hdl. fh. Skeljungs í bréfi frá 4. október 1999 um téða breytingu á skipulagi, segir m.a:
,,Í 33. gr. núgildandi skipulagslaga nr. 73/1997, en ákvæðið er hliðstætt ákvæðum 29. gr. fyrri skipulagslaga, segir að valdi gildistaka því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður var heimilt, eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður og á þá sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði. Í greininni eru síðan nánari fyrirmæli um ákvörðun bóta. Sá sem heldur því fram að hann verði fyrir fjárhagstjóni vegna gildistöku skipulags hefur sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni.
Um það verður ekkert fullyrt á þessu stigi hvort breyting á deiliskipulagi á viðkomandi lóð hafi bótaskyldu í för með sér, en ætla verður sveitarstjórnum svigrúm til breytinga á deiliskipulagi, enda séu ákvarðanir þar að lútandi teknar á skipulagslegum og þjónustulegum forsendum. Eftir sem áður er sveitarstjórn ábyrg skv. 33. gr. skipulagslaga fyrir tjóni sem þriðji aðili verður sannanlega fyrir vegna skipulagsbreytinganna.”
Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um álitaefni máls þessa. Í umsögn stofnunarinnar segir m.a. „Hin kærða deiliskipulagsbreyting var til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. fyrir gildistöku breytingarinnar. Athugasemd kæranda og umfjöllun sveitarstjórnar um hana lá fyrir við afgreiðslu stofnunarinnar. Skipulagsstofnun gerði í bréfi sínu til Kópavogsbæjar, dags. 2. desember 1999, ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Skipulagsstofnun telur ekki hafa verið brotið gegn skipulags- og byggingarlögum við umfjöllun um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu.“
Niðurstaða: Fyrir liggur að í deiliskipulagi áðurnefnds reits, sem í gildi var þegar Skeljungi hf. var úthlutað þar lóð undir bensínstöð þann 16. júní 1994, var ekki sýnd á uppdrætti aðstaða til bensínsölu á öðrum stað á skipulagsreitnum. Virðist félagið hafi gert ráð fyrir að ekki yrði leyfð önnur bensínstöð eða aðstaða til bensínsölu á reitnum. Á umræddum skipulagsreit er landnotkun skilgreind svo að um sé að ræða verslunar- og þjónustusvæði. Rekstur bensínsölu samrýmist skilgreindri landnotkun svæðisins en ekki verður séð að landnotkun einstakra bygginga eða hluta svæðisins hafi verið þrengd eða kvaðabundin svo sem þó hefði verið heimilt ef það hefði vakað fyrir bæjaryfirvöldum að takmarka heimildir til starfsemi á svæðinu umfram það sem fólst í almennri afmörkun á landnotkun, sbr. 2. mgr. greinar 3.1.4 og 2. mgr. greinar 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Enda þótt sýnd hafi verið staðsetning bensínstöðvar á tilteknum stað á svæðinu á deiliskipulagsuppdrætti þeim, sem í gildi var er kæranda var úthlutað lóð til slíkrar starfsemi, voru engar skorður við því settar í skipulagsskilmálum eða með öðrum hætti að slík starfsemi kynni að verða leyfð síðar á öðrum stað á svæðinu. Verður ekki talið að með því einu að sýna fyrirhugaða staðsetningu bensínstöðvar á svæðinu hafi bæjaryfirvöld skuldbundið sig til þess að leyfa þar ekki frekari starfsemi af því tagi.
Hafi það vakað fyrir kæranda að tryggja sér einkarétt til bensínsölu á svæðinu gat hann, við úthlutun lóðar sinnar, leitað afstöðu bæjaryfirvalda til óska sinna um að njóta þeirrar samkeppnisverndar, sem hann virðist nú telja sig eiga rétt til. Hefði þá einnig þurft að huga að hugsanlegri staðsetningu bensínstöðva á nærliggjandi svæðum utan skipulagsreitsins. Hvorki verður hins vegar séð að kærandi hafi leitað afstöðu bæjaryfirvalda til slíkra samkeppnissjónarmiða né að Kópavogsbær hafi skuldbundið sig til þess að leyfa ekki rekstur bensínsöla annars staðar á svæðinu eða í nágrenni þess.
Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að réttur hans hafi verið fyrir borð borinn þar sem ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið tekin í andstöðu við vilja skipulagsnefndar. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er það á valdsviði sveitarstjórnar að taka ákvarðanir um skipulagsmál og verður ekki talið að bæjarstjórn hafi verið bundin af áliti skipulagsnefndar við ákvörðun um hina kærðu skipulagsbreytingu.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið gengið gegn lögvörðum rétti kæranda með hinni kærðu ákvörðun um að leyfa bensínsölu (sjálfsala) í suðvesturhorni lóðarinnar að Hagasmára 1 og er sú niðurstaða í samræmi við álit Skipulagsstofnunar í málinu. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að því er varðar aðstöðu til bensínsölu (sjálfsala) á umræddu svæði.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni, tafa við gagnaöflun og nú síðast vegna sumarleyfa.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, Skeljungs hf., um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. nóvember 1999 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogsdal – Smáralind að því er varðar fyrirhugaða bensínsölu (sjálfsala) á lóðinni.