Árið 2024, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 58/2024, beiðni um að úrskurðað verði hvort framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 séu háðar byggingarleyfi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, fór umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar fram á það við úrskurðarnefndina með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að skorið yrði úr um hvort tilteknar framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 væru háðar byggingarleyfi.
Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhömrum 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til lóðarhafa þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Lóðarhafi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en á meðan meðferð kærumálsins stóð yfir barst nefndinni beiðni frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um að skorið yrði úr um hvort umræddar framkvæmdir væru háðar byggingarleyfi. Með úrskurði í máli nr. 56/2024, uppkveðnum 31. maí 2024, vísaði úrskurðarnefndin kærumálinu frá á þeim grundvelli að stöðvun framkvæmda væri bráðabirgðaákvörðun sem ekki væri kæranleg til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Reykjavíkurborg vísar til þess að embætti byggingarfulltrúa hafi borist ábending um að verið væri að byggja skúr á lóðamörkum án fyrirliggjandi byggingarleyfis. Farið hafi verið á vettvang og myndir teknar sem sýni ýmis skýli ásamt svokallaðri pergólu yfir heitum potti. Vafi hafi leikið á því hvort framkvæmdir væru háðar byggingarleyfi og hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita til úrskurðarnefndarinnar til að fá úr því skorið.
Lóðarhafi Leiðhamra 54 bendir á að grindverk á lóðinni hafi þegar verið samþykkt, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 98/2022. Þær framkvæmdir sem hér um ræði feli m.a. í sér skýli fyrir hjól án hurðar. Einnig sé um að ræða ruslatunnuskýli sem á verði hurð. Í bakgarðinum sé pergóla sem nái yfir pottinn og að grindverki. Á bakvið skjólvegg við heita pottinn sé inngangur að sturtu, en ekki sé ætlunin að loka því rými. Vinstra megin við heita pottinn sé einnig lítið skot sem hugsað sé fyrir rólu. Þá sé skýli fyrir grill í bakgarðinum, það sé heldur ekki fyrirhugað að loka því. Enginn hluti framkvæmdanna muni ná upp fyrir grindverk lóðarinnar. Framkvæmdirnar séu óverulegar og minniháttar og undanþegnar byggingarheimild og -leyfi, sbr. gr. 2.3.4. eða d- og e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þær hvorki skerði hagsmuni nágranna, t.d. hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn, né hafi áhrif á götumynd, sbr. gr. 2.3.4. í byggingarreglugerð. Sé því ekki þörf á samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar.
Niðurstaða: Í máli þessu er tekin fyrir sú beiðni umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að úrskurðarnefndin skeri úr um hvort tilteknar framkvæmdir á lóðinni Leiðhömrum 54 séu háðar byggingarleyfi. Er beiðnin lögð fram með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sem kveður á um að ef vafi leikur á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Í 9. gr. laga nr. 160/2010 er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segir í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Þá segir að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum, sbr. flokkun mannvirkja skv. 1. mgr. 17. gr., skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.
Í samræmi við framangreint er í 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 talin upp þau minni háttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi, auk þess sem sú krafa er gerð að þær séu í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar sem við eiga hverju sinni. Þar er meðal annars upptalið pallagerð og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, sbr. d-lið, skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, sbr. e-lið, og smáhýsi sem er að hámarki 15 m2 og mesta hæð þaks 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs, sbr. f-lið. Í síðastnefndum lið segir jafnframt að sé smáhýsið minna en 3,0 m frá aðliggjandi lóð þurfi samþykki eigenda þeirrar lóðar. Slík smáhýsi séu ekki ætluð til gistingar eða búsetu. Orðið smáhýsi er síðan skilgreint í 81. tölul. gr. 1.2.1. sömu reglugerðar sem „[skýli] sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. og er ekki ætlað til íveru. Smáhýsi er ekki upphitað. Hámarksstærð þess er 15 m2.“ Auk þess er í gr. 2.3.6. að finna upptalningu á þeirri mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi en er háð tilkynningu til leyfisveitanda. Segir í 1. mgr. að framkvæmdin skuli ekki vera í ósamræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar eins og við eigi hverju sinni, en í d-lið er svo tilgreint að heitir og kaldir pottar eða laugar í görðum við íbúðarhús og frístundahús teljist til tilkynningarskyldrar mannvirkjagerðar.
Af fyrirliggjandi myndum og verklýsingu frá lóðarhafa Leiðhamra 54 verður ráðið að sú mannvirkjagerð sem hér um ræði feli í sér ýmsar framkvæmdir sem sambyggðar eru skjólvegg á mörkum lóðarinnar. Nánar tiltekið er um að ræða yfirbyggingu potts með pergólu auk nokkurra misstórra skýla fyrir reiðhjól, sorptunnur, sturtu og grill. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis frá árinu 1985, en ekki verður séð að ákvæði þess standi í vegi fyrir hinum umræddu framkvæmdum, sbr. gr. 5.3.2.11. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.
Ljóst er að pottur fellur undir d-lið 1. mgr. gr. 2.3.6. byggingarreglugerðar og er því tilkynningarskyld mannvirkjagerð. Hvað aðrar framkvæmdir varðar er ekki hægt að líta svo á að þær geti fallið undir fyrrgreinda d- eða e-liði 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar, enda hvorki um að ræða gerð palls eða annan frágang á eða við jarðvegsyfirborð né gerð skjólveggjar eða girðingar. Aftur á móti verður með hliðsjón af áðurgreindri skilgreiningu byggingarreglugerðar á orðinu smáhýsi að fella framkvæmdirnar undir f-lið sama ákvæðis, en ljóst þykir af framlögðum myndum að flatarmál hvers smáhýsis fer ekki yfir viðmið ákvæðisins um 15 m2. Eru þau því undanþegin byggingarheimild og -leyfi en háð samþykki eiganda aðliggjandi lóðar ef smáhýsin eru innan við 3,0 m frá lóðamörkum.
Að framangreindu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að umdeild mannvirkjagerð á lóðinni Leiðhömrum 54 sé ekki byggingarleyfisskyld skv. 9. gr. laga nr. 160/2010.
Úrskurðarorð:
Umdeild mannvirkjagerð á lóðinni Leiðhömrum 54 er ekki háð byggingarleyfi samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.