Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2024 Skor

Árið 2024, miðvikudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar 301 í fasteigninni að Kolagötu 1, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar s.á. að aflétta tak­mörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 21. júní 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Hinn 29. mars 2023 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 102/2022 þar sem fellt var úr gildi starfsleyfi til 12 ára til að reka veitingastað í flokki II að Geirsgötu 2–4, sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 5. ágúst 2022. Var niðurstaðan á því byggð að undirbúningi og rannsókn hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið hagað með þeim hætti að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hinn 31. mars s.á. var rekstraraðila veitingastaðarins Skor veitt tímabundið starfsleyfi til óbreytts reksturs veitingastaðarins til þriggja mánaða meðan brugðist væri við fyrrgreindum úrskurði nefnd­arinnar. Með úrskurði í máli nr. 42/2023 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um að hið tímabundna starfsleyfi yrði fellt úr gildi þar sem fallist var á að til þess að uppfylla rannsóknarskyldu hafi heilbrigðiseftirlitinu reynst nauðsynlegt að gefa út tímabundið starfs-leyfi. Unnið væri að framkvæmd hávaðamælinga og greiningu niðurstaðna úr þeim. Ljóst væri að þær mælingar yrðu grundvöllur ákvörðunar um það hvort starfsleyfi til veitingastaðarins yrði gefið út til lengri tíma eða ekki.

Í apríl 2023 voru gerðar hljóðmælingar í íbúð 201 að Kolagötu 1 með síritandi hljóðmæli og stóðu þær yfir í þrjár vikur. Voru niðurstöður mælinganna þær að aðstæður í íbúðinni væru metnar heilsuspillandi. Hinn 31. maí s.á. barst Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur úrbótaáætlun frá rekstraraðila sem sótti í framhaldinu um tímabundið starfsleyfi þar sem fyrir lá að ekki næðist að ljúka úrbótum áður en gildistími tímabundins starfsleyfis staðarins frá 31. mars 2023 rynni út í lok júní s.á.

Heilbrigðiseftirlitið varð við beiðni rekstraraðila og veitti veitingastaðnum tímabundið starfs­leyfi 27. júní s.á. til þriggja mánaða með takmörkun á hljóðstigi við 75 dB(A) í miðrými staðarins og takmarkaði opnunartíma til kl. 22:00 alla daga vikunnar. Var rekstraraðili upplýstur um að takmörkunum yrði ekki aflétt fyrr en hægt væri að staðfesta að úrbætur hefðu skilað tilætluðum árangri. Hinn 26. júlí s.á. lýsti rekstraraðili Skors því yfir að úrbótum væri lokið og óskaði eftir að heilbrigðiseftirlitið kæmi til hljóðmælinga til að staðfesta úrbæturnar. Heilbrigðiseftirlitið hafði samband við eigendur íbúða 201 og 205 að Kolagötu 1, en íbúð 201 var komin í útleigu og eigendur íbúðar 205 voru í sumarleyfi. Fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hinn 30. ágúst 2023 í eftirlit á veitingastaðinn Skor og kannaði úrbætur á hljóðvist. Komin voru teppi undir bjórkúta, úrbætur höfðu verið gerðar samkvæmt ráðleggingum hljóð­sérfræðings staðarins en frágangur í lofti óbreyttur að sjá. Settur var upp síritandi hljóðmælir í miðrými staðarins.

Heilbrigðiseftirlitið fór til hljóðmælinga og skynmats í íbúðum 201 og 205 að Kolagötu 1 hinn 15. september 2023. Sýndu niðurstöður þeirra mælinga að þær úrbætur sem rekstraraðili hafði ráðist í uppfylltu ekki kröfur um hljóðeinangrun milli hæða. Hljóðstig veitingastaðarins jókst með auknum gestafjölda og hljóðmælir staðsettur í meginrými staðarins sýndi að hljóðstig fór almennt vaxandi eftir því sem leið á kvöldið. Var ónæði og hávaði metinn heilsuspillandi í báðum íbúðum. Í íbúð 201 mátti greina söng gesta í karókíherbergi og í íbúð sem staðsett er yfir miðrými staðarins mátti heyra hróp, köll og skelli frá starfseminni.

Rekstraraðili sótti um starfsleyfi til 12 ára hinn 21. september 2023 og 26. s.m. tók heilbrigðis­eftirlitið ákvörðun um að framlengja gildistíma tímabundins starfsleyfis frá 30. júní til 15. nóvember s.á. með sömu skilyrðum og takmörkunum á opnunartíma, þ.e. til kl. 22:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 23:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Afgreiðslu fyrirliggjandi umsóknar um starfsleyfi til 12 ára var frestað þar sem hljóðmælingar höfðu ekki farið fram í íbúð 205. Hljóðmælingar og skynmat fóru fram í íbúðinni hinn 29. september 2023 og var unnin hljóðskýrsla út frá gögnum sem safnað var við heimsóknir í íbúðir 201 og 205. Helstu niður­stöður voru að enn væri ónæði í íbúðunum. Í íbúð 201 mátti heyra söng gesta í karókíherbergi og í báðum íbúðunum heyrðust hróp og köll frá gestum.

Hinn 14. nóvember 2023 sendi heilbrigðiseftirlitið tölvupóst á íbúðaeigendur og húsfélag Kolagötu 1 varðandi fyrirhugaða veitingu starfsleyfis fyrir Skor til 12 ára með þeim takmörkunum að opnunartími væri til kl. 22:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 23:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Ekki bárust athugasemdir frá íbúum Kolagötu 1 vegna hinnar fyrirhuguðu ákvörðunar. Frá apríl 2023 til 15. nóvember s.á. bárust 45 kvartanir frá íbúum Kolagötu 1 vegna starfsemi Skors. Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 15. nóvember s.á. var samþykkt að veita Skor starfsleyfi til 12 ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomustaði og sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir Skor að Geirsgötu 2. Til að takmarka ónæði voru gerðar kröfur um að jafngildishljóðstig tónlistar í miðrými skyldi ekki fara yfir 80 dB(A) og hljóðkerfi skyldi vera með búnað til að fyrirbyggja að það gæti gefið af sér hærra hljóðstig en leyfilegt væri. Notkun karókíherbergis staðarins var ekki lengur heimil.

Hinn 10. janúar 2024 upplýsti rekstraraðili Skors að ráðist hefði verið í umfangsmiklar hljóð­einangrandi aðgerðir á staðnum og sótti um að aflétt yrði takmörkunum og opnunartími yrði til samræmis við heimilaðan opnunartíma skipulagsyfirvalda á svæðinu, sem er til kl. 23:00 alla virka daga og til kl. 01:00 um helgar. Einnig var óskað eftir að heimiluð yrði notkun á karókí­herbergi sem sérherbergi fyrir píluspil. Heilbrigðiseftirlitið fór í eftirlit á Skor 14. febrúar s.á. til að taka út þær úrbætur sem lýst var í umsókn um breytingu á starfsleyfi staðarins. Staðfest var að úrbætur höfðu verið gerðar á hljóðeinangrun í miðrými staðarins, sérstaklega undir íbúðum með hljóðeinangrandi ísogsplötum. Einnig höfðu verið gerðar úrbætur á loftræsingu og hljóðkerfi í sérherbergi. Við eftirlitið kom fram að úrbótum væri ekki að fullu lokið.

Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 27. febrúar 2024 var samþykkt að aflétta takmörkunum að hluta og heimila opnunartíma Skors til kl. 23:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 01:00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og frídaga, sem er sami opnunartími og heimilaður er í skipulagi Reykjavíkurborgar fyrir veitingastaði á þessu svæði. Til að lágmarka ónæði í nærliggjandi íbúðabyggð voru eftirfarandi takmarkanir settar á starfsemi staðarins: 60 mínútna jafngildishljóðstig tónlistar í miðrými skuli ekki fara yfir 80 dB(A) og hljóðkerfi skuli vera með búnað til að fyrirbyggja að hægt sé að spila hærra hljóðstig en leyfilegt er. Opnunartími sérherbergis var takmarkaður til kl. 00:00 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og frídaga. Ástundun pílukasts á staðnum skyldi miðast við sömu tímamörk. Karókístarfsemi í sérherbergi staðarins var óheimil. Önnur starfsemi var heimiluð með takmörkunum á opnunartíma sérherbergis.

Málsrök kæranda: Kærandi leggur áherslu á að umræddur staður eigi að vera færður í flokk III í flokkun veitingastaða í stað flokks II sem hann er í núna. Starfsemin byggist upp á hávaða sem meðal annars feli í sér hópaleiki með mikilli áfengisdrykkju þar sem fólk er hvatt til að öskra, stappa og taka áfengisskot þegar það vinnur/tapar leikjum. Hávær danstónlist sé spiluð til að „peppa“ fólk upp í „stuði“ og drekka meira en hófi gegnir. Umrætt „lúxusherbergi“ sé svo notað undir hópa þar sem þeir geta lokað sig af með hurð, stjórnað sjálf tónlist og sjónvarpi og öskrað án þess að starfsfólk umrædds staðar sé að fylgjast með. Umrætt herbergi sé beint fyrir neðan svefnherbergi kæranda og var áður karókíherbergi.

Engin gögn eða útskýringar styðji þá framkvæmd að lengja opnunartíma staðarins til kl. 01:00 að nóttu um helgar og aðfaranætur frídaga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sé umræddur opnunartími til kl. 01:00  frá miðvikudögum til laugardaga og aðfaranætur frídaga. Þrátt fyrir ítrekaða pósta með kvörtunum og óskum um svör og upplýsingar hafi engin gögn borist sem stutt gætu framangreinda ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins

Óskað sé eftir að skoðuð verði tengsl heilbrigðiseftirlitsins við umræddan stað og hvers vegna, allt frá opnun staðarins, hafi ítrekað verið gefin út bráðabirgðaleyfi, þrátt fyrir urmul kvartana íbúa og ekkert aðhafst fyrr en seint og um síðir og þá vegna fyrrum úrskurðar nefndarinnar vorið 2023. Heilbrigðiseftirlitið sé ítrekað að brjóta á rétti kæranda um að þurfa ekki að lifa við heilsuspillandi aðstæður svo árum skiptir og þurfi kærandi reglulega að flýja eigið heimili til að vernda eigin heilsu. Frá staðnum berist stanslaus bassataktur sem ómi upp í íbúð kæranda ásamt öskrum, stappi og öðrum hljóðum frá gestum staðarins.

Ekki sé hægt að beina kvörtunum til staðarins eða eigenda þar sem þeir bendi ítrekað á leyfi sín frá heilbrigðiseftirlitinu, vitandi að ekkert sé aðhafst vegna hávaðakvartana. Staðurinn Skor sé ekki með starfsemi sem falli undir veitingastað í flokki II, sem séu umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemi er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu með háværri tónlist og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Stað sem þessum, þar sem stundaðir eru hópaleikir með stanslausum hávaða og háværri tónlist ásamt umfangsmikilli áfengisdrykkju, þurfi þá að finna einhvern nýjan stuðul. Starfsemina ætti að flokka undir skemmtistað í flokki III í það minnsta ef ekki sé búið að breyta löggjöf fyrir nýrri tegundir veitinga/skemmtistaða sem feli í sér leikjastarfsemi með mikilli áfengisdrykkju og hávaða sem valdi bæði líkamlega heilsuspillandi aðstæðum og eignatjóni þar sem íbúð kæranda sé ósöluhæf við núverandi aðstæður.

Nauðsynlegt sé að hafa sjónvarp heimilisins hátt stillt allt til lokunar staðarins til að yfirgnæfa hávaða og ekki sé hægt að fara að sofa fyrr en eftir lokunartíma staðarins. Aðstæður vegna hávaða frá staðnum séu að hafa mjög slæm heilsuspillandi áhrif þar sem stanslaust bank/taktur/bassi frá hljómkerfi staðarins geti varað allt frá kl. 16:00–17:00 til kl. 01:00 að nóttu. Einnig sé hávaði slíkur þegar verið sé að henda bjórkútum úr stáli eftir gólfum staðarins að húsið skjálfi.

Allt ofangreint sé þess eðlis að taugakerfi kæranda sé undir sífelldu áreiti vegna óeðlilegs hávaða sem enginn ætti að þurfa að lifa við. Að það taki næstum þrjú ár fyrir heilbrigðiseftirlitið að finna út að staðurinn valdi mengun og heilsuspillandi tjóni og gefi jafnframt ítrekað út leyfi og heimili breytingar til að þóknast rekstraraðilum en ekki íbúum hljóti að vera lögbrot. Það sé verið að aðlaga leyfi og flokkun staðarins að aðstæðum leyfishafa meðan íbúar í fjölbýli fái hvorki upplýsingar né andmælarétt.

Staðurinn Skor geti flutt sig á annan stað þar sem fólk býr ekki á hæðum fyrir ofan en kærandi geti ekki flutt eða selt húsnæði sitt meðan staðurinn er fyrir neðan án þess að selja á brunaútsölu vegna stórs galla á fasteigninni. Það hafi komið í ljós þegar íbúð á 2. hæð var í söluferli og hætt var við kaupsamning vegna hávaða frá Skor. Einnig hafi starfsemin valdið því að þær íbúðir sem séu á 2. og 3. hæð hússins hafa verið settar í Airbnb útleigu sem skapi enn meiri vandamál fyrir alla íbúa hússins þar sem „hótelgestir“ sem gista aðeins örfáar nætur séu ekki að kvarta yfir hávaða. Ekki hafi verið farið að lögum í öllu því ferli er varði veitingastaðinn allt frá fyrstu opnun. Annar staður með samskonar starfsemi sé á Snorrabraut í stakstæðu húsnæði með enga íbúa fyrir ofan sig og sé hann opinn til kl. 23:00 á kvöldin og um helgar. Ætti það að vera samanburðarhæft og gefa tilefni til að þessi starfsemi eigi ekki heima með íbúum á efri hæðum sama hvaða flokki veitingastaða hann tilheyri.

Varðandi kærufrest þá hafi borist póstur frá heilbrigðiseftirlitinu í nóvember 2023 þar sem fram komi að gefið hafi verið út leyfi með opnun til kl. 22:00 virka daga og til kl. 23:00 um helgar og aðfaranætur frídaga. Þar hafi einnig komið fram að karókíherbergi væri óleyfilegt. Aðrar ákvarðanir eftir það hafi ekki fengist staðfestar nema með einum stuttaralegum pósti í mars 2024 með svarinu „já“ þegar kærandi spurði hvort búið væri að lengja opnunartíma. Eina ástæðan sem var gefin var að „búið væri að fara í miklar framkvæmdir“ á staðnum. Engar upplýsingar hafi borist um hvers konar framkvæmdir eða hvað það þýddi. Eftir þetta og allan tímann frá langtímaleyfi í nóvember 2023 hafi kærandi þurft að senda kvartanir og beðið ítrekað um svör við spurningum og gögn er varði ákvarðanir á sífelldum breytingum en ekki fengið nein svör. Upplýsingar varðandi nýjustu breytingar um lengingu opnunar til kl. 01:00 alla miðvikudaga til laugardaga hafi verið aflað af netsíðu Skors. Ekkert hafi borist frá heilbrigðiseftirlitinu þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og kvartanir. Þá hafi heilbrigðiseftirlitið aldrei upplýst íbúa um nokkrar af þessum breytingum að fyrra bragði.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Áréttað er að tekin hafi verið ákvörðun um rýmkun opnunartíma veitingastaðarins Skors 27. febrúar 2024 og kærandi upplýstur um ákvörðunina 1. mars s.á. Sé því kærufrestur liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Ítrekað sé að meginhlutverk heilbrigðiseftirlitsins sé að gefa út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum og lögum nr. 93/1995 um matvæli með síðari breytingum, ásamt því að hafa eftirlit með þeirri löggjöf.

Flokkun veitingastaða í flokka II og III komi fram á rekstrarleyfum veitingastaða sem gefin séu út skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum. Sé það hlutverk Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að gefa út rekstrarleyfi eftir að hafa leitað umsagna hlutaðeigandi sveitarstjórnar, slökkviliðs, heilbrigðisnefndar, byggingarfulltrúa, vinnueftirlits og lögreglu. Hafi úrskurðarnefndin þegar staðfest að flokkun veitingastaðarins samrýmist deiliskipulagi svæðisins og búsetu í húsinu.

Hafnað sé fullyrðingum um að kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um ákvarðanir heilbrigðiseftirlitsins varðandi Skor frá því í nóvember 2023. Af gögnum málsins megi sjá að stofnunin hafi upplýst kæranda um að rekstraraðili Skors hafi sótt um leyfi til notkunar á sérherberginu sem áður hafi verið karókíherbergi. Eins hafi kærandi fengið upplýsingar hinn 1. mars s.á. um að opnunartími staðarins hafi verið rýmkaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað verið í sambandi við deiluaðila síðan málið hófst í janúar 2022. Hafi stofnunin oftar en einu sinni fundað með íbúum, nú síðast 9. apríl 2024. Samskipti hafi verið virk, bæði í gegnum kvartanir sem og sjálfstæðar rannsóknir heilbrigðiseftirlitsins á málinu.

Í framhaldi af þeim breytingum sem rekstraraðili Skor hafi sótt um 10. janúar 2024 hafi heilbrigðiseftirlitið farið í eftirlit á staðinn hinn 14. febrúar s.á. til að taka út téðar úrbætur. Við eftirlitið hafi úrbætur verið staðfestar og þó að þeim væri ekki að fullu lokið hafi heilbrigðiseftirlitið metið svo að þær væru að draga verulega úr ónæðinu. Breytingar á starfsemi í sérherbergi, úrbætur á hljóðvist, uppsetning hljóðgildra, minni hátalarar og hljóðkerfi væru til þess fallnar að hindra að hljóð bærist úr sérherberginu.

Niðurstöður úttektarinnar ásamt skoðun fyrirliggjandi gagna hafi legið til grundvallar því að á afgreiðslufundi 27. febrúar 2024 hafi verið samþykkt að aflétta takmörkunum að hluta og heimila þar með opnunartíma Skor til kl. 23:00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 01:00 aðfaranætur laugardags, sunnudags og frídaga. Hafi sjónarmið meðalhófs, ítrekaðra kvartana og hljóðmælinga vegið þungt í ákvörðunum um takmarkanir á starfsemi staðarins.

Bent sé á að heilbrigðiseftirlitið hafi ítrekað farið í íbúð kæranda til hljóðmælinga en skynmat í íbúðinni ekki gefið ástæðu til að framkvæma hljóðmælingar. Við skynmat í íbúð 301 hafi heilbrigðisfulltrúar ekki getað greint hávaða og ónæði frá Skor. Eins og fram komi í hljóðmælingaskýrslu hafi verið farið í heimsókn 29. september 2023 í íbúð kæranda til skynmats og þá hafi ekki verið hægt að greina hljóð sem rekja mætti til staðarins. Á sama tíma hafi verið í gangi hljóðmæling og skynmat í íbúð 205 og hafi þar heyrst greinileg fagnaðarlæti og köll frá veitingastaðnum meðan ómur frá tónlist væri lítill.

Gögn sem fylgi kærunni og skjáskot af heimasíðu Skor sýni opnunartíma staðarins skráðan til kl. 01:00 miðvikudaga til sunnudaga. Hafi kærandi einnig sent þessar upplýsingar á heilbrigðiseftirlitið og taldi að stofnunun hefði breytt opnunartíma staðarins. Heilbrigðiseftirlitið hafi staðfest upplýsingar af skjáskotunum með eigin rannsóknum og upplýst kæranda með tölvupósti dags. 29. maí 2024 að engar breytingar hefðu verið gerðar á starfsleyfi Skors né heimilaður annar opnunartími frá því að núgildandi starfsleyfi var gefið út hinn 27. febrúar s.á. Við skoðum heilbrigðiseftirlitsins á heimasíðu Skors 29. september s.á. hafði opnunartíma verið breytt og upplýsingar um opnunartíma til samræmis við gildandi opnunartíma staðarins. Engar ábendingar hafi borist um að Skor hafi farið út fyrir opnunartímann hvorki frá lögreglu né íbúum að Kolagötu 1.

Hafnað sé ásökunum um að stofnunin dragi taum rekstraaðila. Heilbrigðiseftirlitið einsetji sér að vinna mál ávallt af fagmennsku með vandaða og góða stjórnsýsluhætti að leiðarljósi. Málið hafi verið í virkri rannsókn allan tímann og sé enn, bæði hvað varði hljóðvist og lyktarmengun.

Málsrök leyfishafa: Bent er á að umdeilt leyfi hafi verið gefið út 27. febrúar 2024 og kærandi því komin langt yfir lögbundin kærufrest. Rými það sem Skor sé staðsett í hafi aldrei verið neitt annað en bar/veitingastaður og sé húsið og svæðið skilgreint sem svæði sem heimili slíka starfsemi.

Vísað sé til í kæru að staðurinn hafi leyfi til kl. 01:00 frá miðvikudegi til laugardags. Það sé ekki rétt þar sem leyfi fyrir opnunartíma sé til kl. 01:00 föstudaga, laugardaga og aðfaranætur frídaga. Skjáskotið sem fylgi kæru sé innsláttarvilla frá því nýlega þegar opnunartíma var breytt yfir daginn þegar byrjað var að opna síðdegis mánudaga og þriðjudaga, slysaðist sami lokunartími á miðvikudaga og fimmtudaga á einhverjum stað á vefsíðu. Annars staðar hafi þetta alltaf verið sett rétt fram og staðurinn rekinn samkvæmt leyfðum opnunartíma.

Sérherbergi sem kærandi lýsi sem „gamla karaoke herbergið“ sé fullhljóðeinangrað herbergi með enga tengingu við útveggi. Inni í því sé píluspjald, Sonos hátalari stilltur á 50% og sjónvarp sem nýtir aðeins innbyggða hátalara sem gestir nota stöku sinnum til að horfa á íþróttaviðburði eða sambærilegt. Herbergið sé ekki notað til að öskra eins og kærandi lýsi. Vert sé að benda á að ótal mælingar hafi verið gerðar af hljóðverkfræðingum og aldrei mælst hávaði yfir leyfilegum mörkum, jafnvel þegar herbergið var nýtt sem karókí herbergi. Hafnað sé lýsingum kæranda og bent á að „hljóðlimiter“ sé á staðnum sem komi í veg fyrir að tónlist geti spilast hærra en 75dB. Loftin þoli 85 til 95dB. Þá búi kærandi á þriðju hæð, þar sem enginn hátalari úr sal sé í nálægð við loft eða útvegg sem deilt sé með kæranda. Varðandi kvartanir vegna „kútahljóða“ sé bent á að allir kútar séu staðsettir hinum megin í húsinu við kæranda og að mottur séu undir kútum sem dempi hljóð. Gólf sé slitið frá útveggjum ásamt því að hljóðdúkur sé undir gólfefnum sem komi í veg fyrir að högghljóð berist í útveggi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekaðar eru fyrri kröfur um að staðurinn Skor verði flokkaður sem veitingastaður í flokki III og að fallið verði frá lengingu opnunartíma. Leyfi til lengri opnunartíma hafi verið veitt án samráðs eða samtals við íbúa þrátt fyrir kvartanir og eins og sjá megi á gögnum virðist vera nóg að leyfishafi hefji framkvæmdir eða tali um þær, en þurfi ekki að ljúka þeim til að fá útgefin ný leyfi. Voru því úrbætur ekki kláraðar áður en lenging á opnunartíma var gefin út til að leita fullvissu um að úrbætur haldi. Eins og sjá megi á gögnum virðist sem staðurinn hafi fengið umtalsverðar tilfæringar í gegnum árin frá opnun í byrjun árs 2022. Samkvæmt gögnum virðist sem staðurinn hafi verið í rekstri allt frá janúar 2022 án rekstrar- og starfsleyfis fram til loka mars sama ár.

Liðið sé langt á þriðja ár í sífelldri baráttu vegna staðarins og stanslauss ónæðis af hálfu hans. Að búa við slíkt til lengri tíma sé óviðunandi og erfitt sé að sjá hvað valdi því að svo erfitt sé að taka ákvarðanir um að þessi staður eigi ekki heima á neðstu hæð fjölbýlishúss þar sem íbúar halda heimili og búast við eðlilegum heimilisfrið í íbúðum sínum þrátt fyrir að búa í miðbæ Reykjavíkur. Ónæðið komi nefnilega ekki að utan heldur innanhúss þar sem hljóð berist frá atvinnurekstri sem ætti að vera flokkaður sem skemmtistaður en ekki krá/veitingasala. Athuga þurfi vel og vandlega hverskonar starfsemi sé á staðnum og hvar hann sé staddur með tilliti til íbúafjölda fyrir ofan og í kring. Lögð sé rík áhersla á að rekstraraðili virði ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti hvað ónæði varði og því skuli rekstraraðili gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir ónæði í samræmi við ofangreindar reglugerðir.

Varðandi heimsóknir sem heilbrigðiseftirlitið segist hafa farið í inn á heimili kæranda og greini frá að ekki hafi verið hægt að greina hávaða frá staðnum, þá muni kærandi eftir einni heimsókn. Hafi það verið á virkum degi og heimsókn staðið yfir í 15 mínútur á milli kl. 21:00 og 22:00. Hafi kærandi sent heilbrigðiseftirlitinu tugi myndbanda þar sem heyra megi hávaðann berast upp í íbúðina. Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir og ábendingar um að hávaðinn sé mestur frá fimmtudegi til sunnudags og að tónlist sé hækkuð upp þá daga hafi verið tekin ákvörðum um að lengja opnunartíma staðarins aftur. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi kærandi ekki séð nein gögn um að farið hafi verið í eftirlit á þeim tíma til að kanna hávaða frá starfseminni.

Bent sé á að rekstraraðilar hafi ekki ákveðið sjálfir að hætta með rekstur karókíherbergis. Hinn 11. janúar 2024 hafi kærandi sent tölvupóst á heilbrigðiseftirlitið vegna hávaða, öskra og tónlistar úr gamla karókíherberginu sem hafði verið lokað af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og beðið um upplýsingar um hvort komið sé leyfi fyrir notkun á herberginu. Hinn 13. febrúar s.á. hafi komið svar um að kvartanir væru mótteknar og að Skor hafi sótt um leyfi fyrir herbergi til pílukasts. Hvergi komi fram í póstinum hvort leyfið hafi verið útgefið eða hvort svo verði. Á sama tíma hafi umrætt herbergi verið í fullri notkun eins og fram komi í tölvupósti til heilbrigðiseftirlitsins 14. febrúar s.á. Hinn 1. mars s.á. komi svar um að leyfi fyrir einkapíluherbergi hafi verið veitt með takmörkunum á opnunartíma til miðnættis um helgar og gerðar hafi verið úrbætur.

Þarna hafi fyrst borist „loðið“ svar um að gefið hafi verið út leyfi með lengri opnunartíma þar sem opnunartími áður hafi einungis verið til kl. 23:00 um helgar. Þann sama dag berist annað svar við fyrirspurn um hvort heilbrigðiseftirlitið hafi veitt leyfi fyrir lengri opnunartími. Þar hafi komið fram að svo sé, því farið hafi verið í úrbætur á hljóðvist staðarins. Þann sama dag óski kærandi eftir gögnum sem sýni fram á úrbætur og ástæðu lengri opnunar. Svör hafi ekki borist fyrr en 18. mars 2024 eftir kvartanir um hávaða. Hinn 29. maí s.á. hafi sér fyrst borist einhver gögn er varði úrbætur þrátt fyrir kvartanir og ítrekaða pósta frá 19. mars s.á. um að fá send gögn og útskýringar varðandi breytingar á leyfi.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi veitingastaðarins Skor, Geirsgötu 2–4. Þá er þess krafist að umræddur veitingastaður verði færður í flokk III í flokkun veitingastaða og að skoðuð verði tengsl heilbrigðiseftirlitsins við rekstraraðila.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því eingöngu tekin til meðferðar sú ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt umþrættu starfsleyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar skv. 2. tl.

Hinn 13. febrúar 2024 fékk kærandi upplýsingar frá heilbrigðiseftirlitinu um að Skor hefði sótt um leyfi til notkunar á karókíherbergi sem notað yrði sem sérherbergi og 1. mars s.á. fékk hann jafnframt upplýsingar um að opnunartími staðarins hefði verið rýmkaður. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 22. maí 2024 og var þá meira en mánuður liðinn frá framangreindum tilkynningum. Eftir móttöku tilkynninganna fór kærandi fram á frekari upplýsingar og gögn um efni umræddrar breytingar á starfsleyfinu og um þær úrbætur sem unnið væri að á staðnum, sem ekki var brugðist við fyrr en með tölvupósti, dags. 29. maí 2024. Verður því að telja það afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun ber vitni og verður það því tekið til efnismeðferðar í samræmi við 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu sýndu niðurstöður hljóðmælinga frá apríl 2023, sem gerðar voru í íbúð 201 í húsinu að Geirsgötu 2–4, að aðstæður í íbúðinni væru metnar heilsuspillandi vegna hávaða. Þrátt fyrir þær úrbætur sem rekstraraðili hafði gert sýndu niðurstöður hljóð­mælinga í íbúðum 201 og 205, auk skynmats í íbúðum og stigagöngum, sem fram fóru 15. og 29. september 2023 að þær uppfylltu ekki kröfur um hljóðeinangrun milli hæða. Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins um eftirlitsferð 14. febrúar 2024, til að taka út þær úrbætur sem lýst var í umsókn um breytingu á starfsleyfi staðarins, kemur fram að úrbætur hefðu verið gerðar á hljóðeinangrun í miðrými staðarins og undir íbúðum með hljóðeinangrandi ísogsplötum. Einnig höfðu verið gerðar úrbætur á loftræsingu og hljóðkerfi í sérherbergi. Í skýrslunni kemur fram að úrbótum væri ekki að fullu lokið.

Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 102/2022 voru gerðar nákvæmari mælingar á hávaða frá veitingastaðnum Skor. Þær mælingar sýndu að ekki hafði verið unnt að meta raunverulegt ónæði af starfseminni fyrr en að loknum mælingum í íbúð á 2. hæð hússins sem stóðu yfir í þrjár vikur samfleytt í apríl 2023. Samkvæmt hljóðskýrslu sem unnin var eftir hljóðmælingar og skynmat í september s.á. í sömu íbúðum voru aðstæður enn metnar óviðunandi. Engar sambærilegar hljóðmælingar eða skynmat hefur farið fram sem stutt geta þá ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins að lengja opnunartíma staðarins.

Að framangreindu virtu og í ljósi forsögu málsins var ekki með viðhlítandi hætti gengið úr skugga um hvort hávaði í íbúð kæranda væri innan þeirra marka sem sett eru í lögum og reglu­gerð nr. 724/2008. Var rannsókn máls við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að því leyti ábótavant og verður af þeim sökum og með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 27. febrúar 2024 um að aflétta takmörkunum á opnunartíma samkvæmt starfsleyfi fyrir veitingastaðinn Skor, Geirsgötu 2–4.