Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2008 Sparkvöllur

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2008, kæra vegna framkvæmda á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir I, Skildinganesi 37 í Reykjavík framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hinar kærðu framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar. 

Með bréfi, mótteknu 6. ágúst 2008, kærir P, Skildinganesi 37, sömu framkvæmd.  Með hliðsjón  af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður seinna kærumálið, sem er nr. 71/2008, því sameinað hinu fyrra.  Kærendur hafa í kærum sínum gert kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem málið telst nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júlí 2004 tók gildi breyting á deiliskipulagi, er tekur m.a. til umrædds svæðis, þar sem það var skilgreint sem útivistar- og leiksvæði.  Hinn 3. júlí 2008 hófust framkvæmdir á svæðinu að tilhlutan umhverfis- og samgöngusviðs í umboði umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.  Fól framkvæmdin í sér að hluti svæðisins var sléttaður og útbúinn þar boltavöllur. 

Kærendur vísa til þess að við deiliskipulagsbreytinguna á árinu 2004 hafi komið fram að ekki yrði ráðist í frekari framkvæmdir og skipulagningu þess nema að undangenginni kynningu og samráði við íbúa en það hafi ekki verið gert.  Með framkvæmdinni hafi ósnortinn valllendismói verið eyðilagður.  Boltavöllur á umræddu svæði muni valda þeim er næst búi ónæði og óþægindum og hafi það komið í ljós á þeim stutta tíma sem leiksvæðið hafi verið nýtt til boltaleikja.  Jafnframt blasi við að boltavöllurinn, sem sé nánast í bakgarði húsa þeirra er næst standi, muni rýra verðgildi þeirra og jafnvel hindra sölu íbúða.  Íbúar hafi ekki mátt búast við umdeildum framkvæmdum miðað við gildandi deiliskipulag og engin ákvörðun virðist hafa verið tekin um þær af þar til bærum yfirvöldum.  Bent sé á að í um 200 metra fjarlægð sé sparkvöllur með mörkum. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að staðfest verði að umræddar framkvæmdir rúmist innan gildandi deiliskipulags fyrir Skildinganes.  Þar sé umrætt svæði skilgreint sem útivistar- og leiksvæði sem þarfnist úrbóta.  Umdeild framkvæmd feli í sér sléttun grassvæðis til leikja sem hafi til þessa verið notað sem sparksvæði.  Í miðju svæðisins sé gert ráð fyrir grasflöt en svæðið umhverfis verði ósnortið.  Ráðgert sé að setja niður stólpa sem gætu verið „óformleg“ mörk.  Svæðið muni nýtast yngri börnum í nágrenninu  fyrir boltaleiki og aðra hópleiki.  Beiðni um sparkvöll hafi komið til umhverfis- og samgöngusviðs frá formanni íbúasamtaka hverfisins og hafi því verið haldið fram að fullur stuðningur væri við málið meðal íbúa.  Tillaga um gerð sparksvæðis hafi því farið inn á framkvæmdaáætlun umhverfis- og samgönguráðs fyrir árið 2008 og hafi hún verið kynnt á samráðsfundi borgarstjóra með íbúum í vesturbæ síðastliðið vor.  Ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdirnar enda hafi þær verið í samræmi við skipulag.  Nánari útfærsla á slíkum svæðum sé á hendi umhverfis- og samgönguráðs. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Ekki liggur fyrir í máli þessu að önnur stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin varðandi umdeildar framkvæmdir eða útfærslu þeirra en fyrir liggur í áðurgreindri deiliskipulagsbreytingu er tók gildi hinn 13. júlí 2004. 

Þar sem kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn og engin ný stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga um skipulag eða útfærslu umdeilds svæðis af þar til bærum stjórnvöldum, verður lögmæti umræddra framkvæmda ekki borið undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson