Ár 2005, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 57/2003, kæra eiganda fasteignarinnar nr. 15 við Eiríksgötu í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 19. ágúst 2003 um að synja umsókn um leyfi til að útbúa þrjú bílastæði við bakhlið hússins á lóðinni nr. 15 við Eiríksgötu.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2003, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Jón Ólafsson hrl., fyrir hönd E, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. ágúst 2003 að synja beiðni um að útbúa þrjú bílastæði við bakhlið hússins á lóðinni nr. 15 við Eiríksgötu. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti ákvörðunina á fundi hinn 4. september 2003.
Kærandi gerir þá kröfu að umrædd ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Hinn 15. nóvember árið 1933 gaf borgarstjórinn í Reykjavík út lóðarleigusamning vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu í Reykjavík. Samkvæmt samningnum er lóðin 300 m² að stærð og um lögun hennar er vísað til meðfylgjandi uppdráttar. Þá segir ennfremur: „Umferðarréttur að baklóðinni er um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu, eftir 3 metra breiðri ræmu yfir vestur- og norðurhorn þeirrar lóðar, frá Eiríksgötu“.
Kærandi máls þessa sótti hinn 8. júlí 2003 um leyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík að útbúa þrjú bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2003 var eftirfarandi fært til bókar: „Niðurstaða byggingarfulltrúa: Frestað. Bókun byggingarfulltrúa: „Vísað til athugasemda á umsóknarblaði. Málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.““ Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 1. ágúst 2003 var erindi kæranda tekið fyrir og því vísað til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. ágúst 2003 var erindi kæranda tekið fyrir á ný og var eftirfarandi bókað: „Niðurstaða byggingarfulltrúa: Synjað. Bókun byggingarfulltrúa: Með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu.“
Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í lóðarleigusamningi vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu sé kveðið á um að umferðarréttur að baklóð hússins sé um lóð Eiríksgötu nr. 13 eftir þriggja metra breiðri ræmu yfir vestur- og norðurhluta þeirrar lóðar frá Eiríksgötu. Umferðarréttur þessi sé án nokkurra skilyrða og því telji kærandi sér heimilt að nýta hann á hvern þann hátt sem hún vilji.
Kærandi mótmælir umsögn lögfræði- og stjórnsýslu þar sem því sé haldið fram að inntak umferðarréttarins sé svonefndur „öskustígur“. Enginn rök séu fyrir þessari nafngift því sorptunnum hefði verið unnt að koma fyrir framan við húsið en umferðarrétturinn hafi verið veittur svo unnt væri að komast að baklóðinni. Þótt ekki hafi verið mikið um bifreiðar á þeim tíma er lóðarleigusamningurinn hafi verið gerður þá hafi þær þó verið til og eins hafi eitthvað verið um hestvagna enda hafi þessi umferðarréttur eitthvað verið nýttur og hafi staðið í 70 ár. Engin gögn sýni að umferðarrétturinn veiti ekki heimild til þess að hann sé nýttur til þess að aka bifreiðum yfir lóðina nr. 13 við Eiríksgötu. Ekkert sé óeðlilegt við það á þeim tíma er lóðarleigusamningurinn hafi verið gerður að ekki hafi verið gert ráð fyrir bílastæðum á lóðinni og ekkert segi til um að umferðarrétturinn nái aðeins til flutninga og viðhalds.
Kærandi bendir á að einhverntíma á þeim tíma sem liðinn sé frá því að lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar nr. 15 við Eiríksgötu hafi verið gerður hafi byggingaryfirvöld borgarinnar heimilað eiganda fasteignarinnar að Eiríksgötu 13 að byggja tvo bílskúra á lóð sinni. Þetta hafi gert það að verkum að umferðarréttur kæranda hafi færst frá því að vera á lóðarmörkum lóðanna nr. 11 og 13 við Eiríksgötu og lóðarinnar nr. 13 við Leifsgötu, þannig að umferðarrétturinn sé nú fyrir framan bílskúrana. Það að leyft hafi verið að byggja bílskúra á lóðinni nr. 13 við Eiríksgötu eigi ekki að skerða rétt kæranda til að nýta sér baklóð hans og bygging þeirra sýni að byggingaryfirvöld hafi talið lóðirnar hæfar undir bílgeymslur. Kærandi telur að verði honum synjað um gerð bílastæðanna sé það brot á jafnræðisreglu.
Sjónarmið Reykjavíkurborgar: Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 20. október 2003, eftir því við byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann lýsti viðhorfum sínum til kærunnar og léti úrskurðarnefndinni í té gögn er verið gætu til upplýsingar við úrlausn málsins. Gögn hafa borist úrskurðarnefndinni og telur nefndin málið tækt til úrskurðar.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að umferðarréttur um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu sé kvöð sem algengt hafi verið að setja, m.a. vegna sorphirðu, aðfanga og flutninga, og stígar af þeirri gerð sem hér um ræði gjarnan verið nefndir öskustígar.
Samkvæmt athugasemdum byggingarfulltrúa þurfi að leiðrétta mæliblað vegna kvaðarinnar en svo virðist sem hún hafi verið færð þegar bílgeymsla hafi verið samþykkt á lóð hússins nr. 13 við Eiríksgötu.
Ekki verði talið með vísan til fyrirliggjandi gagna að í umferðarrétti kæranda um lóðina nr. 13 við Eiríksgötu sé heimild til að aka bifreiðum um lóðina nr. 13 til að koma bifreiðum í bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu. Þá hafi ekki heldur verið gert ráð fyrir bílastæðum á lóðinni. Því sé ekki hægt að álykta að kvöðinni hafi verið ætlað að taka til slíkrar umferðar þrátt fyrir að telja megi að gert hafi verið ráð fyrir því á sínum tíma að hægt væri að koma bifreið inn á baklóðina ef þurfa þætti við flutning eða vegna viðhalds, enda sé þetta eina aðkoman að lóðinni. Með vísan til þessa sé það niðurstaðan að samþykki lóðarhafa að Eiríksgötu 13 þurfi að liggja fyrir áður en unnt sé að samþykkja fyrrnefnd bílastæði.
Í umsókninni sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum á baklóðinni. Tvö þeirra séu teiknuð 2,90 m á breidd og eitt einungis 2,50 m. Samkvæmt reglum um stærð bílastæða, sem samþykktar hafi verið í borgarráði hinn 7. ágúst 1987, og hinn 13. sama mánaðar í byggingarnefnd, sé bílastæðum skipt í A- og B- stæði. Með vísan til þeirra reglna skuli bílastæðin á baklóð Eiríksgötu nr. 15 vera a.m.k. 3,0 m á breidd vegna þrengsla í aðkomu og í ljósi þess að bílastæðin liggi að hluta til að lóðréttri hindrun.
Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun borgaryfirvalda fól í sér að synjað var beiðni um leyfi til að útbúa þrjú bílastæði á baklóð hússins nr. 15 við Eiríksgötu m.a. með þeim rökum að umferðarréttur um lóðinna nr. 13 við Eiríksgötu samkvæmt lóðarleigusamningi fæli ekki í sér heimild til aksturs bifreiða.
Umferðarréttur sá sem hér um ræðir stofnaðist með samningi borgaryfirvalda og lóðareiganda á árinu 1933 og var honum þinglýst. Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og ekki er að umferðarrétti þessum vikið í greinargerð gildandi aðalskipulags Reykjavíkur. Verður umferðarrétturinn því ekki talin skipulagskvöð í skilningi 10. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem slíkar kvaðir verða einungis lagðar á með skipulagsákvörðun.
Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum. Hefur ákvæði þetta verið skilið svo að skotið yrði til nefndarinnar ágreiningi um ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál og öðrum ágreiningsefnum sem tilgreind eru í lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Álitaefni það sem hér er til meðferðar felur hins vegar í sér úrlausn ágreinings um réttindi sem leidd eru af samningi einkaréttarlegs eðlis. Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist. Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir