Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2024 Leiðhamrar

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 56/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 um að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 54, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. maí 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhamrar 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til kæranda þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis aðliggjandi lóðarhafa, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Loks var leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hinn 23. s.m. fóru starfsmenn embættisins á vettvang og tóku myndir af framkvæmdunum.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann sé alls ekki að reisa smáhýsi sem þarfnist byggingarleyfis eða samþykki nágranna í skilningi gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Hið rétta sé að hann hafi sett upp skjólvegg fyrir heitan pott og útisturtu og hafi það verið gert að mestu fyrir nokkrum árum síðan og það eftir að hann hafi fengið leyfi eiganda nærliggjandi lóðar til að reisa 1,8 m hátt grindverk á lóðamörkum. Skjólveggirnir nái ekki yfir hið samþykkta grindverk og sé því ekki þörf á byggingarleyfi. Úrskurðað hafi verið um hæð grindverksins í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2022. Auk þess sé bent á að aðstæður hafi ekki verið rannsakar nægjanlega áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu, en slíkt sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki gefist færi á því að andmæla ákvörðuninni áður en hún hafi verið tekin, sem feli í sér brot á 13. og 14. gr. sömu laga. Einnig feli ákvörðunin í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi verið tekið til skoðunar hvort beita hefði mátt vægari úrræðum.

Reykjavíkurborg fari fram á að kröfum kæranda verði vísað frá þar sem um málsmeðferðarákvörðun sé að ræða en ekki stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúi hafi stöðvar framkvæmdirnar svo unnt væri að rannsaka og taka afstöðu til þess hvort og þá að hve miklu leyti væri um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Enn hafi ekki verið tekin lokaákvörðun í málinu þar sem vafi leiki á því hvort framkvæmdirnar séu byggingarleyfisskyldar. Hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóð Leiðhamra 54 við mörk þeirra lóðar og lóðar nr. 52.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna ef ekki liggur fyrir tilskilið leyfi. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda á grundvelli þeirra heimildar er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi er enn með til athugunar hvort hinar umræddu framkvæmdir teljist byggingarleyfisskyldar og hefur hann af því tilefni óskað eftir áliti úrskurðarnefndarinnar þar um á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010. Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og hefur það hlotið málsnúmerið 58/2024, en tekið skal fram að samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins skal niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir innan eins mánaðar frá móttöku erindisins. Með hliðsjón af framangreindu verður því að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir sé bráðabirgðaákvörðun sem ekki sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.