Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður.
Fyrir var tekið mál nr. 56/2004, kæra eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðasvæðis við Rafstöðvarveg, þar sem heimiluð var viðbygging við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. október 2004, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kæra G og G, eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg er heimilaði viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar. Gerir kærandi þá kröfu að nefnd deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.
Málavextir: Hús kærenda stendur norðaustanvert við húsið að Rafstöðvarvegi 31 og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk. Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina. Samkvæmt þeim uppdrætti með áorðnum breytingum var heimilað að reisa bílskúra á lóðum nefndra fasteigna. Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996.
Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. júní 2004 var tekin fyrir fyrirspurn eigenda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 um hvort leyft yrði að byggja viðbyggingu og bílskúr á lóð þeirra samkvæmt framlögðum uppdrætti sem meðeigendur greindrar fasteignar höfðu samþykkt fyrir sitt leyti. Var erindið afgreitt með svofelldri bókun: „Ekki gerð athugasemd við erindið. Umsækjandi láti vinna breytingu á deiliskipulagi sem síðan verður grenndarkynnt.”
Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á gildandi skipulagi svæðisins að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með eftirfarandi bókun: „Kynnt tillaga samþykkt, með vísan til 4. gr. samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, með þeirri breytingu að dregið verði úr stærð glugga til austurs á aðalhæð viðbyggingar og svalir á þaki verði inndregnar til austur sem nemur 1,5 metra til að takmarka innsýn á lóð nr. 29 við Rafstöðvarveg sbr. umsögn skipulagsfulltrúa.”
Fól skipulagsbreytingin í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar. Heimilaði skipulagið að umrædd viðbygging stæði tvo metra frá lóðarmörkum kærenda. Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram mótmæli frá kærendum við fyrirhugaða viðbyggingu og var framkomnum athugasemdum þeirra svarað af hálfu Reykjavíkurborgar. Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. Skutu kærendur umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Hinn 15. febrúar 2005 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi fyrir greindri viðbyggingu og bílskúr á grundvelli umrædds skipulags og staðfesti borgarstjórn Reykjavíkur leyfið hinn 1. mars 2005. Annar kærenda í máli þessu kærði veitingu leyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 20. apríl sl. og krafðist þess að heimilaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til efnisúrlausn lægi fyrir í málinu. Úrskurðarnefndin kvað upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvunarkröfuna hinn 4. maí sl. þar sem henni var hafnað.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu skipulagsbreytingu gangi óhæfilega á grenndarrétt þeirra með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð sem muni rýra verðgildi fasteignar þeirra.
Heimiluð viðbygging færi austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 fjóra metra nær lóð kærenda en nú er og aðeins yrðu tveir metrar frá viðbyggingunni að mörkum umræddra lóða. Fjarlægð milli húsa á lóðunum færi úr 11,5 í 7,5 metra.
Kærendur hafi fyrirhugað að nýta suðvestur hluta lóðar sinnar, sem umdeild viðbygging snúi að, undir heitan pott en ljóst megi vera að tilvist viðbyggingarinnar svo nærri lóðamörkum takmarki notagildi pottsins fyrir kærendur en vænta megi að samtal sem þar ætti sér stað bærist auðveldlega yfir í viðbygginguna. Verði byggingin reist til viðbótar fyrirhuguðum bílskúr myndist nánast samfelldur steinveggur frá vegi að suðurmörkum lóðar kærenda.
Umræddar framkvæmdir muni samkvæmt framansögðu valda kærendum bæði fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni sem leiða eigi til þess að umdeild skipulagsbreyting nái ekki fram að ganga.
Benda kærendur loks á að kannað verði hvort útlit hússins að Rafstöðvarvegi 31 sé friðað.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2004 verði staðfest.
Reykjavíkurborg geti ekki tekið undir málsástæður kærenda varðandi áhrif hinna samþykktu viðbyggingarheimildar sem snúist eingöngu um grenndaráhrif hennar. Með tilkomu viðbyggingarinnar verði minnsta fjarlægð milli umræddra húsa 7,5 metrar í stað 11,5 metra áður, en hafa verði í huga að húsin standi ekki andspænis hvort öðru. Leyfð fjarlægð á milli húsa sé ekki í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins eða almenna nýtingu lóða.
Ekki verði séð að hagsmunir kærenda af því að koma fyrir heitum potti í framtíðinni á suðvestanverðri lóð þeirra séu meiri en hagsmunir lóðarhafa að Rafstöðvarvegi 31 af því að fá að byggja við hús sitt. Geti slíkt hagsmunamat því ekki hróflað við gildi umdeildrar skipulagsbreytingar og ekki verði séð að umdeild viðbygging setji nýtingu lóðar kærenda skorður er nokkru nemi. Bent sé á að upphaflegri skipulagstillögu hafi verið breytt með tilliti til athugasemda kærenda. Lóðarhöfum hafi verið gert skylt að draga svalir á þaki viðbyggingarinnar inn til austurs um 1,5 metra í því skyni að takmarka innsýn á lóð kærenda auk þess sem stærð glugga á gafli sé takmörkuð við 70×200 sentimetra og hann útfærður á þann veg að innsýn verði ekki bein inn á lóð kærenda.
Tekið skuli fram að mikið útsýni sé frá húsum við Rafstöðvarveg og nefnd viðbygging hefði óverulega útsýnisskerðingu í för með sér eða sem næmi 3–10º frá húsi nr. 29 við Rafstöðvarveg. Að auki séu lóðirnar vaxnar háum trjám sem þegar skerði útsýni töluvert og muni gróðurinn og fyrirhugaður bílskúr hylja viðbygginguna að mestu séð frá lóð kærenda.
Samkvæmt framangreindndu sé ljóst að samþykkt breyting muni hafa lítil sem engin grenndaráhrif og takmarki ekki nýtingarmöguleika lóðarinnar nr. 29. Jafnframt megi taka fram að þrátt fyrir að komist væri að þeirri niðurstöðu að breyting á skipulagi hefði í för með sér bótaskylt tjón leiði það eitt og sér ekki til ógildingar en eftir atvikum gæti komið til greiðslu bóta ef tjón yrði sannað samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Heimilaðar framkvæmdir hafi ekki meiri grenndaráhrif á lóð kærenda en að jafnaði megi búast við þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli, en í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi afmarkaðar heimildir til þess að breyta skipulagsáætlunum sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga. Benda megi á að samþykkt hafi verið viðbygging við hús númer 33 við Rafstöðvarveg árið 1999 og sé sú viðbygging töluvert stærri en sú sem hér sé vélað um.
Andmæli eigenda Rafstöðvarvegar 31: Eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31 hafa komið á framfæri við úrskurðarnefndina sjónarmiðum sínum og gögnum í tilefni af kærumáli þessu og taka þeir undir sjónarmið Reykjavíkurborgar í málinu. Benda þeir sérstaklega á að ítrekað hafi verið reynt að hafa samráð við kærendur vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem skipulagsbreytingin taki til og komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda, svo sem fram komi í umsögn Reykjavíkurborgar. Telja lóðarhafar að umdeild viðbygging muni í raun minnka innsýn frá húsi þeirra inn á suðvesturlóð kærenda þar sem fjórir gluggar á austurgafli húss þeirra muni hverfa með viðbyggingunni en á henni verði aðeins einn gluggi með engri innsýn inn á lóð kærenda og hafi verönd á þaki byggingarinnar verið færð um 1,5 metra frá þakbrún. Auk þess verði bílskúr með flötu þaki í stað mænisþaks, sem eldra skipulag gerði ráð fyrir, sem dragi verulega úr útsýnisskerðingu kærenda og minnki skuggavarp. Svæði það sem undir bygginguna fari hafi verið nýtt af eigendum sem útivistarsvæði og megi með hliðsjón af framansögðu færa fram rök fyrir því að framkvæmdin muni í raun draga úr grenndaráhrifum gagnvart kærendum frá því sem nú er. Sé því mótmælt að umdeild skipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda svo nokkru nemi.
Vettvangsskoðun: Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar kynntu sér staðhætti á vettvangi hinn 31. maí sl. Viðstaddir skoðunina vou fulltrúar Reykjavíkurborgar, annar kærenda og eigendur fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 31.
Niðurstaða: Fullnaðarákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu er í samræmi við 4. gr. samþykktar fyrir nefndina frá 21. mars 2002, sbr. breytingu á þeirri samþykkt frá 22. júlí 2003, en samþykktin er sett á grundvelli samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001 með síðari breytingum, sem telja verður að eigi stoð í 2. mgr. 44 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, svo sem henni var breytt með 1. gr. l. nr. 74/2003.
Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, er tekur eingöngu til lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31, er heimiluð einnar hæðar viðbygging með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kærenda í vestur. Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún er snýr að lóð kærenda. Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti (4,5×9,5 m) en með heimiluðum kjallara má heildarflatarmál hennar vera 65,5 fermetrar.
Umdeild viðbygging er ekki stór að grunnflatarmáli og stendur hún lægra en núverandi austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 þar sem háreist rishæð rís frá fyrstu hæð hússins. Við skipulagsgerðina voru þær breytingar gerðar að fyrirhuguð verönd á þaki viðbyggingarinnar var færð um 1,5 metra frá þakbrún er snýr að lóð kærenda þannig að veröndin er 3,5 metra frá lóðamörkum umræddra húsa. Þá er í skipulaginu kveðið á um að sá eini gluggi sem heimilaður er á gafli viðbyggingarinnar verði þannig úr garði gerður að ekki verði bein innsýn frá honum inn á lóð kærenda. Við skipulagsbreytinguna eykst nýtingarhlutfall lóðarinnar að Rafstöðvarvegi 31 úr rúmlega 0,37 í um 0,42. Hús kærenda og húsið að Rafstöðvarvegi 31 standa ekki andspænis hvort öðru og á lóðunum er hávaxinn trjágróður og eru fasteignirnar inn á víðáttumiklu útivistarsvæði Elliðaárdals.
Samkvæmt 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 skal lágmarksfjarlægð húss frá lóðarmörkum vera þrír metrar en reglugerðin heimilar í gr. 75.4 að vikið sé frá þeim fjarlægðarmörkum í skipulagi svo sem gert var með hinni umdeildu skipulagsbreytingu þar sem fjarlægð heimilaðrar viðbyggingar frá lóðamörkum er tveir metrar. Rétt er að taka fram að húsið að Rafstöðvarvegi 31 er ekki friðað samkvæmt húsafriðunarlögum nr. 104/2001 og ekki liggur fyrir að ákvörðun um friðun hússins hafi verið tekin með heimild í þeim lögum.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið varðandi staðhætti, umfang viðbyggingar þeirrar sem umdeild skipulagsbreyting heimilar og skilyrði þau um hönnun sem getið er í skipulaginu, verður ekki fallist á að heimiluð bygging raski svo hagsmunum kærenda að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar er raskað gætu gildi ákvörðunarinnar er ógildingarkröfu kærenda hafnað.
Úrskurður í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi íbúðarsvæðis við Rafstöðvarveg.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Sesselja Jónsdóttir