Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2024 Sandeyri

Árið 2024, föstudaginn 16. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2024.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga væru jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ítrekað andmælt sjókvíaeldi við jörð hans, sem sé einstök og ósnortin náttúruperla með viðkvæmu vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi vanrækt þá skyldu sína skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að leggja mat á óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar á þau vistkerfi sem séu innan jarðareignar kæranda með tilheyrandi sérfræðiálitum.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að það hafi verið mat hennar að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið. Við greiningu á því hvort umrædd mannvirki væru innan netlaga hafi stofnunin stuðst við eigin athuganir á gögnum um svæðið og samsetningu upplýsinga úr byggingarleyfisumsókn, þ.e. hnit, fjölgeislamælingu frá Landhelgisgæslu Íslands og kortagrunn frá Landmælingum Íslands. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun jafnframt óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar um hvort byggingaráformin væru í samræmi við Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022. Tekið var tillit til umhverfismats framkvæmdarinnar sem og áhættumats um siglingaöryggi. Leyfishafa hafi verið gert að afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar sem við eigi í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það hafi leyfishafi gert og hafi verið tekið tillit til álitsins við mat á því hvort binda þyrfti byggingarleyfið frekari skilyrðum, en ekki hafi verið talin þörf á því.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi fullnægi ekki áskilnaði um kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og af þeim sökum beri að vísa málinu frá. Skýrlega verði ráðið af kæru að aðild hans að málinu felist eingöngu í því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað á eignarlandi hans, þ.e. innan netlaga jarðarinnar Sandeyri. Samkvæmt lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða miðist netlög við sjávarbelti 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Ótvírætt sé að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Landareignum sem liggja að sjó fylgja netlög en í lögum er jafnan miðað við að þau nái 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjörumáli, sbr. t.d. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í kæru er um hagsmuni kæranda vísað til þess að eldissvæði það sem kennt er við Sandeyri sé í netlögum þeirrar jarðar. Á þetta verður ekki fallist, að virtum gögnum þessa máls, þar sem fjarlægðin er meiri en sem nemur 115 metrum. Kærandi hefur um afmörkun netlaga einnig vísað til svonefndrar dýptarreglu Jónsbókar, þ.e. fyrirmæla í 2. kap. rekabálks um einkarétt til veiði miðað við dýpt selneta. Er ekki ástæða til að fjalla nánar um þá reglu eða gildi hennar, enda er ljóst af málsgögnum að meira dýpi er við umræddar eldiskvíar en miðað er við samkvæmt reglunni. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

Kemur þá til álita hvort kærandi hafi að öðru leyti lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa kærumáls, en svo sem fyrr er rakið verður að gera þá kröfu í þeim efnum að hið kærða rekstrarleyfi raski einstaklingsbundnum hagsmunum hans og að sú skerðing sé veruleg. Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.