Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2001 Fjóluhlíð

Ár 2002, miðvikudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2001, kæra eigenda fasteignarinnar að Fjóluhlíð 1, Hafnarfirði, á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001 að synja um leyfi til að færa eignarhald bílskýlis fasteignarinnar frá íbúð efri hæðar yfir á íbúð neðri hæðar hússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. nóvember 2001, er barst nefndinni sama dag, kæra E og R, eigendur íbúða í fasteigninni að Fjóluhlíð 1, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001 að synja um leyfi til að færa eignarhald bílskýlis fasteignarinnar frá íbúð efri hæðar til íbúðar neðri hæðar hússins.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti afgreiðslu byggingarnefndar á fundi sínum hinn 30. október 2001.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á svæði því sem fasteign kærenda stendur eru í gildi byggingar- og skipulagsskilmálar deiliskipulags fyrir Mosahlíð Hafnarfirði, dags. 17. maí 1996.  Í þeim skilmálum er heimilað að hafa litla aukaíbúð, að hámarki 50 fermetra, þar sem því verður við komið í stærri einbýlishúsum á skipulagssvæðinu.  Samkvæmt aðalteikningum fyrir fasteignina að Fjóluhlíð 1, Hafnarfirði, sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa hinn 5. ágúst 1998, er gert ráð fyrir 80 fermetra íbúð á fyrstu hæð hússins og 114,8 fermetra íbúð á annarri hæð en þeirri íbúð fylgir 34,8 fermetra bílskýli á fyrstu hæð.

Kærendur keyptu fasteignina að Fjóluhlíð 1 í ágústmánuði 2000.  Ragnhildur Ragnarsdóttir varð eigandi að íbúðinni á efri hæð hússins en Erla Þórðardóttir keypti íbúðina á neðri hæð og mun hafa verið ætlun kærenda að bílskýlið fylgdi íbúð neðri hæðar.  Af því tilefni létu kærendur gera nýjan eignaskiptasamning fyrir fasteignina þar sem gert var ráð fyrir breyttum eignarráðum bílgeymslunnar.  Er þar kveðið á um kauprétt að bílgeymslunni til eiganda íbúðar á annarri hæð komi til sölu á íbúð neðri hæðar hússins.

Í október 2001 var sótt um leyfi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar til að breyta eignarhaldi bílgeymslu fasteignarinnar í samræmi við greint samkomulag eigenda.  Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar bæjarins hinn 24. október 2001 og var það afgreitt með svofelldri bókun:  „Þar sem stærð íbúðar neðri hæðar fer, við fyrirhugaða breytingu, upp fyrir hámarksstærð samkvæmt skilmálum synjar byggingarnefnd erindinu.”  Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna með bréfi, dags. 31. október 2001.

Kærendur undu ekki þessum málalokum og kærðu ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að skilmálar um hámarksstærð aukaíbúða í hverfinu hljóti að hafa þann tilgang að tryggja að fjöldi íbúa á skipulagssvæðinu fari ekki fram úr því sem sem gert sé ráð fyrir í skipulagi bæjarins.  Skilmálunum um hámarksstærð íbúða hafi hins vegar ekki verið fylgt eftir í framkvæmd af hálfu bæjaryfirvalda.  Eftir gildistöku skilmálanna hafi byggingarnefnd rýmkað leyfilega stærð aukaíbúða í 80 fermetra án þess að breyta skipulagsskilmálunum.

Þótt bílskýli fasteignarinnar yrði gert að séreign íbúðar á neðri hæð og eignarhlutinn færi þar með yfir 80 fermetra raskaði það í engu fyrrgreindum tilgangi skipulagsskilmálanna þar sem fermetrafjöldi fasteignarinnar til íbúðarnota breyttist ekki.  Engin málefnaleg rök séu fyrir afstöðu bæjaryfirvalda til umsóknar kærenda og því hafi þeim borið að veita undanþágu frá nefndum skipulagsskilmálum um hámarksstærð aukaíbúða.  Ljóst megi vera að bæjaryfirvöld hafi vikið frá reglum um hámarksstærð aukaíbúða þar sem nokkrar íbúðir á neðri hæð húsa í hverfinu séu stærri en 80 fermetrar og allt upp í 120 fermetra.  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar feli því í sér brot á jafnræðisreglum.  Jafnframt hafi verið brotinn réttur kærenda til andmæla þar sem þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið fyrir hina kærðu ákvarðanatöku.

Kærendur benda loks á að kröfur um bílastæði standi ekki í vegi fyrir breytingu á eignarhaldi bílskýlisins að Fjóluhlíð 1 milli íbúða hússins.

Málsrök skipulags- og byggingarráðs:  Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar vísa til bókunar byggingarnefndar vegna hinnar kærðu ákvörðunar.  Synjun umsóknar kærenda um breytingu á eignarhaldi bílskýlis fasteignarinnar að Fjóluhlíð 1, Hafnarfirði hafi byggst á ákvæðum skipulags- og byggingarskilmála um hámarksstærðir aukaíbúða.   

Niðurstaða:  Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn kærenda um færslu eignarráða bílskýlis fasteignarinnar að Fjóluhlíð 1 milli íbúða hússins byggðist á því að við umsótta breytingu færi stærð íbúðar fyrstu hæðar yfir heimiluð mörk samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum. 

Á deiliskipulagssvæðinu gilda skipulagsskilmálar deiliskipulags fyrir Mosahlíð, Hafnarfirði frá árinu 1996.  Þar er gert ráð fyrir að heimilt sé að hafa aukaíbúðir að hámarki 50 fermetra í stærri gerðum einbýlishúsa.  Samþykktar teikningar fyrir fasteignina að Fjóluhlíð 1 gera hins vegar ráð fyrir 80 fermetra íbúð á fyrstu hæð og 114,8 fermetra íbúð á annarri hæð ásamt 34,8 fermetra bílgeymslu.  Bæjaryfirvöld hafa ekki upplýst að aðrir skipulags- og byggingarskilmálar en að ofan greinir hafi gilt um fasteign kærenda.  Við útgáfu byggingarleyfisins hefur því ekki verið stuðst við fyrrgreinda skilmála deiliskipulagsins um stærðir aukaíbúða og sama á við um fjölda annarra fasteigna á skipulagssvæðinu samkvæmt gögnum frá Fasteignamati ríkisins sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina.

Við þá ráðstöfun að færa eignarráð umræddrar bílgeymslu milli íbúða fasteignarinnar breytast eignarhlutföll milli fasteignarhlutanna en stærðir íbúða breytast ekki.  Engin skipulagsleg rök mæla gegn tilfærslunni þar sem samþykktar teikningar og umdeild byggingarleyfisumsókn kærenda bera með sér að fjöldi bílastæða á lóðinni fyrir íbúðir hússins fullnægi ákvæðum 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þótt breyting eignarráða bílgeymslunnar yrði heimiluð.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi ekki ekki verið reist á réttum lagagrundvelli, enda mæla lög ekki gegn því að bílgeymslum sé ráðstafað milli eignarhluta fasteignar, sbr. 22. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Verður ákvörðunin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 24. október 2001, að synja um leyfi fyrir tilfærslu eignarráða bílgeymslu fasteignarinnar að Fjóluhlíð 1, Hafnarfirði milli íbúða hússins, er felld úr gildi.

     

  

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir