Árið 2024, mánudaginn 30. september, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 53/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Tálknafjarðarhrepps á erindum kærenda varðandi gjaldtöku vegna sorphirðu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2024, er barst nefndinni 8. s.m., framsendi innviðaráðuneytið kæru eigenda, Eysteinseyri í Tálknafirði, er varðaði tafir á málsmeðferð sveitarfélagsins Tálknafjarðar vegna kröfu þeirra um endurgreiðslu oftekinna sorphirðugjalda.
Málavextir: Með kæru, dags. 26. mars 2024, kærðu ábúendur á Eysteinseyri í Tálknafirði drátt á svörum Tálknafjarðarhrepps við fyrirspurnum þeirra, dags. 6. nóvember og 15. desember 2023 og 26. janúar 2024. Var með erindunum óskað upplýsinga um innheimtu sorphirðugjalda.
Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa nú sameinast í einu sveitarfélagi, Vesturbyggð, sem tekið hefur með því við fyrirsvari málsins. Öðlaðist sameiningin gildi 19. maí 2024.
Málsrök kærenda: Vísað er til þess að lögmaður kærenda hafi sent þrjú bréf til sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, frá 6. nóvember, 15. desember 2023 og 26. janúar 2024 varðandi sorphirðugjöld á lögbýlinu Eysteinseyri fyrir árin 2022 og 2023. Bréfunum hafi ekki verið svarað. Samkvæmt stjórnsýslurétti og stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé það skylda stjórnvalda að svara slíkum fyrirspurnum.
Málsrök Vesturbyggðar: Í greinargerð Tálknafjarðarhrepps, dags. 20. apríl 2024, eru sjónarmið og rökstuðningur sveitarfélagsins vegna ákvörðunar sorphirðugjalds rakin en ekki er fjallað um svör við erindum kærenda, þ.e. hvort eða hvenær þeim hafi verið svarað. Úrskurðarnefndin sendi Vesturbyggð fyrirspurn með tölvupósti 26. september 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort fyrirspurnum þeim sem kærumál þetta varðar hafi verið svarað. Með tölvupósti 27. s.m. upplýsti sveitarfélagið að ekki hafi verið brugðist við erindum með neinum hætti eftir að sameining sveitarfélaganna tók gildi.
Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla Tálknafjarðarhrepps, nú Vesturbyggðar, á erindum kærenda varðandi gjaldtöku vegna sorphirðugjalda hafi dregist óhóflega.
Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er um undantekningarreglu að ræða frá 2. mgr. 26. gr. laganna, þar sem gengið er út frá því að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda enda á stjórnsýslumál fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.
Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í athugasemdum með 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þar sem viðfangsefni sem stjórnvöldum berist séu mjög margvísleg taki úrlausn þeirra óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni taka nokkurn tíma og eigi það t.d. við um mál þar sem afla þurfi umsagnar annarra aðila, svo og gagna. Með þessu er ljóst að um matskennda reglu er að ræða og verður við mat á því hvort dráttur sé á afgreiðslu máls að taka mið umfangi þess og atvikum öllum.
Fyrir liggur að Vesturbyggð svaraði innviðaráðuneytinu með greinargerð, dags. 30. apríl 2024, þar sem fjallað var um sjónarmið og rökstuðning sveitarfélagsins vegna ákvörðunar um sorphirðugjald. Aftur á móti hefur Vesturbyggð ekki svarað þeim erindum er kærendur beindu til sveitarfélagsins og kæra þessi varðar og af svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar má ráða að ekki sé að vænta svara. Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.
Úrskurðarorð:
Vesturbyggð skal taka fyrirliggjandi erindi kærenda er varða gjaldtöku vegna sorphirðugjalda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.