Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Árið 2018, þriðjudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Björk, Mývatni, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á stöðvunarkröfu kæranda með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 17. apríl 2018.

Málsatvik og rök:
Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni væri til að afturkalla hina kærðu ákvörðun. 

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en hann hefur ekki nýtt sér þann kost í ljósi þeirrar málsmeðferðar sem fram fór hjá sveitarfélaginu í kjölfar kæru.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var 7. mars 2018 til byggingar skemmu í Bjarnarflagi. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. maí 2018, var leyfishafa tilkynnt um afturköllun hins kærða byggingarleyfis. Var vísað til bókunar skipulagsnefndar á fundi sínum 14. s.m. um málið, sem og til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tiltekið að þar sé m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla ákvörðun ef hún teljist ógildanleg. Var og tekið fram að vegna stöðu eignaréttarlegra heimilda hafi ekki verið uppfyllt skilyrði til útgáfu byggingarleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Nanna Magnadóttir