Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 2. og 14. júní 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sem haldinn var 28. apríl 2016, var samþykkt umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Kom fram að framkvæmdin væri matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar meðfylgjandi. Samkvæmt fundargerð var sótt um leyfið á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert væri ráð fyrir háspennulínum og einnig væri gert ráð fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Loks kom fram að náðst hefði samkomulag við landeigendur þeirra lendna sem fyrirhuguð lína myndi liggja um. Var skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og var það gefið út 1. júní 2016.

Kærandi telur mál þetta hafa almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, alla Íslendinga, erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Hagsmunirnir séu stórfelldir en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á.

Með bréfi Þingeyjarsveitar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2016, er tilkynnt að ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 hafi verið afturkölluð á sveitarstjórnarfundi 8. júní s.á. Í bókun sveitarstjórnar komi fram að ástæða afturköllunar sé sú að ekki liggi fyrir bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi umsókn um framkvæmdaleyfið. Jafnframt hafi verið bókað að lagt væri fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu. Í ljósi þessa beri að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið tók sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þá ákvörðun hinn 8. júní 2016 að afturkalla hina kærðu ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar Kröflulínu 4 innan sveitarfélagsins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Á þessi heimild við um kæranda og kæruefnið. Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir