Ár 2003, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 52/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35 þar sem gert var ráð fyrir dyrum úr bílgeymslu inn í anddyri hússins.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. nóvember 2001, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir T verkfræðingur, f.h. H, eiganda fasteignarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001 að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35, Akureyri, þar sem gert var ráð fyrir dyrum milli bílgeymslu og anddyris hússins. Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Kærandi, sem er lóðarhafi lóðarinnar að Klettaborg 35, Akureyri, sótti hinn 20. september 2001 um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Um var að ræða umsókn um byggingu tveggja hæða einbýlishúss með innbyggðum bílskúr. Á byggingarnefndarteikningum var gert ráð fyrir að innangengt yrði úr bílskúr í forstofu hússins um dyr með eldþolinni hurð. Úr forstofunni lágu tröppur upp í stofu hússins og önnur rými á annarri hæð.
Byggingarfulltrúi leitaði álits Brunamálastofnunar í tilefni af fyrirhuguðum dyrum milli bílskúrs og forstofu og í umsögn stofnunarinnar, dags. 7. nóvember 2001, kom fram það álit að umræddur umbúnaður færi í bága við gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem rými það sem gengið sé inn í úr bílskúr sé ekki lokað frá aðalrými húss. Mælti stofnunin gegn þessari tilhögun. Byggingarfulltrúi tók erindi kæranda fyrir á afgreiðslufundi hinn 7. nóvember 2001 og synjaði erindinu með vísan til þess að byggingarleyfisumsóknin uppfyllti ekki skilyrði byggingarreglugerðar samkvæmt greindri umsögn Brunamálastofnunar og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dagsettu sama dag.
Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun byggingarfulltrúa og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfu sína á því að umdeild byggingarleyfisumsókn hafi ekki verið andstæð ákvæðum byggingarreglugerðar og hafi því ekki verið forsendur fyrir synjun umsóknarinnar.
Í byggingarreglugerð nr. 441/1998, gr. 103.4 segi: „Dyr á milli íbúðar og bílskúrs mega ekki opnast beint inn í meginrými eða inn í kyndiklefa, heldur í millirými, s.s. geymslu, þvottahús eða anddyri. Hurð í þeim skal vera a.m.k. EI-CS30.” Í greininni standi því hvergi að það sé krafa að anddyri sé einnig lokað af frá íbúðinni með hurð. Þess sé aðeins krafist að hurð að bílgeymslu uppfylli fyrrgreindan staðal og sé sjálflokandi með 30 mínútna brunamótstöðu.
Í áliti Brunamálastofnunar komi fram að ekki séu gerðar sérstakar kröfur til þeirra rýma sem gengið sé inn í úr bílgeymslu heldur sé við það miðað að þau rými séu að venjulegum gæðum. Þetta staðfesti að aflokun millirýmis hafi enga brunatæknilega þýðingu og megi reikna með að í mörgum húsum séu hurðir millirýma úr bílgeymslu í meginrými húss að jafnaði látnar standa opnar ef ekki alltaf. Ekki sé ásættanlegt að Brunamálastofnun fái úrskurðarvald um innra skipulag íbúðar þegar ekki sé um brunamál að ræða.
Í umræddu húsi, sem sé á tveimur hæðum, sé lagt mikið upp úr því að anddyri neðri hæðar sé opið og bjart og tengist efri hæð með breiðum stiga þannig að birta berist frá efri hæð niður í anddyrið. Það sé lokað frá öðrum rýmum á neðri hæð með hurðum og dragsúgur frá útihurð nái ekki inn í önnur rými eða upp á efri hæð vegna eðlismunar heits og kalds lofts og ekki sé sjónmengun af bílgeymslunni þar sem ekki sé bein sjónlína þangað úr öðrum rýmum hússins. Að öllu þessu virtu sé ekki gild ástæða til að gera kröfu um vegg eða hurð milli anddyris og stiga upp á efri hæð og mæli hvorki byggingarreglugerð né brunatæknileg atriði gegn því að innangengt sé úr bílskýli hússins inn í anddyri þess.
Málsrök byggingarfulltrúa: Embætti byggingarfulltrúa bendir á að hin kærða ákvörðun hafi byggst á gr. 103.4 í byggingarreglugerð og stuðst hafi verið við niðurstöðu Brunamálastofnunar í umsögn hennar um umdeilda byggingarleyfisumsókn.
Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort sú tilhögun, að hafa innangengt úr bílskýli inn í forstofu, sem tengist stofu og öðrum rýmum á efri hæð hússins um stiga, fari í bága við ákvæði gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en umrætt ákvæði hljóðar svo: „Dyr á milli íbúðar og bílskúrs mega ekki opnast beint inn í meginrými eða inn í kyndiklefa, heldur í millirými, s.s. geymslu, þvottahús eða anddyri. Hurð í þeim skal vera a.m.k. EI-CS30.”
Af orðalagi ákvæðisins verður ráðið að gert sé að skilyrði að dyr úr bílgeymslu inn í íbúðarhús tengist afmörkuðu lokanlegu rými sem skilið sé frá meginrými húss. Orðalag ákvæðisins ber og með sér að kröfur í þessu efni eru hertar frá eldri byggingarreglugerð nr. 177/1992, þar sem í gr. 6.10.3.5 í þeirri reglugerð voru þær skorður settar að dyr að bílgeymslu mættu ekki liggja úr svefnherbergisgangi íbúðarhúss eða kyndiklefa og var í ákvæðinu vísað til samsvarandi ákvæðis í þágildandi reglugerð um brunavarnir og brunamál nr. 269/1978.
Að baki skorðum við því hvar megi setja dyr milli bílgeymslu og íbúðarrýmis búa öryggis- og heilbrigðissjónarmið. Þótt ekki séu gerðar kröfur um sérstakar ráðstafanir vegna brunamótstöðu millirýmis í gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, umfram brunamótstöðu hurðar úr bílskúr í íbúðarrými, hefur þetta skilyrði ákvæðisins þýðingu með tilliti til eldvarna. Lokað rými tefur fyrir útbreiðslu elds og reyks og hamlar almennt útbreiðslu óæskilegra lofttegunda inn í meginrými íbúðar, sem geta myndast í bílskúrum sökum útblásturs bifreiða og eftir atvikum vegna meðhöndlunar rokgjarnra efna.
Með vísan til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild byggingarleyfisumsókn uppfylli ekki ákvæði gr. 103.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 7. nóvember 2001, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Klettaborg 35.
_________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir