Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2025 Vetrarmýri og Smalaholt

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2025, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar um að auglýsa vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 26. mars 2025, kærir eigandi fasteignar að Þorrasölum 13 í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að auglýsa vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar. Er þess krafist að fallið verði frá áætlunum um að leggja veg fyrir aftan Þorrasali sem og að taka stóran hluta Smalaholtsskógar undir golfvöll.

Málsatvik og rök: Bæjarstjórn Garðabæjar auglýsti hinn 23. janúar 2025 vinnslutillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts til forkynningar, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með athugasemdafresti til 24. febrúar s.á. Fram kom að tillagan fjallaði um golfvöll í Vetrarmýri, íþróttaæfingasvæði við Miðgarð, útivistarskóg í Smalaholti og náttúrugarð við Vífilsstaðavatn. Þá verði sérstaklega fjallað um umferðartengingar úr Hnoðraholti í Leirdalsop, þ.e. Vorbraut við Þorrasali. Að lokinni forkynningu var á fundi skipulagsnefndar 13. mars s.á. samþykkt að tillagan, ásamt ábendingum og umsögnum um hana, yrði vísað til úrvinnslu hjá umhverfissviði og skipulagsráðgjöfum. Hefur skipulagstillagan að öðru leyti ekki hlotið lögbundna afgreiðslu.

Vísaði kærandi til þess að fyrirhuguð lagning Vorbrautar við Þorrasali myndi leiða til gífurlegra óþæginda þar sem vegurinn og gatnamót hans yrðu í 12–20 m fjarlægð frá húsi hans. Veglagningin myndi rýra verðgildi fasteignar hans og valda hávaða-, loft-, umferðar- og sjónmengun. Þá muni áform vegna golfvallar valda gríðarlegri landröskun, eyðileggingu á 17 ha skóglendi og útivistarsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga kemur fram að áður en tillaga að deiliskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skuli tillagan, forsendur hennar og umhverfismat kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Í 41. og 42. gr. laganna er svo fjallað um hvernig auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags skuli háttað og kemur þar fram að deiliskipulag taki gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þar til birting deiliskipulags hefur átt sér stað er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar

Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.