Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 51/2007, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi tiltekinna mannvirkja á lóðunum nr. 1J og 1F við Dalsbraut, Akureyri ásamt leyfi til jarðvegsskipta að Gleráreyrum 1 og graftrarleyfi fyrir nýbyggingu að Gleráreyrum 4.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. maí og 6. júní 2007, er bárust nefndinni hinn 30. maí og 7. júní sama ár, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 11. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi mannvirkja með fastanúmer 215-1354 á lóðinni nr. 1J við Dalsbraut, Akureyri og fyrir niðurrifi mannvirkja með fastanúmer 215-1357, 222-1198 og 224-4750 á lóðinni nr. 1F við Dalsbraut. Þá eru kærðar ákvarðanir sama embættis frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir jarðvegsskiptum vegna viðbyggingar við Glerártorg, Gleráreyrum 1, ásamt tilheyrandi bifreiðaplönum, að undanskildum þeim hluta lóðarinnar sem samkvæmt eldra skipulagi tilheyrði Dalsbraut 1I, heimild til niðurrifs mannvirkis með fastanúmer 222-1197 að Dalsbraut 1F, og graftrarleyfi fyrir nýbyggingu dekkjaverkstæðis að lóðinni að Gleráreyrum 4. Bæjarstjórn Akureyrar staðfesti ákvarðanirnar frá 11. apríl og 2. maí hinn 8. maí og 22. maí 2007.
Eins og frá er greint skaut kærandi tilteknum ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 11. apríl, 2. maí og 30. maí 2007 til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 7. júní 2007, er ber málsnúmerið 53/2007. Þar sem í báðum kærumálunum er deilt um leyfi fyrir framkvæmdum á sama svæði og byggt á sömu eða svipuðum rökum þykir rétt að sameina málið nr. 53/2007 hinu fyrra kærumáli sem er nr. 51/2007.
Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kærurnar til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna.
Málsatvik og rök: Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10, Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1. Eru umdeild mannvirki innan skipulagssvæðisins. Tók skipulagið gildi með gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl. Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum. Er það kærumál nú til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Skírskotar kærandi til þess að hin kærðu leyfi byggi á skipulagi sem hann hafi kært til úrskurðarnefndarinnar og telja verði ólögmætt og vísar til þeirra sjónarmiða er hann tefli fram í skipulagskærunni.
Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um frávísun málsins. Ekki verði séð að hin kærðu leyfi snerti lögvarða hagsmuni kæranda enda liggi umræddar lóðir ekki að húshlutum eða lóðum hans. Þá hafi hluti umdeildra mannvirkja þegar verið rifinn. Hin kærðu niðurrifsleyfi varði ekki hið kærða deiliskipulag, enda séu leyfin í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag og framkvæmdaáform á svæðinu. Umdeilt graftrarleyfi og leyfi til jarðvegsskipta breyti ekki ásýnd svæðisins og hafi engin áhrif á eignir kæranda.
Byggingarleyfishafi allra lóða, að undanskilinni lóðinni að Gleráreyrum 4, bendir á að niðurrifi samkvæmt hinum kærðu leyfum sé nú að mestu lokið. Ekki sé ljóst með hvaða hætti umdeild leyfi raski hagsmunum kæranda. Virðist sem kærandi telji samkeppnishagsmunum sínum ekki vel borgið með fyrirhugaðri uppbyggingu á svæðinu og fallist ekki á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 380/2006 um afmörkun lóða á svæðinu.
Niðurstaða: Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð. Hin kærðu leyfi fela aðeins í sér heimild til niðurrifs mannvirkja og jarðvegsframkvæmda, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna.
Með hliðsjón af eðli hinna kærðu leyfa og þar sem ekki liggur fyrir að umdeildar ákvarðanir gangi gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild um þær, verður máli þessu vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson