Ár 2006, mánudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 51/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 um að hafna umsókn um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í húsinu nr. 33b við Bergstaðastræti í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2005, er barst nefndinni sama dag, kæra L og T, eigendur Bergstaðastrætis 33b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 að hafna umsókn kærenda um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í greindri fasteign kærenda. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.
Málsatvik og rök: Að lokinni grenndarkynningu var umsókn kærenda um breytingar og hækkun hússins að Bergstaðastræti 33b tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 1. júní 2005. Var umsókninni synjað með vísan til þess að nágrannar hefðu andmælt erindinu en samþykki þeirra væri skilyrði fyrir samþykkt umsóknar vegna fjarlægðar milli húsa.
Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og boðuðu í kærunni gögn og rökstuðning fyrir máli sínu. Var afturköllun kærunnar boðuð ef málið yrði endurupptekið og fengi löglega meðferð. Borgaryfirvöld hafa upplýst að kærendur hafi fengið málið tekið fyrir á ný hjá byggingarfulltrúa hinn 25. október 2005, sem hafi samþykkt umsóknina, og hafi sú afgreiðsla verið staðfest í borgarráði hinn 27.október s.á..
Niðurstaða: Fyrir liggur að kærendur hafa fengið leyfi hjá borgaryfirvöldum fyrir umbeðnum breytingum á húsinu að Bergstaðastræti 33b í Reykjavík sem synjað hafði verið um með hinni kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun hefur því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.
Með vísan til framanritaðs og þar sem kærumál þetta hefur ekki verið afturkallað verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson