Ár 2005, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 51/2004, kæra eiganda húseignarinnar að Ægisgrund 10, Garðabæ á samþykkt skipulagsnefndar frá 18. ágúst 2004 um breytingu deiliskipulags Ása og Grunda vegna lóðarinnar nr. 8 við Ægisgrund.
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. október 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Ægisgrund 10, Garðabæ ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 18. ágúst 2004 um breytingu deiliskipulags Ása og Grunda vegna lóðarinnar nr. 8 við Ægisgrund.
Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í bæjarráði Garðabæjar í umboði bæjarstjórnar hinn 24. ágúst 2004.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 8. mars 2004, sótti eigandi Ægisgrundar 8, um leyfi til að byggja bílgeymslu á lóðinni ásamt því að stækka húsið. Þar sem byggingarreitur lóðarinnar gerði ekki ráð fyrir byggingu bílgeymslu vísaði byggingarfulltrúi málinu til meðferðar skipulagsnefndar með bréfi, dags. 22. mars 2004. Skipulagsnefnd fjallaði um málið á fundi hinn 31. mars 2004 og samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að fram færi grenndarkynning vegna breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert væri ráð fyrir byggingarreit fyrir bílgeymslu á lóðinni. Samþykkti bæjarstjórn tillögu nefndarinnar á fundi hinn 15. apríl 2004.
Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 7. maí 2004, voru eigendum Ægisgrundar 6 og 10 og eigendum Marargrundar 7 og 9 sendar upplýsingar um málið og þeim gefinn frestur til og með 8. júní 2004 til að gera athugasemdir. Frestur var framlengdur til 8. ágúst 2004 þar sem ekki náðist að koma upplýsingum til kæranda fyrr en 8. júlí 2004, en þann dag var bréf skipulagsfulltrúa birt á heimili kæranda.
Á fundi skipulagsnefndar hinn 18. ágúst 2004 var eftirfarandi fært til bókar: „Að grenndarkynningu lokinni var á ný lagt fram erindi byggingarfulltrúa, dags. 22.3.2004, ásamt umsókn lóðarhafa Ægisgrundar 8 um bílskúr og viðbyggingu á lóðinni. Í erindinu felst að sótt er um breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda þar sem bílskúr er utan byggingarreits. Viðbygging við hús er innan byggingarreits og samræmist gildandi skipulagi. Fram fór grenndarkynning. Engar athugasemdir bárust. Skipulagsnefnd leggur til að ofangreind breyting á deiliskipulagi verði samþykkt.“
Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkti tillögu skipulagsnefndar um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar á fundi 24. ágúst 2004.
Hin kærða ákvörðun birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. október 2004.
Með bréfi, dags. 6. október 2004, kærði kærandi samþykkt skipulagsnefndar til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að með skipulagsbreytingunni sé eigendum hússins nr. 8 við Ægisgrund heimilað að byggja bílgeymslu á lóðarmörkum og utan byggingarreits. Með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn lögvörðum hagsmunum hennar. Staðsetning bílgeymslunnar hafi það í för með sér að til að komast að henni þurfi að aka meðfram húsi kæranda, nánar tiltekið allri svefnherbergisálmunni. Þetta sé mjög bagalegt og hafi í för með sér óþægindi fyrir kæranda, þar sem annar eigandi hússins að Ægisgrund 8 sé dýralæknir og gangi vaktir allan sólarhringinn. Þá muni og kærandi þurfa að rífa vandað garðhýsi sem sé á lóð hennar, mjög nærri lóðarmörkum, svo nágranni hennar geti athafnað sig við bygginguna.
Kærandi telji eðlilegt að bílgeymslan sé staðsett bílastæðisbreidd frá götu og að sómasamlega verði gengið frá bílastæðinu. Þá telji og kærandi að ef staðsetning skúrsins verði staðfest sé rétt að hafa hann í götuhæð.
Að lokum bendir kærandi á að hún hafi verið erlendis þegar grenndarkynningin hafi farið fram og hafi því ekki haft tök á að bregðast við erindinu.
Málsrök Garðabæjar: Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Bent sé á að deiliskipulag Ása og Grunda hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar á árinu 2001, en þá hafi hverfið verið nánast fullbyggt. Þar komi fram sú meginregla að bílgeymslur skuli vera í nýbyggingum einbýlishúsa. Húsið að Ægisgrund 8 hafi verið byggt árið 1964. Hafi þar ekki verið gert ráð fyrir bílgeymslu og samkvæmt lóðarblaði hafi byggingarreitur fyrir sérstæða bílgeymslu ekki verið tilgreindur. Lóðin Ægisgrund 8 sé 732 m2 og stærð íbúðarhúss fyrir stækkun 141,8 m2. Sé nýtingarhlutfall því tæpir 0,2 en algengt sé að í skipulagsskilmálum fyrir einbýlishús sé miðað við nýtingarhlutfall 0,4 – 0,5.
Með vísan til gildandi skilmála og þess sem almennt tíðkist verði að telja það hluta af eðlilegri nýtingu einbýlishúsalóða að þar séu byggðar bílgeymslur. Réttur lóðarhafans samkvæmt gildandi skipulagi sé þannig ótvíræður og með þeim einum takmörkum sem ráðist af skipulags- og byggingarlögum og almennum rétti nágranna samkvæmt nágrannarétti.
Við ákvörðun á staðsetningu bílgeymslu sé eðlilegt að líta til hvernig bílastæðum hafi verið komið fyrir á lóðinni og nálægum lóðum. Við Ægisgrund 8 megi ljóst vera að bílgeymsla geti ekki verið staðsett annars staðar en norðvestan við húsið og sé þannig reyndar best staðsett miðað við nálæg bílastæði. Í kæru bendi kærandi á að staðsetning framar í lóðinni hefði í för með mun minni röskun en staðsetning aftast í lóð eins og samþykkt hafi verið. Á það sé hinsvegar bent að staðsetning framar í lóðinni hefði í för með sér að bílgeymsla hefði verið sambyggð húsinu sem leiddi til mun verri nýtingar lóðarinnar og verulegrar röskunar á byggingu hússins.
Því sé mótmælt sem haldið sé fram í kærunni að bygging bílgeymslunnar muni hafa í för með sér veruleg óþægindi og að brotinn sé nágrannaréttur. Í ljósi þess að bílgeymsla sé almennt hluti einbýlishúsalóða verði ekki séð að rök séu fyrir þeim sjónarmiðum kæranda. Með byggingu bílgeymslu sé ekki verið að breyta notkun lóðarinnar þó byggingarmagn aukist og verði það því talið falla að eðlilegum umráðarétti lóðarhafa að fá leyfi til að byggja bílgeymslu.
Varðandi staðsetningu á lóðarmörkum sé á það bent að víða hagi svo til að bílgeymslur séu staðsettar á lóðamörkum og þá oft til að mynda skjól og tryggja minna ónæði milli lóða. Megi í því sambandi benda á bílgeymslu á lóð kæranda, en hún hafi verið byggð síðar en sjálft íbúðarhúsnæðið á lóðinni. Þá sé einnig vísað til skipulags Flatahverfis í Garðabæ þar sem bílgeymslur séu víða byggðar í og við lóðamörk, og séu oft staðsettar djúpt í lóðum, eins og samþykkt hafi verið á lóðinni nr. 8 við Ægisgrund.
Að lokum sé á það bent að gætt hafi verið reglna skipulags- og byggingarlaga við alla málsmeðferð og þess sérstaklega gætt að koma upplýsingum til kæranda.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 18. ágúst 2004 þess efnis að breyta deiliskipulagi Ása og Grunda. Felur breytingin í sér að á lóðinni nr. 8 við Ægisgrund er skilgreindur byggingarreitur fyrir bílskúr á mörkum lóðanna Ægisgrundar 8 og 10 og Marargrundar 7 og 9. Býr kærandi máls þessa að Ægisgrund 10.
Tillaga að deiliskipulagsbreytingunni var grenndarkynnt og málsmeðferð hagað í samræmi við 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Kærandi kom ekki athugasemdum á framfæri vegna tillögunnar þar sem hún dvaldist erlendis en á heimili hennar var þó móttekið bréf vegna kynningarinnar.
Ákvörðun skipulagsnefndar um hið breytta skipulag hlaut lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og gerði stofnunin ekki athugasemdir við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist þannig gildi.
Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 gr. 75.4 segir að ákveða megi í skipulagi eða með þinglýstum samningi lóðarhafa að fjarlægð húss frá lóðamörkum geti verið minni en nánar er greint frá í reglugerðinni. Samkvæmt fortakslausu orðalagi greinarinnar er skipulagsyfirvöldum heimilt með deiliskipulagi að víkja frá reglum um fjarlægð frá lóðamörkum og bil milli húsa.
Með hinni kærðu ákvörðun er skilgreindur byggingarreitur fyrir bílskúr. Eigi verður talið að bílskúrinn skeri sig úr gagnvart öðrum bílskúrum á svæði því sem hér um ræðir. Er algengt að á svæðinu séu bílskúrar staðsettir innarlega á lóðum og á lóðarmörkum.
Með vísan til framangreinds verður hvorki séð að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins er ógildingu geti varðað né að með ákvörðuninni hafi verið gengið gegn grenndarhagsmunum kæranda umfram það sem heimilt er.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar Garðabæjar frá 18. ágúst 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grunda og Ása.
___________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir