Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2016 Melgerði

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melgerði 32, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. júní 2016.

Málavextir: Lóðin sem um ræðir er á ódeiliskipulögðu svæði í vesturbæ Kópavogs. Á lóðinni sem er 800 m2 að flatarmáli, stendur einnar hæðar einbýlishús, 127,3 m2 að stærð, þar af er bílskúr 28,5 m2. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, 29. október 2015, var lögð fram umsókn um byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni að Melgerði 34, Kópavogi. Var henni vísað til skipulagsnefndar með skírskotun til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fól umsóknin í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð yrði sólstofa við suðurhlið hússins. Ný íbúð yrði á efri hæð og húsið því tvíbýli eftir breytingu. Heildargólfflatarmál hússins með bílskúr yrði 248,6 m2, eftir breytingu sem væri aukning um 121,3 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31.

Á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015 var umsóknin lögð fram og samþykkt að grenndarkynna tillöguna samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til athugasemda var frá 23. nóvember 2015 til 21. desember s.á. Athugasemdir bárust frá tveimur aðilum, þ. á m. öðrum kærenda. Sneru þær að skuggavarpi sem kæmi til vegna hækkunar hússins að Melgerði 34 og af því tilefni var þeim sem athugasemdir höfðu gert sendar teikningar með tölvupósti 5. janúar 2016 sem sýndu skuggavarp af breyttu húsi. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var tillagan lögð fram að nýju, ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um þær, og hún samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 12. apríl 2016 og var hin kynnta umsókn um byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að gerð hafi verið athugasemd af þeirra hálfu þar sem þeir hafi farið fram á skuggamælingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í ljósi þeirrar mælingar hafi kærendur gert athugasemd þar sem mælingin hafi sýnt fram á að framkvæmdin myndi valda miklu skuggavarpi á vesturhlið fasteignar þeirra og fyrirhugaður sólpallur á lóð þeirra yrði í skugga vegna hækkunar húss leyfishafa. Telji kærendur það óásættanlegt að rýra verðgildi eignar þeirra með aukinni skuggamyndun í garði þeirra, auk þess sem áætlanir kærenda varðandi sólpall væu í uppnámi. Um sé að ræða gamalt og rótgróið hverfi sem kærendum finnist að eigi að halda ásýnd sinni í grófum dráttum. Að bæta heilli hæð ofan á hús telji kærendur valda mikilli röskun á þeirri ásýnd. Því sé borið við að nýting umrædds húss sé ekki í samræmi við önnur hús í hverfinu þar sem það sé aðeins á einni hæð. Í götunni séu þrettán hús á einni hæð og/eða með lítið ris, líkt og húsið að Melgerði 34. Telji kærendur óþarft að rýra eignir annarra til að ná þessari stækkun, enda sé lóðin Melgerði 34 það stór að vel ætti að vera hægt að stækka húsið á annan veg en að bæta við hæð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að umrædd breyting hafi falið í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð sólstofa við suðurhlið hússins að Melgerði 34. Húsinu yrði breytt í tvíbýli með heildarbyggingarmagni 220,1 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31. Þar sem um sé að ræða ódeiliskipulagt svæði hafi byggingarfulltrúi vísað erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi erindið verið grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. mars 2016, hafi sú afgreiðsla verið staðfest af bæjarráði 31. s.m og á fundi bæjarstjórnar 12. apríl s.á.

Á umræddu svæði sé nær eingöngu að finna hús á tveimur til þremur hæðum. Húsið sem standi á lóðinni Melgerði 34 sé eitt af örfáum sem eftir séu á einni hæð. Á svæðinu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall, en meðalnýtingarhlutfall á götureitnum sé 0,28. Eftir breytingu verði byggingarmagn á lóð nr. 34 við Melgerði því ekki umtalsvert meira en það sem sé í götureitnum í dag. Umrædd breyting samrýmist að öllu leyti götumynd og yfirbragði svæðisins. Breytingin muni þó hafa í för með sér einhverja aukningu skuggavarps. Ítarleg könnun á því hafi leitt í ljós að aukið skuggavarp hefði ekki verulega íþyngjandi áhrif á nærliggjandi lóðir.

Kærendur hafi bent á að hækkun hússins muni setja áætlanir þeirra um sólpall sem eigi að ná að mörkum lóðanna nr. 32 og 34 við Melgerði í uppnám. Sé á það bent að samkvæmt f. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa ef skjólveggur eða girðing sé nær lóðarmörkum en 1,8 m. Að auki segi í e. lið sömu greinar að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Samkvæmt framangreindu sé því ekki heimilt að reisa sólpall sem nái alveg að lóðarmörkum lóðar en auk þess þurfi samþykki lóðarhafa Melgerðis 34 ef skjólgirðingu sé ætlað að vera nær lóðarmörkum en 1,8 m. Umrædd breyting muni því ekki hafa veruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Fyrir liggi að mótmæli kærenda við fyrirhugaðar breytingar að Melgerði 34 lúti aðeins að mögulegu skuggavarpi vegna hækkun hússins gagnvart palli sem leyfishafa skiljist að eigi að vera með heitum potti sem ekki sé til staðar og ekkert samþykki sé fyrir.

Tekið sé undir sjónarmið þau sem fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogs, dags. 21. mars 2016, en í 4. lið umsagnarinnar sé á það sé bent að við Melgerði og Borgarholtsbraut séu nær eingöngu hús á tveimur til þremur hæðum. Hús leyfishafa sé eitt örfárra sem aðeins sé á einni hæð. Meðalnýtingarhlutfall í götureitnum sé 0,28, lægst 0,13 að Borgarholtsbraut 47 og hæst 0,39 að Borgarholtsbraut 45, en nýtingarhlutfall á Melgerði 34 sé aðeins 0,16 og verði 0,31 eftir breytingu. Hækkun hússins um eina hæð sé í takt við byggðarmynstur hverfisins, byggingarstíl og hæð húsa. Það að þurfa að þola lítilsháttar skuggavarp kl. 18:00 þegar sólin sé hæst á lofti í júní ár hvert á hluta norðvesturhluta lóðarinnar nr. 32 við Melgerði geti seint talist mjög íþyngjandi og því sé fullyrðingu kærenda mótmælt sem órökstuddri að framkvæmdin muni valda miklu skuggavarpi á vesturhlið lóðar kærenda og að aukið skuggavarp muni rýra verðgildi fasteignar þeirra. Andmæli kærenda við hækkun húss leyfishafa um eina hæð sé óskiljanlegt þegar horft sé til þess að hús kærenda sé kjallari, hæð, ris og þar yfir manngengt ris, en það ris sé ekki í skráðum fermetrafjölda hússins. Nýtingarhlutfall þess húss sé 0,29. Sé á það bent að húsið nr. 28 við Melgerði sé eins og hús nr. 34 en það sé á tveimur hæðum. Steyptur stigi sé í dag í húsi leyfishafa upp á geymsluloft með steyptri plötu, en þar sé ekki ris eins og ranglega sé fullyrt í kæru. Hæsta lofthæð geymsluloftsins sé undir 1,50 m og alveg niður í 0,10 m. Af þessum frágangi verði ráðið að upphaflegur húsbyggjandi hafi í öndverðu ætlað að hafa húsið tveggja hæða eins og húsið við Melgerði 28 en hann af einhverjum ástæðum, e.t.v. vegna fjárskorts, horfið frá því. Þau 13 hús sem nefnd séu í kæru séu flest öll með risi sem í séu svefnherbergi en ekki geymslulofti eins og sé í húsi leyfishafa. Hús í grennd við hús leyfishafa séu flest tveggja hæða eða meira.

Niðurstaða:
Svæði það sem fasteignin Melgerði 34 í Kópavogi tilheyrir hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Svæðið sem um ræðir er fullbyggt og gamalgróið hverfi. Hús sem standa norðan megin við Melgerði, þ. á m. hús leyfishafa, eru á einni til tveimur hæðum og mörg hver með rishæð að auki. Er þau ýmist einbýlishús eða tvíbýlishús. Nýtingarhlutfall á næstu lóðum er allt frá 0,13 til 0,39 og verður nýtingarhlutfall lóðar leyfishafa 0,31 eftir breytingu. Mænishæð hússins verður einnig sambærileg mænishæð húsa á næstu lóðum. Með hliðsjón af því verður húsið eftir breytingu í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Má því ætla skuggavarp frá húsinu á næstu lóðir eftir breytinguna verði ekki annað og meira en gerist og gengur í hverfinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.