Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2012 Láland

Árið 2012, miðvikudaginn 11. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2012, beiðni um úrskurð um hvort framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík séu háðar byggingarleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, fer Ó, Lálandi 14, Reykjavík, fram á að tekin verði afstaða til þess hvort framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland séu háðar byggingarleyfi. 

Málsatvik og rök:  Í deiliskipulagi Fossvogsdals frá árinu 2009 er gert ráð fyrir áningarstað fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14.  Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðarins.  Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru 5-6 m á milli þeirra.  Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur æfingartæki eða líkamsræktartæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.  Ekki var veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða.  Voru framkvæmdirnar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2012 vísaði málinu frá þar sem ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun í málinu.  Málshefjandi fer nú fram á að úrskurðarnefndin skeri úr um það skv. 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki hvort byggingarleyfi þurfi fyrir framkvæmdum sem feli í sér gerð líkamsræktaraðstöðu eins og þá er hér um ræði. 

Borgaryfirvöldum var gefinn kostur á að tjá sig um málið en engar athugasemdir bárust frá þeim. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda þau um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofanjarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr.  Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði. 

Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr.  Jafnframt segir þar að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar skuli undanþiggja byggingarleyfi.  Í 60. gr. laganna segir að ráðherra setji að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem nái til alls landsins þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna.  Í reglugerðinni skuli kveðið á um tiltekin atriði, sem talin eru upp í þrettán tölusettum liðum.  Í 10. töluliðnum segir að í reglugerðinni skuli kveðið á um frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða. 

Í samræmi við framanritað er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði um opin svæði í gr. 7.2.5 og segir þar að til opinna svæða teljist leiksvæði, íþróttasvæði og önnur manngerð svæði sem séu opin almenningi.  Við frágang búnaðar allra opinna svæða skuli þess gætt að öryggi og aðgengi notenda sé sem best tryggt.  Þá segir í gr. 7.1.6 um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki að slík svæði skulu henta til útivistar, hvíldar og leikja og skuli staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfisáhrifa.  Öryggi fólks skuli tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum.  Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gildi ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar og eftir því sem við eigi ákvæði reglugerðar um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlits með þeim. 

Úrskurðarnefndin telur að með ákvæðum þeim sem að framan eru rakin séu settar reglur um frágang útivistarsvæða á vegum sveitarfélaga og að í þeim felist krafa um að minni háttar mannvirki á slíkum svæðum, sem ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif, skuli fullnægja kröfum um öryggi og aðgengi notenda, en það felst í lögbundnu eftirlitshlutverki sveitarfélaganna að gæta þess að þessar kröfur séu uppfylltar.  Hins vegar verður að skilja ákvæði þessi svo að slíkar framkvæmdir séu ekki háðar byggingarleyfi og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það eigi við um æfingartæki eða líkamsræktartæki þau sem um ræðir í máli þessu.  Er þá einnig til þess að líta að ýmsar minniháttar framkvæmdir í húsum og á lóðum eru undanþegnar byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5 í tilvitnaðri byggingarreglugerð, en ekki er þar um tæmandi talningu að ræða. 

Úrskurðarorð: 

Uppsetning æfingar- og líkamsræktartækja þeirra er um ræðir í máli þessu telst ekki byggingarleyfisskyld. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson