Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2010 Vogar, byggingarsvæði

Ár 2010, fimmtudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2010, erindi J vegna moldarfoks frá byggingarsvæði í Vogum á Vatnsleysuströnd. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2010, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, framsendir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir til úrskurðarnefndarinnar ódagsett erindi J, þar sem hann fer fram á að „…fá endanlega niðurstöðu um hvort heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja sé heimilt að hafna rannsókn á meintri mengun er kvartað er yfir í neðangreindum póstum …“

Málavextir og rök:  Hinn 14. maí 2010 barst úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir erindi J vegna moldarfoks frá byggingarsvæði í Vogum á Vatnsleysuströnd og fylgdu því tölvupóstsamskipti hans við heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja og skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga auk fleiri aðila.  Verður af þeim ráðið að Jakob hefur ítrekað kvartað yfir moldarfoki frá byggingarsvæði í Vogum og krafist aðgerða af hálfu heilbrigðisfulltrúa og byggingarfulltrúa til að koma í veg fyrir það. 

Í tölvupósti til kæranda hinn 16. apríl 2010 svaraði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja erindi hans og segir þar að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki valdheimildir til að taka á málinu.  Byggingarlóðir og moldrok af þeim sé alfarið í höndum byggingarfulltrúa og sé kæranda bent á að snúa sér þangað.  Virðist kærandi ekki hafa viljað una þessari niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins og krafðist hann þess að úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnar skæri úr um það hvort heilbrigðisfulltrúa væri heimilt að hafna rannsókn á meintri mengun.  Var það erindi framsent úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir. 

Jafnframt liggur fyrir að kærandi sendi skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga tölvubréf hinn 25. apríl 2010 og kvartaði yfir moldarfokinu.  Svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi erindinu með tölvubréfi hinn 29. apríl 2010 þar sem tekið var fram að byggingarfulltrúa og stjórnendum sveitarfélagsins væri ljós sá vandi sem fælist í foki lausra jarðefna af umræddu svæði og hafi verið lagt fyrir eiganda landsins að grípa til viðeigandi aðgerða til að hefta fokið.  Lítill árangur hafi verið af aðgerðum hans en sveitarfélagið muni hefja vinnu við uppgræðslu þeirra svæða sem rofin hafi verið og sé þess vænst að við það dragi úr fokinu, en allt taki þetta tíma.  Kærandi svaraði tölvubréfi þessu hinn 30. apríl 2010 og krafðist tafarlausra úrbóta. 

Skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga hefur upplýst að ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í tilefni tölvupósta kæranda vegna moldarfoks frá Grænuborgarsvæði.  Ekki liggi heldur fyrir neitt óafgreitt erindi vegna þess og hafi erindi kæranda verið svarað á fullnægjandi hátt. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Erindi það sem úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir framsendi úrskurðarnefndinni til úrlausnar laut að því að fá skorið úr um réttmæti þeirrar afstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að taka erindi kæranda ekki til meðferðar.  Að því gefnu að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða þá átti það úrlausnarefni ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Tók erindið ekki til neinnar ákvörðun á grundvelli skipulags- og byggingarlaga og verður hinu framsenda erindi því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Í máli þessu eru jafnframt áhöld um valdmörk stjórnvalda á lægra stjórnsýslustigi.  Þau álitaefni koma hins vegar ekki úrlausnar úrskurðarnefndarinnar, enda liggur ekki fyrir í málinu kæranleg ákvörðun, tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, er borin verði undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað í heild frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson