Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2008 Barmahlíð

Ár 2008, fimmtudaginn 27. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 50/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 um synjun byggingarleyfis fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum.    

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Ó, Barmahlíð 54 Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008 að synja um byggingarleyfi fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð.  Borgarráð staðfesti umrædda ákvörðun hinn 17. júlí 2008.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Kærandi hefur jafnframt í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki fyrrgreindrar fasteignar og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði fyrstu hæðar innan 30 daga að viðlögðum dagsektum svo sem greinir í hinni kærðu ákvörðun.  Er sú krafa gerð að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.  Þar sem kæruefnin tengjast sömu málsatvikum verður síðarnefnda kærumálið, sem er nr. 51/2008, sameinað máli nr. 50/2008. 

Málavextir:  Forsaga þessa máls er sú að í apríl 2007 barst embætti byggingarfulltrúa erindi þess efnis að yfir stæðu óleyfisframkvæmdir við fasteignina að Barmahlíð nr. 54.  Verið væri að saga í sundur svalahandrið til að komast út á þak bílskúrs við hlið hússins.  Ætlunin væri að setja upp skjólvegg og nýta þakið sem svalir eða sólverönd.  Kæranda barst bréf byggingarfulltrúa, dags. 18. apríl 2007, þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda enda um óleyfisframkvæmdir að ræða.  Var kærandi með bréfinu krafinn skýringa innan 14 daga og bent á úrræði byggingaryfirvalda í tilefni af óleyfisframkvæmdum. 

Í kjölfar þessa sendi kærandi inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort leyft yrði að setja upp festingar fyrir færanlegan skjólvegg og handrið á bílskúrsþak að Barmahlíð 54, sem aðeins yrði notaður á tímabilinu frá apríl til október, ásamt færanlegri brú af bílskúrsþaki að svölum á suðvesturhlið 1. hæðar fjölbýlishússins á lóðinni.  Var erindið tekið fyrir á fundi embættisins hinn 8. maí 2007 og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Af hans hálfu var ekki gerð athugasemd við erindið svo framarlega sem samþykki meðlóðarhafa og lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi fyrir og sótt yrði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem yrðu grenndarkynntar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. ágúst 2007 var tekin fyrir ný fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir timburtengibrú á milli svala 1. hæðar og þaks bílgeymslu, auk timburtröppu frá þaki bílgeymslu og niður í garð umræddrar lóðar.  Jákvætt var tekið í fyrirspurnina með sömu fyrirvörum og við afgreiðslu fyrri fyrirspurnar. 

Í aprílmánuði 2008 sendi byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem m.a. kom fram að engin byggingarleyfisumsókn fyrir umræddum framkvæmdum hefði borist og við skoðun 16. apríl 2008 hefði komið í ljós að búið væri að framkvæma öll þau atriði sem fyrirspurnir kæranda hefðu lotið að þrátt fyrir stöðvunarbréf byggingarfulltrúa frá 18. apríl 2007.  Í bréfinu var og tekið fram að borist hefði bréf lögmanns eigenda 1. og 2. hæðar að Barmahlíð 52 þar sem krafist væri að handrið á þaki bílgeymslunnar að Barmahlíð 54 yrði fjarlægt.  Fullljóst mætti telja að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 fengist ekki fyrir umdeildum framkvæmdum en það væri grundvallarforsenda fyrir því að unnt væri að samþykkja byggingarleyfisumsókn um handriði á þaki bílgeymslunnar.  Í bréfinu var loks upplýst um fyrirhugaða tillögu þess efnis að kæranda verði gert að koma hlutum í fyrra horf að viðlögðum dagsektum. 

Hinn 6. maí 2008 tók byggingarfulltrúi fyrir fyrirspurn kæranda um hvort leyfi fengist fyrir handriði á þaki bílgeymslu ásamt tengingu inn á svalir 1. hæðar með brú og tröppum niður í garð fasteignarinnar að Barmahlíð 54.  Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem bókaði eftirfarandi á embættisafgreiðslufundi sínum þann 16. maí 2008:  ,,Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið með þeim fyrirvörum að ekki er tekin afstaða til útlits samkvæmt fyrirspurnarteikningum. Útlit handriðs þarf að samræmast byggingarstíl hússins og vinnast í samstarfi við skipulagsstjóra. Samþykki allra meðlóðarhafa skal liggja fyrir þegar sótt verður um byggingarleyfi auk samþykkis lóðarhafa að Barmahlíð 52. Byggingarleyfi verður grenndarkynnt þegar það berst.“  Byggingarfulltrúi tók erindið síðan fyrir á fundi sínum hinn 20. maí 2008 og bókaði:  ,,Samkvæmt umsögn skipulagsstjóra er tekið jákvætt undir fyrirspurnina enda liggi fyrir samþykki nágranna í Barmahlíð 52. Fyrir liggur bréf lögmanns eigenda Barmahlíðar 52. Þar kemur fram algjör andstaða við erindið. Í því ljósi er ekki unnt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi, verði hún lögð fram. Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“ 

Enn gerði kærandi fyrirspurnir til byggingarfulltrúa varðandi brúargerð frá svölum yfir á bílskúrþak og þaðan niður í garð að Barmahlíð 54 og var tekið jákvætt í málið á fundi byggingarfulltrúa hinn 10. júní 2008 með fyrirvara um samþykki meðlóðarhafa og um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar ef til kæmi. 

Var byggingarleyfisumsókn kæranda fyrir brú af svölum íbúðar á fyrstu hæð yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð hússins að Barmahlíð 54, tekin fyrir af byggingarfulltrúa hinn 24. júní 2008.  Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum hinn 4. júlí 2008 með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Var málið á dagskrá byggingarfulltrúa hinn 8. júlí 2008 og eftirfarandi bókað:  ,,Samþykki lóðarhafa í Barmahlíð 52 liggur ekki fyrir vísað er til bókunar byggingarfulltrúa á afgreiðslufundi þann 20. maí 2008 en þar sagði: Er fyrirspyrjanda uppálagt að framvísa samþykki eigenda Barmahlíðar 52 innan 14 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa halda áfram áður boðuðum aðgerðum.“  Var umsókninni svo synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með svohljóðandi bókun:  „Enn vantar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar í Barmahlíð 52 en það er forsenda þess að samþykkja megi málið. Er vísað til fyrri bókana skipulags- og byggingarsviðs vegna þessa.“ 

Á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2008 var síðan samþykkt tillaga byggingarfulltrúa um að kæranda yrði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmdir á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð að viðlögðum dagsektum.  Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 17. júlí 2008 og fól hún í sér að kæranda var boðið að:  ,,Fjarlægja handrið og göngubrú af bílgeymsluþaki og tréstiga við suðurgafl bílgeymslunnar á lóðinni nr. 54 við Barmahlíð og jafnframt að steypa í og múrhúða op á svalahandriði 1. hæðar. Tímafrestur 30 dagar og dagsektir kr. 10.000 á dag og kr. 5.000 vegna viðgerða á handriði.“ 

Hefur kærandi nú skotið hinum umdeildum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram með byggingarleyfisumsókn og undirskriftir fjölda íbúa í aðliggjandi húsum sem staðfesti að engar athugasemdir yrðu gerðar ef umrætt byggingarleyfi yrði veitt.  Jafnframt hafi verið lagðar fram myndir sem sýndu svipaðar framkvæmdir víðs vegar í Hlíðahverfi og annars staðar í Reykjavík.  Málið virðist stranda á andstöðu einnar konu í húsinu við Barmahlíð nr. 52, án þess að umrædd kona hafi fært fram nein efnisleg rök sem ættu að verða til þess að byggingarfulltrúi geti ekki grenndarkynnt umsóknina. 

Kærandi hafi skotið synjun byggingarfulltrúa á umsóttum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar og þar sem það mál hafi ekki fengið úrlausn hjá nefndinni geri kærandi þá kröfu að ákvörðun um þvingunarúrræði samkvæmt 56. og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga verði felld úr gildi en ella að réttaráhrifum dagsektarákvörðunar verði frestað þar til úrskurðarnefndin hafi fjallað efnislega um málið. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda verði staðfest.  Þá er þess krafist að kæru vegna dagsektarákvörðunar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hún standi óhögguð. 

Barmahlíð nr. 54 sé á ódeiliskipulögðu svæði.  Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 komi fram að þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir skuli skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hljóti afgreiðslu byggingarnefndar.  Í 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa.  Andstaða íbúa Barmahlíðar 52 við umrædda girðingu á lóðamörkum komi ein og sér í veg fyrir að byggingarleyfisumsókn kæranda verði grenndarkynnt.  Forsenda þeirrar grenndarkynningar sé að fyrir liggi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sé um að ræða framkvæmd á lóðamörkum, ásamt samþykki meðeigenda á grundvelli laga um fjöleignarhús.  Vert sé að taka fram að kæranda hafi verið kunnugt um allan feril málsins og að samþykki aðliggjandi lóðarhafa væri fortakslaust skilyrði þess að byggingarleyfi fengist ef um væri að ræða framkvæmd á lóðamörkum. 

Kærandi hafi ráðist í framkvæmdirnar án byggingarleyfis.  Fram komi í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Einnig komi fram í 1. mgr. 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Borgarar geti þó ekki vænst þess að öðlast rétt á grundvelli jafnræðis eigi slíkur réttur sér ekki lagastoð. 

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 úrskurði úrskurðanefnd skipulags- og byggingarmála í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í VI. kafla þeirra laga sé fjallað um þvingunarúrræði og viðurlög og kveði 57. gr. á um að sinni aðili ekki fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan þess frests sem sveitarstjórn setji geti hún ákveðið dagsektir þar til úr verði bætt.  Hámark þeirra sekta sé ákveðið í byggingarreglugerð og renni þær í sveitarsjóð.  Í 1. mgr. 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 komi fram að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdina tafarlaust og síðan skuli hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Óumdeilt sé að kærandi hafi ekki haft byggingarleyfi þegar hann hafi ráðist í umræddar framkvæmdir og því ekki um að ræða ágreining á sviði skipulags- og byggingarlaga.  Því megi leiða líkur að því að ákvörðun um álagningu dagsekta sé ekki kæranleg. 

Hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé eftir atvikum að staðfesta ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda eða fella þær úr gildi en ekki breyta þeim ákvörðunum.  Nefndin sé ekki hefðbundið æðra stjórnvald sem breytt geti ákvörðunum lægra setts stjórnvalds að vild eins og eigi við um skipulagsráð Reykjavíkur þegar til þess sé skotið embættisafgreiðslum skipulagsstjóra eða byggingarfulltrúa.  Ef úrskurðanefndin telji sig geta afnumið umræddar dagsektir ætti hún einnig að geta lækkað sektir eða hækkað að eigin mati.  Á slíkt verði ekki fallist og því sé ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar nái ekki yfir álitaefnið. 

Reykjavíkurborg minni á þá meginreglu, sé það afstaða úrskurðarnefndarinnar að kæra vegna álagningar dagsekta eigi undir hana, að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, svo sem um dagsektir, sbr. 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Undantekning sé á þeirri meginreglu í 2. mgr. þeirrar greinar, mæli veigamiklar ástæður með því.  Þegar ákvörðun sé tekin um hvort fresta eigi réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar verði að leggja heildstætt mat á þau andstæðu sjónarmið sem takist á.  Í þessu tilfelli grenndarsjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem sé ósamþykkur framkvæmdinni og sjónarmið kæranda sem ráðist hafi í og kostað framkvæmd án byggingarleyfis.  Í fyrirliggjandi bréfi húsfélagsins Barmahlíð 52 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur, dags. 8. ágúst 2007, séu sjónarmið íbúa tíunduð á þessa leið: 

,,Niðurstaða húsfélagsfundar Húsfélagsins Barmahlíð 52 þann 18. júlí s.l. er að við mótmælum enn og aftur harðlega öllum þessum áðurnefndum framkvæmdum, þ.e. útsöguðu opi í steyptar svalir B. 54 til vesturs og ítrekað er að enginn áhugi er á því að þak bílskúrsins verði notað sem verönd/svalir eða til annarra sambærilegra hluta. Ástæðurnar eru þessar:
Burðarþol. Bílskúrarnir liggja saman og eru alls ekki byggðir með það í huga að bæta við viðbyggingu eða öðru sambærilegu ofan á þá. Bygging ofan á bílskúr Barmahlíðar 54 mun hafa áhrif á bílskúr Barmahlíðar 52.
Útlit. Þar sem þessi fyrirhugaða framkvæmd mun liggja að eign Barmahlíðar 52 mun það st[i]nga í stúf við núverandi og upprunalegt útlit eignarinnar, en þetta eru gamlar og góðar byggingar. Einnig mun þetta skemma götumyndina.
Birta. Bygging eða viðbót á skúr. Rýrir til muna birtu og sól úr austri suðaustri inn í íbúð Barmahlíðar 52.
Útsýni. Bygging á bílskúr eða færanleg verönd rýrir alveg útsýni úr íbúðum til austurs 1.h. Barmahlíðar 52. Bæði úr stofu og eins úr eldhúsi. Hið sama gera háir stórir lausir kassar sem raðað er upp sem einhvers konar handrið sbr. nú í dag, en einnig geta þeir reynst hættulegir svona lausir.
Hávaði. Bílskúr og hugsanleg bygging á honum er á lóðarmörkum og liggur að/á bílskúr íbúðar Barmahlíðar 52. Bygging eða svalir að lóðarmörkum mun auka hávaðamengun inn í eignir Barmahlíðar 52.“ 

Reykjavíkurborg telji að sjónarmið lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegi þyngra en sjónarmið kæranda og sé því gerð sú krafa að ekki verði fallist á frestun réttarhrifa dagsektaákvörðunarinnar. 

Það sé afstaða Reykjavíkurborgar að í fyrirliggjandi máli hafi ekki verið unnt að grenndarkynna áður gerða óleyfisframkvæmd þar sem samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 hafi ekki legið fyrir.  Því hafi byggingarfulltrú ekki átt annan kost en að beita kæranda þeim þvingunarúrræðum sem honum séu heimil skv. 56. gr. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Niðurstaða:  Umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda var tekin fyrir hjá byggingarfulltrúa 24. júní 2008 og var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar.  Erindið var svo tekið fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 4. júlí 2008 og því frestað með þeim rökum að samþykki lóðarhafa að Barmahlíð 52 lægi ekki fyrir.  Í kjölfar þess tók byggingarfulltrúi málið fyrir hinn 8. júlí 2008 þar sem ítrekað var að samþykki lóðarhafa Barmahlíðar 52 lægi ekki fyrir og kæranda gefinn kostur á að afla þess innan 14 daga.  Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. júlí 2008 með vísan til þess að enn lægi ekki fyrir fyrrgreint samþykki en það væri forsenda þess að unnt væri að fallast á erindið og var jafnframt skírskotað til fyrri bókana vegna málsins. 

Þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir skal skipulagsnefnd fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en það hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint lagaákvæði átti við um byggingarleyfisumsókn kæranda. 

Þegar byggingarleyfisumsóknin var afgreidd hafði lögmælt grenndarkynning ekki farið fram og málið ekki fengið efnislega umfjöllun og afgreiðslu skipulagsyfirvalda.  Þá verður ekki ráðið af bókunum skipulags- og byggingaryfirvalda sem fjölluðu um málið hvaða lagarök stæðu að baki þeirri forsendu að samþykki lóðarhafa að Barmahlið 52 þyrfti að liggja fyrir áður en málið fengi frekari framgang.  Leiða þessir annmarkar á málsmeðferð og rökstuðningi ákvörðunarinnar til þess að fallist verður á kröfu kæranda um ógildingu á afgreiðslu umræddrar byggingarleyfisumsóknar. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga á sviði skipulags- og byggingarmála.  Hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að færa ástand umræddrar fasteignar í fyrra horf að viðlögðum dagsektum er gerð með stoð í þvingunarúrræðum 56. og 57. gr. laganna. 

Ekki liggja fyrir lögskýringarsjónarmið eða önnur rök er hníga að því að skýra fyrrnefnda 8. gr. greindra laga með þeim hætti að umræddar stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga falli utan úrskurðarvalds úrskurðarnefndarinnar og hefur nefndin í fyrri kærumálum fjallað efnislega um lögmæti slíkra ákvarðana.  Eru því ekki efni til að vísa frá nefndinni þeim kærulið er lýtur að ákvörðun borgarráðs um beitingu þvingunarúrræða 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Umdeildar breytingar kæranda á fasteigninni að Barmahlíð 54 eru byggingarleyfisskyldar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggur að kærandi aflaði sér ekki byggingarleyfis fyrir framkvæmdunum og lauk þeim raunar þrátt fyrir framkvæmdabann byggingarfulltrúa.  Ákvörðun borgarráðs um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja óleyfisframkvæmdirnar að viðlögðum dagsektum var því í samræmi við heimildir 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og ekki liggur fyrir í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þeirrar ákvörðunar.  Verður því ekki fallist á ógildingu ákvörðunarinnar. 

Afgreiðsla umsóknar kæranda um leyfi fyrir umræddum framkvæmdum var kærð án ástæðulauss dráttar til úrskurðarnefndarinnar og málið hefur síðan verið til meðferðar hjá nefndinni.  Að þessu virtu, og þegar litið er til þess að hin kærða afgreiðsla á byggingarleyfisumsókn kæranda hefur í máli þessu verið felld úr gildi, þykir rétt, með hliðsjón af 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fresta réttaráhrifum umræddrar ákvörðunar borgarráðs frá móttöku kæru til úrskurðardags í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júlí 2008, sem staðfest var í borgarráði hinn 17. júlí s.á., um að synja byggingarleyfisumsókn fyrir brú af svölum íbúðar að Barmahlíð 54 í Reykjavík yfir á þak bílskúrs og gerð þaksvala þar, með stiga niður í garð á nefndri lóð. 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 17. júlí 2008 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja og færa til fyrra horfs tilgreind mannvirki innan 30 daga, að viðlögðum dagsektum sem í ákvörðuninni greinir, en réttaráhrifum ákvörðunarinnar er frestað frá 29. júlí 2008 til 27. nóvember 2008. 

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

________________________________         _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson