Ár 2004, þriðjudaginn 20. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 50/2003, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 22. maí 2003 um endurnýjun vínveitingaleyfis fyrir Halldórskaffi, Vík.
Í málinu er nú kveðin upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2003, er barst nefndinni með símbréfi sama dag og með pósti hinn 12. september 2003, kærir J, veitingamaður á Hótel Lunda, Vík ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 22. maí 2003 um endurnýjun vínveitingaleyfis fyrir Halldórskaffi, Vík.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps hinn 22. maí 2003 var lagt fram bréf Ágústs Freys Bjartmarssonar f.h. Undanfara ehf., rekstraraðila Halldórskaffis í Vík, dags. 28. apríl 2003, um endurnýjun vínveitingaleyfis vegna Halldórskaffis. Upphaflegt vínveitingaleyfi var útgefið af sveitarstjóra Mýrdalshrepps hinn 21. maí 2001. Fyrir áðurgreindum fundi sveitarstjórnar lágu jákvæðar umsagnir skipulags- og byggingarnefndar, lögreglustjóra og heilbrigðiseftirlits vegna umsóknarinnar sem og sjónarmið kærenda til hennar. Sveitarstjórn samþykkti að verða við umsókninni og skyldi leyfið til áfengisveitinga gilda í fjögur ár. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. 23. maí 2003.
Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar Mýrdalshrepps skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið.
Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir því að leyfi til áfengisveitinga hafi verið veitt fyrir Halldórskaffi í Vík og heldur því fram í bréfi til sveitarstjórnar, dags. 12. maí 2003, að rekstur skemmtistaðar eða kráar í húsnæði Halldórskaffis sé ekki í samræmi við gildandi skipulag svæðisins. Samkvæmt skipulagi Mýrdalshrepps sé svæðið sem Hótel Lundi og Halldórskaffi standi á skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði. Kærandi telur að sú ráðstöfun að taka húsnæðið sem Halldórskaffi sé í undir rekstur safns eða kaffihúss gangi ekki gegn því skipulagi, en öðru máli gegni um skemmtistað eða krá sem sé opin til kl. 2 eftir miðnætti og um helgar. Slíkt hljóti að teljast breytt notkun húsnæðisins sem skylt sé að grenndarkynna, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Kærandi gerir og athugasemdir við útgáfu vínveitingaleyfisins þar sem ónæði stafi af viðskiptavinum Halldórskaffis um nætur þegar gestir á Hótel Lundi vilji njóta friðar og hvíldar. Nálægð Halldórskaffis og Hótels Lunda sé mjög mikil og þessi rekstur fari illa saman.
Málsrök sveitarstjórnar Mýrdalshrepps: Af hálfu sveitarstjórnar er tekið fram að hún, sem lægra sett stjórnvald, telji sig ekki eiga beina aðild að kærumálinu þar sem það varði hvorki sértæka né lögvarða hagsmuni sveitarfélagsins. Telji úrskurðarnefndin að sveitarfélagið eigi beina aðild er því haldið fram að vísa beri málinu frá þar sem það eigi ekki undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ekki liggi fyrir neinn ágreiningur um skipulags- eða byggingarmál í skilningi laganna.
Verði ekki fallist á ofangreint er því haldið fram af hálfu sveitarfélagsins að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði talið að hún eigi við um málsatvik.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um framlengingu vínveitingaleyfis vegna Halldórskaffis í Vík en upphaflegt vínveitingaleyfi var gefið út hinn 21. maí 2001 og gilti í tvö ár. Af hálfu sveitarfélagsins er sett fram krafa um frávísun málsins.
Við undirbúning ákvörðunarinnar aflaði sveitarstjórn sér umsagnar lögreglustjóra, heilbrigðiseftirlits og skipulags- og byggingarnefndar svo sem lögskylt er, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1998.
Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál. Í máli þessu liggur fyrir að veitingastarfsemi hefur verið rekin í húsnæði Halldórskaffis í a.m.k. þrjú ár áður en hin kærða ákvörðun var tekin, með leyfi frá viðkomandi yfirvöldum, sbr. starfsleyfi veitingastaðarins, dags. 19. júní 2000, og veitingaleyfi sýslumannsembættisins í Vík, dags. 5. júní 2000. Ákvörðun sveitarstjórnar laut því ekki að breyttri notkun húsnæðisins og var ekki skipulagsákvörðun í skilningi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur einvörðungu ákvörðun um framlengingu vínveitingaleyfis. Í 29. gr. áfengislaga nr. 75/1998 segir að heimilt sé að bera ákvarðanir sveitarstjórnar samkvæmt þeim lögum undir úrskurðarnefnd um áfengismál sem úrskurðar um ágreininginn. Í málinu liggur fyrir að kærandi hafi einnig skotið ákvörðun sveitarstjórnar til þeirrar nefndar.
Samkvæmt framansögðu sætir umrædd ákvörðun ekki kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og er máli þessu vísað frá nefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir