Mál nr. 5/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Valgerður Dís Valdimarsdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 5/2011 Íris Helga Valgeirsdóttir, Dalsbrún 25, Hveragerði, gegn sýslumanninum á Selfossi.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
I. Aðild kærumáls og kröfur
Með stjórnsýslukæru, dags. 21. mars 2011, kærði Sigurður Jónsson, hrl., f.h. Írisar Helgu Valgeirsdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun sýslumannsins á Selfossi (hér eftir nefndur kærði) frá 16. mars 2011 þess efnis að aflífa skuli rottweilartíkina Chrystel. Krefst kærandi, sem er eigandi hundsins, þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
II. Málmeðferð
Kæra málsins er dagsett 21. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst úrskurðarnefndinni frá kæranda þann 28. mars 2011. Jafnframt því að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar kærði kærandi ákvörðun kærða til innanríkisráðuneytisins. Þann 29. mars 2011 framsendi innanríkisráðuneytið málið til úrskurðarnefndarinnar. Þann 7. apríl 2011 var af hálfu kæranda sett fram krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Þeirri kröfu var hafnað í úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 5. maí 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru máls þessa með bréfi, dags. 6. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans. Greinargerð, dags. 19. apríl 2011, barst frá kærða og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Kærandi gerði athugsemdir, dags. 4. maí 2011, við greinargerð kærða og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 6. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.
III. Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins beit hundur sá sem mál þetta varðar, þann 4. mars 2011, konu til blóðs er hún kom að húsi því er kærandi bjó í í Hveragerði. Þegar atburðurinn gerðist var hundurinn bundinn fyrir utan húsið og lá taumurinn inn í gegnum bréfalúgu á heimili kæranda. Atburðurinn var tilkynntur lögreglu og kom lögregla á vettvang. Er atburðurinn gerðist var dýraeftirlitsmaður Hveragerðisbæjar vant við látinn, svo á vettvangi kynnti lögreglumaður kæranda að fjarlægja þyrfti hundinn og koma honum í vistun þar til annað yrði ákveðið. Ók kærandi, í fylgd lögreglu, með hundinn í vistun að Byggðarhorni. Lögregla tók skýrslur af aðilum málsins og leitaði upplýsinga frá dýraeftirlitsmanni Hveragerðisbæjar. Á grundvelli heimildar í b-lið 10. töluliðs 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ nr. 555/2007 var leitað álits héraðsdýralæknis, auk þess sem fallist var á beiðni kæranda um að hundurinn færi í skapgerðarmat hjá Birni St. Árnasyni hundaatferlisráðgjafa. Eftir að álit héraðsdýralæknis og álitsgerð á grundvelli atferlisskoðunar Björns St. Árnasonar hundaatferlisráðgjafa og Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis lágu fyrir tók kærði þá ákvörðun að aflífa skyldi hundinn. Þegar kæranda var tilkynnt sú ákvörðun kvaðst hann ætla að leita til æðra setts stjórnvalds og ákvað kærði að fresta aflífun hundsins að sinni. Hundinum, sem þá hafði verið í gæslu Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis og Björns St. Árnasonar hundaatferlisráðgjafa, var komið fyrir á hundahóteli að Arnarstöðum og sá dýraeftirlitsmaður Hveragerðisbæjar um að flytja hundinn þangað. Þann 3. maí hvarf hundurinn af hundahótelinu á Arnarstöðum og hefur lögreglu ekki tekist að hafa upp á honum.
IV. Málstæður og rök kæranda
Í rökstuðningi kæranda fyrir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi segir að í fyrsta lagi sé ekki sannað að tíkin Chrystel sé hættuleg. Niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggst á mati héraðsdýralæknis, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram sem útlokaði að hundurinn gæti bitið mann aftur og að það væri álit héraðsdýralæknisins að aflífa skuli hunda í slíkum tilvikum. Heldur kærandi því fram að þetta álit héraðsdýralæknisins sé almennt og sett fram án þess að héraðsdýralæknirinn hafi sjálfur skoðað hundinn. Kærandi telur að kærði geti ekki stuðst við mat héraðsdýralæknisins þar sem fyrir liggi álit annarra sérfræðinga sem allir hafi skoðað eða meðhöndlað hundinn og gangi álit þeirra gegn niðurstöðu héraðsdýralæknisins. Kveður kærandi að með tilgreindum álitum hafi verið sýnt fram á að umræddur hundur sé alls ekki hættulegur þrátt fyrir atburðinn þann 4. mars 2011 er hann beit konu fyrir utan heimili kæranda.
Þá heldur kærandi því fram að fella eigi hina kærðu ákvörðun úr gildi á þeirri forsendu að kærði, sýslumaðurinn á Selfossi, hafi ekki verið bær til að taka ákvörðunina. Vísar kærði í því sambandi til a-liðar 10. töluliðar 2. gr., 4. gr. og 6. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerði, svo og 26., 28. og 29. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, og segir að hvergi sé að finna heimild sýslumanns til þess að taka ákvörðun um að aflífa hund. Heldur kærandi því fram að slíka ákvörðun megi ekki taka nema með dómsúrskurði. Vísar kærandi þessu til hliðsjónar til málsmeðferðarreglna í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002.
Kærandi heldur því einnig fram að ekki sé réttlátt að hundurinn þurfi að gjalda fyrir mistök eigenda sinna með lífi sínu og að með því sé gengið út fyrir almennt meðalhóf, þar sem vægari aðgerðir hljóti að vera tiltækar. Enn fremur bendir kærandi á að tjónþolinn hafi ekki gert kröfu um að hundurinn verði aflífaður og loks að það muni valda kærandi umtalsverðum fjárhagslegum skaða ef hundurinn yrði aflífaður, þar sem hann hafi verið fluttir til Íslands frá Bandaríkjunum í því skyni að stunda ræktunarstarf og séu umtalsverðir fjármunir á bak við það að kaupa hundinn og flytja hann til Íslands.
V. Málsástæður og rök kærða
Kærði kveður hina kærðu ákvörðun vera grundvallaða á 10. lið 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ, sbr. 29. gr. lögreglusamþykktar Hveragerðisbæjar frá 11. júlí 2009.
Varðandi atburðinn 4. mars 2011, sem málið varðar, kveður kærði að bitið hafi verið fast og djúpt og segir jafnframt að sú hegðun hundsins að reyna, um leið og hann beit, að draga fórnarlambið niður geri það að verkum að málið verði að teljast mjög alvarlegt. Hundurinn hafi ekki eingöngu verið að glefsa í fórnarlambið heldur hafi reynt að draga það niður af eðlislægri hvöt til að yfirbuga það.
Kærði heldur því fram að mat héraðsdýralæknis styðji ákvörðun hans og bendir á að þegar matið hafi verið unnið hafi ekki legið fyrir upplýsingar, sem síðar hafi komið fram, þess efnis að hundurinn hafi áður bitið eða glefsað. Sú staðreynd styðji niðurstöðu héraðsdýralæknis og jafnframt hina kærðu ákvörðun.
Þá bendir kærði á að ekki hafi verið leyfi fyrir hundinum þegar atburðurinn 4. mars 2011 átti sér stað, auk þess sem hann hafi ekki verið vátryggður, eins og samþykkt Hveragerðisbæjar kveði á um að gera skuli. Jafnframt kveður kærði að dýralæknir sem haft hafi afskipti af hundinum hafi tjáð að hundurinn gegndi ekki nafni, að hann þekki ekki nafn sitt og að fyllsta ástæða kynni að vera fyrir hendi að hundurinn sýndi endurtekna hegðun í umsjá eiganda síns.
VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar
Í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um samþykktir sveitarfélaga. Þar segir m.a. í 1. mgr. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar hefur verið sett samþykkt fyrir hundahald í Hveragerðisbæ nr. 555/2007. Í 29. gr. lögreglusamþykktar fyrir Hveragerði nr. 579/2007 er tekið fram að sérstök samþykkt gildi um hunda- og kattahald í Hveragerði og er vísað til hennar um þau atriði.
Í a- og b-lið 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ segir:
?a. Sá sem verður fyrir biti skal strax leita læknis. Ef hundur bítur mann getur eigandi átt von á kæru frá þeim bitna eða aðstandanda hans. Heimilt er að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bítur, sbr. þó ákvæði 8. greinar reglugerðar nr. 1077/2004.
b. Hundaeiganda er þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin sbr. 10.a.?
Tilvísað ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 1077/2004 varðar hver megi annast aflífun dýra.
Í 4. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ segir að eftirlitsmaður með dýrum í Hveragerðisbæ annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í Hveragerði í umboði bæjarstjórnar og heilbrigðisnefndar og geti hann leitað aðstoðar heilbrigðiseftirlits og lögregluyfirvalda, þegar þörf krefur.
Af ákvæði a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ leiðir að stjórnvöldum er heimilt að taka ákvörðun um að aflífa hund sem telst hættulegur eða hefur bitið. Í ákvæðinu er ekki tekið fram hvaða stjórnvald skuli taka ákvörðunina, en samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar annast dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins framkvæmd og eftirlit með hundahaldi í Hveragerði og getur hann í því sambandi leitað aðstoðar heilbrigðiseftirlits og lögregluyfirvalda.
Þann 4. mars sl. þegar hundur sá sem mál þetta varðar beit konu fyrir utan heimili kæranda í Hveragerði var lögregla kölluð á staðinn. Dýraeftirlitsmaður bæjarfélagsins var vant við látinn þegar atburðurinn átti sér stað og gekk lögregla því inn í hlutverk hans samkvæmt heimild í 4. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ og sá m.a. til þess að hundinum yrði komið fyrir í vistun. Lögreglan annaðist síðan málið, hvort tveggja rannsóknarþátt þess og þann þátt sem laut að hundinum og ákvæðum samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ. Við það starf hafði lögreglan m.a. samstarf við dýraeftirlitsmann Hveragerðisbæjar.
Þar sem hvergi er tilgreint berum orðum í samþykkt um hundahald í Hveragerðisbæ hvaða stjórnvald fari með ákvörðunarvald um það hvort aflífa skuli hund á grundvelli a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktarinnar og þar sem dýraeftirlitsmanni bæjarfélagsins er þar falið að annast framkvæmd og eftirlit með hundahaldi og honum veitt heimild til þess að leita aðstoðar lögregluyfirvalda í því sambandi, telur úrskurðarnefndin að lögreglustjórinn á Selfossi hafi, eins og mál þetta er vaxið, verið bær til að taka ákvörðun um hvort aflífa skyldi hund þann sem mál þetta varðar. Telur úrskurðarnefndin að ákvæði 26. gr., 28. gr. og 29. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem kærandi vísar til og eru í VI. kafla laganna, sem varðar valdsvið og þvingunarúrræði, breyti engu um þá niðurstöðu. Þá telur úrskurðarnefndin að nefndin sé bær aðili til að leysa úr þeim ágreiningi sem uppi er á milli málsaðila á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Í fyrirliggjandi áliti héraðsdýrlæknis, sem dagsett er 16. mars 2011, segir m.a.:
,,Álit héraðsdýralæknis
Í skapgerðarmati kemur fram að hundurinn gæti að öðru óbreyttu bitið aftur, en mögulegt væri að þjálfa hundinn þannig upp svo hann sýndi ekki þessa ríku varnaráráttu aftur og þá að því tilskildu að hundurinn væri aldrei í bandi fyrir utan húsið og aldrei eftirlitslaus.
Í skýrslunni kemur einnig fram að hundurinn hafi ekki ?fengið neina formlega þjálfun né uppeldi sem er algjört grundvallaratriði með hunda af þessari tegund, stærð og uppruna? Hanna María dýralæknir tjáði mér munnlega að tíkin þekkti ekki nafnið sitt, þrátt fyrir að vera orðin 16 mánaða gömul.“
Enn fremur segir í álitinu:
,,Héraðsdýralæknir leitaði einnig upplýsinga hjá Hrund Lárusdóttur eftirlitsdýralækni í Reykjavík, en hún annaðist opinbert eftirlit með hundunum í innflutningi. Hún segir að hundarnir hafi greinilega ekki verið mannvanir og t.d. hafi ekki verið hægt að klappa þeim.“
Niðurstaða héraðsdýralæknis er:
,,Að mati héraðsdýralæknis hefur ekkert komið fram sem útilokar að Rottveilertíkin ?Christel? geti bitið mann aftur. Einhver tiltekin framtíðarþjálfun og ríkt framtíðareftirlit breytir engu um þá niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að hundurinn bíti aftur. Það er sömuleiðis álit héraðsdýralæknis að aflífa skuli hunda í tilvikum sem þessum.“
Í fyrirliggjandi álitsgerð Björns St. Árnasonar, hundaatferlisráðgjafa og Hönnu M. Arnórsdóttur, dýralæknis, dags. 10. mars 2011, sem aflað var vegna atburðarins þann 4. mars sl. segir m.a.: ,,Sú aðstaða, sem Christel var í þegar þessi atburður á sér stað, getur að miklu leyti skýrt hegðun hennar, og er það fyrst og fremst eigendur hennar sem bera ábyrgð á því. Árásin sem hún gerir er þó líka úr öllu samhengi við það sem eðlilegt getur talist.
Með það í huga er ekki hægt að horfa framhjá því að hundurinn hefur eingöngu verið þarna í 6 vikur og kemur frá ræktunarbúi í útlöndum í gegnum einangrunarstöð til þeirra. Hann hefur ekki fengið neina formlega þjálfun né uppeldi sem er algjört grundvallar atriði með hunda af þessari tegund, stærð og uppruna (kemur frá ræktunarbúi ca 13 mánaða).
Það er okkar álit að þessi hundur er ekki hættulegur í daglegri umgengni en hann má ekki vera bundinn fyrir utan heimili sitt nokkurn tíma, því að öllu óbreyttu gæti þetta gerst aftur.
Það er skoðun undirritaðra að hægt sé að þjálfa hundinn svo hann sýni ekki þessa ríku varnaráráttu og svona árás er vel hægt að koma í veg fyrir með því að setja hundinn aldrei í þessar aðstæður aftur, í band fyrir utan hús né hafa hann án eftirlits innan girðingar á lóðinni eða utan.
Christel er eingöngu 16 mánaða og verður ekki fullorðinn fyrr en um 36 mánaða. Á þeim tíma væri hægt að þjálfa hana og umhverfisvenja til að sjá hvernig skapgerð hún kemur til með að bera en það þýðir að hún þarf stöðugt að fá rétta þjálfun og uppeldi. Sá er verður umsjónaraðili hundsins verður að gera sér grein fyrir því að árangur næst ekki nema með markvissri þjálfun og viðurkenningu á eðliseiginleikum hans. Þar er átt við að eiginleikinn (ríkulegt varð- og varnareðli tegundarinnar) verður alltaf til staðar en því þarf að stjórna. Einnig er mjög mikilvægt að aðbúnaðurinn og umhverfið sem hún býr við geti sem best stuðlað að eðlilegum þroska. Slíkt er mikilvægt fyrir alla hunda en sérstaklega fyrir hunda með mikið varnareðli.“
Fyrir liggja upplýsingar um að hundur sá, sem mál þetta varðar, hafi þann 4. mars sl. bitið konu, sem kom að heimili kæranda, svo fast og djúpt að sauma þurfti saman sár sem hún hlaut, auk þess sem hann hafi reynt að draga hana niður. Verður því ekki um það deilt að árás hundsins á konuna var mjög alvarleg. Þá liggja einnig fyrir upplýsingar um að hundurinn hafi áður bitið eða glefsað í manneskju. Jafnframt liggur fyrir að kærandi, sem er eigandi nokkurra hunda í Hveragerði, hafði haft hundinn hjá sér í sex vikur án þess að gera reka að því að skrá hann og fá leyfi bæjaryfirvalda til að hafa hann og án þess að kaupa ábyrgðartryggingu vegna hundsins, eins og skylt er samkvæmt samþykkt um hundahald í Hveragerðisbæ. Þá braut kærandinn einnig gegn sömu samþykkt þegar atburðurinn átti sér stað með því að hafa hundinn bundinn utandyra með tauminn inn í gegnum bréfalúguna þannig að ekki var unnt að komast óhindrað að húsi því sem kærandi bjó í. Þegar til alls þessa er litið, en þó einkum framangreindrar niðurstöðu héraðsdýralæknis þess efnis að töluverðar líkur séu á að umræddur hundur bíti aftur og framangreindrar niðurstöðu álits hundaatferlisráðgjafa og dýralæknis þess efnis að að öllu óbreyttu gætu atvik gerst aftur, svo og að teknu tilliti til almennra öryggissjónarmiða, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærði hafi við ákvörðun sína tengda atburðinum 4. mars sl. ekki haft tilefni til að ganga skemur en að ákveða að aflífa skyldi hundinn, eins og veitt er heimild til í a-lið 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ. Því telur úrskurðarnefndin kærða ekki hafa, við töku hinnar kærðu ákvörðunar, brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hugsanlegt fjártjón kæranda breytir í engu þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Rétt þykir að taka fram að ákvæði a-liðar 10. töluliðar 2. gr. samþykktar um hundahald í Hveragerðisbæ gerir ekki að skilyrði að tjónþoli krefjist aflífunar hunds sem valdið hefur honum tjóni. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun kærða um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.
Steinunn Guðbjartsdóttir
Gunnar Eydal Valgerður Dís Valdimarsdóttir
Date: 7/4/11