Ár 1998, miðvikudaginn 1. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 1998/05; 98030005
Ágreiningur milli húseigenda við Móabarð í Hafnarfirði og byggingaryfirvalda um samþykkt umsóknar um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhúsnæði á lóðinni nr. 21 við Melabraut.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9.2. 1998, kærir Jónatan Sveinsson hrl., f. h. þinglesinna eigenda fasteignanna nr. 16, 18, og 20B við Móbarð í Hafnarfirði, ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.1. 1998 um að samþykkja umsókn H f. h. Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 ferm. iðnaðarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut
Þess er krafist að framangreind ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi.
Í bréfinu var þess jafnframt krafist, með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á lóðinni, þar sem þegar hefur verið grafinn grunnur að húsinu, þar til ágreiningi þessum hafi verið ráðið til lykta hjá nefndinni.
Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Kröfur sínar rökstyðja kærendur með því að framangreind ákvörðun byggingarnefndar hafi verið ólögmæt. Þeir séu meðal þeirra sem eiga íbúðarhús í næsta nágrenni og eigi þar af leiðandi lögvarinn rétt til þess, að yfirvöld skipulags- og byggingarmála hagi afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi með þeim hætti að ekki verði að nauðsynjalausu gengið á hagsmuni þeirra.
Byggingarnefnd hafi borið sig ranglega að við afgreiðslu umsóknarinnar. Henni hafi borið, samkvæmt 1. sbr. 2. og 7. mgr. 43. greinar, sbr. 23. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi 1. janúar 1998, að vísa málinu til skipulagsnefndar áður en hún tók það til endanlegrar afgreiðslu. En hvort heldur sem umsóknin hefði verið meðhöndluð og afgreidd eftir eldri eða núgildandi skipulags- og byggingarlögum rúmaðist ákvörðun byggingarnefndar, um að samþykkja umsóknina, ekki innan gildandi „deiliskipulags“ á svæðinu að því er varðaði stærð hinnar fyrirhuguðu byggingar. Það hefði byggingarnefndarmönnum átt að vera ljóst þar sem um hafi verið að ræða leyfi til byggingar á stakri lóð í fullbyggðu hverfi og því lítið svigrúm til að víkja frá gildandi „deiliskipulagi“.
Með bréfum nefndarinnar, dags. 12.2. 1998, var framangreint kærubréf ásamt fylgiskjölum kynnt byggingarnefnd Hafnarfjarðar og byggingarleyfishafa og þeim gefinn kostur á að koma að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og gera athugasemdir, fyrir 27.2. 1998. Jafnframt var sama dag óskað umsagnar Skipulagsstofnunar skv. e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Umsögn Skipulagsstofnunar barst nefndinni í bréfi 20.2. 1998, athugasemdir byggingarleyfishafa í bréfi lögmanns hans dags. 26.2. 1998 og rökstuðningur byggingarnefndar í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27.2. 1998.
Í bréfi byggingarfulltrúa segir m. a. að byggingarnefnd hafi talið, eftir að hafa ráðfært sig við bæjarlögmann, að þar sem umsóknin hafi fyrst komið til umfjöllunar í byggingarnefnd í nóvember 1997 bæri að afgreiða hana samkvæmt þágildandi byggingarlögum og byggingarreglugerð.
Fyrir fundi byggingarnefndar hafi legið samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25 við Melabraut þess efnis að lóðirnar yrðu samnýttar að því er varði bílastæði og athafnasvæði og þar af leiðandi sé sameiginleg nýting þessara lóða 0.38.
Með tilliti til jafnræðis samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi byggingarnefnd látið taka saman á skipulagsuppdrætti af Hvaleyrarholti, dags. í júní 1986, hvar og þá hvernig sambærileg mál hafi í gegnum árin verið samþykkt í þessu iðnaðarhverfi af byggingar- og skipulagsnefnd.
Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a. að á svæðinu sé ekki í gildi samþykkt eða staðfest deiliskipulag, þar sem deiliskipulagstillaga iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti, sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 9.9. 1986 hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu skipulagsstjóra ríkisins skv. grein 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985. Hins vegar sé nýtingarhlutfall það sem byggingarnefnd hafi heimilað á lóðinni nr. 21 við Melabraut langt umfram það sem gert sé ráð fyrir í staðfestu aðalskipulagi.
Að kröfu kæranda, með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð þann 10.3. 1998 þess efnis að framkvæmdir á lóðinni nr. 21 við Melabraut skyldu stöðvaðar á meðan kærumáli þessu væri ráðið til lykta hjá nefndinni.
Niðurstaða: Athugasemdir verða ekki gerðar við málsmeðferð byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókninni. En samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi um s. l. áramót, skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Samhljóða ákvæði var í eldri byggingarlögum nr. 54/1978, sbr. 2. mgr. 9. gr.
Uppdrættir sem samþykktir voru á fundi byggingarnefndar 28.1. 1998 að 1.404 fermetra húsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21. við Melabraut, sem er 2065 fermetrar að stærð, uppfylla ekki framangreind skilyrði. Nýtingarhlutfall á lóðinni er of hátt eða 60% hærra en segir í greinargerð með staðfestu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 frá 23.12. 1997, sem ákveður hámarksnýtingu 0.4 á einstökum lóðum. Einhliða samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25, um að þinglýsa kvöð á lóðirnar um að samnýta bílastæði, opin svæði og aðkomuleiðir og um að lóðarmörk verði ekki girt eða afmörkuð á annan hátt breytir ekki leyfilegu byggingarmagni á lóðinni nr. 21 við Melabraut samkvæmt staðfestu aðalskipulagi.
Samkvæmt samþykktum uppdráttum brýtur fyrirhugað hús einnig í bága við deiliskipulagsuppdrátt iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti frá júní 1986, að því leyti að það er að grunnmáli 10 metrum lengra og 10 metrum breiðara en gert er ráð fyrir á byggingarreit lóðarinnar.
Telja verður framangreindan deiliskipulagsuppdrátt, sem samkvæmt skjölum málsins var samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 9.9. 1986 og kynntur hagsmunaaðilum og nágrönnum 10. sama mánaðar, vera bindandi skipulag fyrir skipulags- og byggingaryfirvöld og lóðarhafa, þótt hann hafi ekki, vegna athugsemda um að finna þurfi lausnir til að fækka umferðartengingum við Suðurbraut, verið samþykktur af skipulagsstjóra ríkisins skv. grein 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/ 1985.
Samantekt byggingarnefndar um sambærileg mál sem samþykkt hafi verið af byggingar- og skipulagsnefnd í þessu iðnaðarhverfi hefur eðli málsins samkvæmt ekki áhrif á niðurstöðu þess máls sem hér er til úrlausnar.
Með vísun til framanritaðs fellst úrskurðarnefnd á kröfu kærenda.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.1.1998 og bæjarstjórnar þann 3.2.1998, um að samþykkja umsókn H f. h. vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, er felld úr gildi.