Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:
Mál nr. 49/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, með samþykkt bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um að veita leyfi til jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12 í Garðabæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 23. mars 2025, kæra A, B, D og E persónulega og fyrir hönd, Habs ehf., lóðarhafar Skerpluholts 1, 3, 5 og 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar, sem samþykkt var í bæjarráði Garðabæjar 27. ágúst 2024, að veita leyfi vegna jarðvegsframkvæmda að Vorbraut 8-12. Verður af kæru ráðið að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 1. apríl 2025 og viðbótargögn 2., 8., 9. og 11. apríl s.á.
Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 16. ágúst 2024, var sótt um byggingarheimild eða -leyfi vegna byggingaráforma á lóð nr. 8-12 í Garðabæ. Í umsókninni kom fram að óskað væri eftir „jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8 – 10 – 12“. Samþykkti byggingarfulltrúi Garðabæjar erindið 19. s.m. og var í bréfi um afgreiðsluna tekið fram að sótt hefði verið um leyfi í samræmi við „graftrar- og fleygunarplan“ frá tilgreindri verkfræðistofu. Var sú ákvörðun samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 27. s.m. Fyrir liggur að framkvæmdir eru hafnar.
Kærendur vísa til þess að ekki sé heimild til hinna umdeildu jarðvegsframkvæmda í deiliskipulagi og séu mannvirki við Skerpluholt í hættu vegna þeirra. Svo virðist sem veitt hafi verið leyfi til að byrja að grafa fyrir bílakjallara sem gert sé ráð fyrir í breytingu á deiliskipulagi sem sé til meðferðar hjá Garðabæ en hafi ekki verið afgreidd. Hinn 4. júní 2024 hafi bæjarráð Garðabæjar fjallað um tillögu skipulagsnefndar varðandi breytingu á deiliskipulaginu. Um hafi verið að ræða umsókn um að sameina lóðirnar að Vorbraut 8, 10 og 12 í eina lóð og byggja sameiginlegan bílakjallara með stækkuðum byggingarreit. Breytingarnar hafi verið sagðar óverulegar og samþykkt að grenndarkynna breytinguna, m.a. fyrir kærendum, en sú grenndarkynning hafi ekki farið fram. Breytingatillagan hafi hvorki verið afgreidd né birt í Stjórnartíðindum og sé deiliskipulagið því óbreytt. Að auki sé í raun um að ræða verulega breytingu á deiliskipulagi sem beri að afgreiða eins og nýtt deiliskipulag skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjaryfirvöld benda á að ákveðið hafi verið að sameina þær breytingar sem gera átti á gildandi deiliskipulagi samkvæmt tillögunum sem legið hafi fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar 4. júní 2024 við aðrar breytingar á hverfinu og auglýsa þær í samræmi við 1. mgr. 43. gr., sbr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi tillaga að breytingunum verið auglýst frá 24. október 2024 til og með 5. desember 2024 og hafi nokkrar athugasemdir borist. Tillagan hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 6. febrúar 2025 og sé meðferð hennar að ljúka og hún verði fljótlega send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda. Lóðarhöfum Vorbrautar 8-12 hafi í september 2024 verið veitt heimild til að hefja jarðvinnu, en hinar kærðu framkvæmdir hafi þó ekki hafist fyrr en eftir samþykkt bæjarstjórnar 6. febrúar 2025.
Jarðvegsframkvæmdum sé að mestu lokið, en framkvæmdirnar séu í eðli sínu afturkræfar og undir yfirborði lóðar. Nauðsynlegt sé að koma sem fyrst fyrir stoðvegg til að styðja við jarðveg á lóðum kærenda og óráðlegt sé að fresta þeirri framkvæmd. Kærendur hafi á fundi með bænum og verktaka hinn 19. mars 2025 í raun samþykkt að slíkur stoðveggur verði settur upp.
Leyfishafi álítur að breyting deiliskipulagsins lúti ekki að atriðum sem varði hagsmuni kærenda og því beri að hafna kröfu þeirra. Öll skilyrði fyrir deiliskipulagsbreytingunni hafi verið uppfyllt og sé aðeins formsatriði að klára skjalafrágang.
_____
Úrskurðarnefndin óskaði frekari upplýsinga frá Garðabæ um undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Meðal þeirra gagna sem bárust 2. apríl 2025 voru umsóknargögn dags. 16. ágúst 2024 þar sem óskað var eftir ,,jarðvinnuleyfi fyrir Vorbraut 8-10-12.“ Í þeim kom fram að sótt var um leyfi til jarðvinnu m.a. vegna bílakjallara á lóð Vorbrautar 8-12 sem ekki var á deiliskipulagi.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar sem samþykkt var í bæjarráðs Garðabæjar 27. ágúst 2024, um leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum vegna bílakjallara að Vorbraut 8–12.
Með tölvupóstum 8. og 9. apríl 2025 tilkynnti Garðabær nefndinni að auglýsing nr. 380 frá 2. apríl 2025 um breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar, rammahluta aðalskipulags í Vífilsstaðalandi, vegna fjölgunar íbúða, hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, með útgáfudegi 7. apríl 2025. Einnig hafi auglýsing nr. 382 frá 7. apríl 2025 um skipulagsmál í Garðabæ, með breytingu á deiliskipulagi fyrir Hnoðraholt norður, birst í B-deild Stjórnartíðinda sama dag. Þessu til viðbótar upplýsti Garðabær nefndina um að bæjarráð Garðabæjar, sem einnig starfar sem byggingarnefnd, hafi á fundi sínum 8. apríl 2025 samþykkt byggingarleyfi fyrir Vorbraut 8-12 og Vorbraut 14. Framkvæmdir á lóðunum styðjist eftir það við ný leyfi. Með tölvupósti 11. apríl 2025 sendi Garðabær nefndinni afrit af tilkynningu til lóðarhafa um samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að nýtt byggingarleyfi hefur verið samþykkt vegna framkvæmda á umræddri lóð að undangenginni breytingu á deiliskipulag svæðisins sem tekið hefur gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur hin kærða ákvörðun því ekki lengur réttarverkan að lögum. Úrskurður um hið kærða leyfi til jarðvinnu hefur af þeim sökum enga þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni kærenda og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011um úrskurðarnefndi umhverfis- og auðlindamála.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.