Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2002 Sefgarðar

Ár 2003, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2002, kæra eiganda fasteignarinnar að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarnefndar Seltjarnarness á erindi um endurupptöku máls.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. ágúst 2002, sem barst nefndinni 2. september s.á. kærir B, Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarnefndar Seltjarnarness á endurupptökumáli.

Kærandi krefst þess að byggingarnefnd hraði endurupptöku ákvörðunar byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 varðandi skjólvegg og gróður á lóðamörkum lóðanna Sefgarða 16 og 24.

Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi en þannig hagar til að mörk lóðar kæranda liggja að mestu að lóð hússins nr. 24 við sömu götu.  Við upphaflegan frágang lóðar nr. 24 setti eigandi þeirrar lóðar niður trjáplöntur á lóðamörkum þar sem lóðirnar liggja saman en síðar, árið 1979, reisti hann skjólvegg úr timbri inn á lóð sinni, samsíða mörkum lóðanna, en í u.þ.b. 30 cm fjarlægð frá þeim.  Skjólveggurinn var einnig reistur á lóðamörkum lóðanna nr. 18 og 24 og einnig á lóðamörkum lóðanna nr. 24 og 26 við Sefgarða.  Deilur hafa staðið milli eigenda fasteignanna að Sefgörðum 16 og 24 um skjólvegg þennan í nokkur ár og m.a. hefur úrskurðarnefndin tvívegis kveðið upp úrskurð vegna þessa; mál nr. 23/2000 og 18/2002. 

Í máli nr. 18/2002 kærði eigandi Sefgarða 24 ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness þess efnis að honum var gert skylt að rífa niður eða endurgera skjólvegg við lóðamörk lóðanna Sefgarða 16 og 24 ásamt nánar tilgreindum frágangi á lóðamörkum.  Þessa ákvörðun byggingarnefndar kærði eigandinn til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Þegar kæranda máls þessa varð kunnugt um ákvörðun byggingarnefndar í málinu vakti hann athygli nefndarmanna á því að krafa hans hafi frá upphafi beinst að öllum skjólveggnum en ekki aðeins þeim hluta sem snúi að lóð hans.  Kærandi fór því fram á það við byggingarnefnd að tekin yrði ný ákvörðun, sama efnis, en að auki yrði tekin afstaða til þess hluta skjólveggjarins sem snúi að Sefgörðum 18 og 26.  Þá fór kærandi einnig fram á að nefndin tæki afstöðu til kröfu kæranda um brottnám trjágróðurs á lóðamörkum Sefgarða 16 og 24.  Byggingarnefnd fjallaði um erindi kæranda á fundi hinn 22 maí 2002 og afgreiddi með svofelldri bókun:  „Byggingarnefnd hefur tekið erindið til umræðu og mun í framhaldinu kynna eigendum lóðanna Sefgarðar 26 og 18 framkomna beiðni.“

Kærandi hefur nú skotið drætti á afgreiðslu byggingarnefndar á erindi hans til úrskurðarnefndar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur nauðsynlegt að byggingarnefnd taki nýja ákvörðun í málinu í stað þeirrar fyrri í ljósi þess að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úrskurði ekki um efnisatriði sem lægra sett stjórnvald hafi ekki tekið fullnægjandi ákvörðun um.  Dráttur sá sem orðinn sé á málinu sé óhæfilegur af hálfu byggingarnefndar og óásættanlegur með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og krefst kærandi þess að málið verði endurupptekið og tekið til efnismeðferðar hjá byggingarnefnd.
 
Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
  Í greinargerð lögmanns byggingarnefndar kemur fram að nefndin hafi ekki tekið til greina kröfu kæranda um að skjólveggurinn yrði fjarlægður á mörkum lóðanna nr. 24 og 26 þar sem nefndin hafi talið að kærandi ætti ekki aðild að því máli.

Niðurstaða:  Ákvörðun byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 þess efnis að eiganda fasteignarinnar að Sefgörðum 24 bæri að að rífa eða endurgera skjólvegg á lóðamörkum lóðar hans og nr. 16 ásamt nánar tilgreindum frágangi á lóðamörkum var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir og með úrskurði dagsettum í dag hefur nefndin kveðið upp úrskurð sinn.  Samkvæmt þeim úrskurði er ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness felld úr gildi.  Ákvörðun byggingarnefndar hefur því ekki lengur gildi að lögum og á því kærandi ekki lögvarða hagmuni af því að fá málið endurupptekið hjá byggingarnefnd. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________     _____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                Ingibjörg Ingvadóttir