Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2022 Flókagata

Árið 2022, þriðjudaginn 24. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 48/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl 2022 á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Ljóshólar ehf. afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl s.á. á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hinn 1. apríl 2022 sendi lögmaður kæranda á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4, eignarhluta 01 0001. Erindinu fylgdi bréf og önnur gögn. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. s.m. þar sem bókað var að spurt hafi verið um leyfi til að skrá áður gerða íbúð í kjallara sem sér fasteign á grundvelli fordæmis á samþykktu erindi frá 1998 og skoðunarskýrslu vegna brunavirðis frá 1938 í húsi á lóð nr. 4 við Flókagötu. Er erindinu svarað „neikvætt“ og vísað til umsagnar á athugasemda­blaði.

Kærandi bendir á að Flókagata 4-6 sé fjöleignarhús sem skiptist í fimm eignarhluta. Flókagata 6 skiptist í þrjár íbúðir og þrjá eignarhluta, ein íbúð á hvorri hæð og ein í kjallara. Flókagata 4 skiptist einnig í þrjár íbúðir, ein á hvorri hæð og ein í kjallara, en einungis tvo eignarhluta þar sem íbúð í kjallara og íbúð á 1. hæð séu undir sama fasteignanúmeri. Í báðum húsum hafi verið íbúðir í kjallara frá upphafi en íbúðin í kjallara Flókagötu 6 hafi verið samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 24. febrúar 1998 á þeim grundvelli að það samræmdist reglum um áður gerðar íbúðir. Þegar aflað hafi verið upplýsinga vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar fyrir Flókagötu 4 hafi starfsmaður byggingarfulltrúa upplýst um að íbúðin í kjallara hússins yrði að vera samþykkt af byggingarfulltrúa, annars yrði hún skráð sem geymslur. Af því tilefni hafi fyrirspurn verið lögð fyrir byggingarfulltrúa um samþykki fyrir áðurgerðri íbúð í kjallara. Þótt einungis hafi verið um afgreiðslu á fyrirspurn að ræða þá liggi ljóst fyrir að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða sem kæmi í veg fyrir að kærandi gæti lokið við gerð eignaskiptayfirlýsingar.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á fyrirspurn kæranda, dags. 1. apríl 2022, um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4 í Reykjavík. Erindi kæranda var sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að sótt væri eftir samþykki. Afgreiðsla byggingarfulltrúa ber þess einnig merki að um afgreiðslu á fyrirspurn sé að ræða þar sem erindið og svör við því er bókað undir „ýmis mál“ í fundargerð frá afgreiðslufundi 12. apríl 2022 og það afgreitt „neikvætt“ en erindinu ekki hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla byggingarfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.