Ár 2007, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 47/2006, kæra eiganda eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Grettisgötu 46, Reykjavík á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2006 um að stöðva framkvæmdir við þak fyrrgreinds húss.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júní 2006, kærir E, eigandi eignarhluta í fjölbýlishúsinu að Grettisgötu 46 í Reykjavík synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2006 um að stöðva framkvæmdir við þak fyrrgreinds húss.
Krafist er ógildingar á hinni kærðu afstöðu byggingarfulltrúa og að honum verði gert að stöðva framkvæmdir og krefjast umsóknar um umdeildar breytingar. Jafnframt fór kærandi fram á að úrskurðarnefndin hlutaðist til um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Í þann mund er kæran barst úrskurðarnefndinni var umdeildum framkvæmdum lokið og voru því ekki efni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.
Málsatvik og rök: Með tölvubréfi kæranda til byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 8. júní 2006, var þess krafist að hann stöðvaði framkvæmdir við að fjarlægja steinskífur af hluta þaks hússins að Grettisgötu 46. Byggingarfulltrúi hafnaði samdægurs þeirri málaleitan í tölvubréfi til kæranda og gerði kærandi athugasemdir við þá afstöðu byggingarfulltrúa í tölvubréfi þann sama dag. Byggingarfulltrúi ítrekaði fyrri afstöðu sína í tölvubréfi til kæranda hinn 12. júní 2006 og benti þar á kæruleið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Byggir kærandi málskot sitt á því að um sé að ræða óleyfisframkvæmdir af hálfu meðeigenda hans að umræddri fasteign þar sem að sækja beri um leyfi fyrir útlitsbreytingum frá samþykktri teikningu auk þess sem breytingarnar brjóti gegn höfundarrétti hönnuðar hússins og raski útliti þess. Vísar kærandi til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 auk gr. 11.1, 12.2 og 12.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Með hinni kærðu afgreiðslu synji byggingarfulltrúi um stöðvun framkvæmda sem honum beri að lögum að framfylgja án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeirri ákvörðun.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins en ella að umdeild ákvörðun byggingarfulltrúa standi óröskuð. Málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála á þeim grundvelli sem það sé sett fram. Svo virðist sem ágreiningur sé uppi meðal eigenda um þakefni hússins en þau lögskipti fari eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík skeri ekki úr deilum innan húsfélaga, heldur eigi slíkur ágreiningur undir dómstóla. Húseigendur geti og beint álitaefnum á þessu sviði til kærunefndar fjöleignarhúsamála sem veiti leiðbeinandi álit í slíkum ágreiningsmálum. Að sama skapi eigi höfundarréttarmál ekki undir embætti byggingarfulltrúa heldur dómstóla. Að öðru leyti sé byggt á því að sú framkvæmd að fjarlægja þakefni af umræddu húsi geti ekki talist byggingarleyfisskyld framkvæmd eins og henni sé lýst í kæru og eigi því tilvísun kærenda til 43. gr. laganna og ákvæða byggingarreglugerðar ekki við.
Niðurstaða: Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúans í Reykjavík á erindi kæranda fól í sér synjun embættisins á að beita heimildarákvæði 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um stöðvun framkvæmda. Ákvörðun byggingarfulltrúa um slíka stöðvun samkvæmt nefndri 1. mgr. er bráðabirgðaákvörðun sem byggir á frjálsu mati embættisins en byggingarnefnd skal taka afstöðu til hennar svo fljótt sem verða má. Í 1. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um að byggingarnefndir fari með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og í 2. mgr. 39. gr. laganna segir að leggja skuli ákvarðanir nefndarinnar fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Samkvæmt 4. gr. samþykktar um afgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík nr. 161/2005 skulu afgreiðslur embættisins lagðar fram á næsta fundi skipulagsráðs og bókaðar í fundargerð og hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs.
Erindi kæranda og svar byggingarfulltúa og önnur samskipti þeirra vegna álitaefnis þess sem hér er til umfjöllunar fóru einungis fram með tölvubréfum en ekki liggur fyrir að umrætt erindi og afgreiðsla þess hafi verið tekið fyrir og bókað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa eða lagt fyrir fund skipulagsráðs. Þá hefur borgarráð ekki tekið afstöðu til málsins.
Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa hefur samkvæmt framansögðu hvorki fengið þá formlegu meðferð er fyrrgreind ákvæði áskilja né lögmælta staðfestingu. Verður hin kærða afgreiðsla því ekki talin stjórnvaldsákvörðun sem feli í sér lokaafgreiðslu máls og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson